Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 18:43:39 (2594)

1999-12-08 18:43:39# 125. lþ. 40.1 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Það sem er veigamest í því sem fram kemur í svörum hæstv. ráðherra er að verið er að vinna í samræmi við þá úttekt sem gerð var á skólum og verið er að fara eftir þeim ábendingum sem Brunamálastofnun hefur sett fram. Það sem skiptir máli er þegar svona úttektir liggja fyrir, svona alvarlegar úttektir, að þær séu ekki bara settar ofan í skúffu og ekkert með þær gert heldur séu viðkomandi aðilar sem bera þarna ábyrgð, eins og sveitarfélögin í þessu tilviki, að vinna að úrbótum í þessu efni. Það hefur komið skýrt fram hjá ráðherranum og ég fagna því og ég vona að hæstv. ráðherra fylgi því máli eftir.

Ég fagna því einnig að í gangi er úttekt á leikskólum. Vænti ég þess að hæstv. ráðherra muni þá fylgja því fast eftir ef fram kemur einhver brotalöm og þar vanti að ganga til verks að bæta úr, að ráðherrann fylgi því eftir að það verði gert hjá sveitarfélögunum.

Ég vil líka benda á að þetta var á fleiri stöðum og sá ég það í dag að kvartað hefur verið yfir brunavörnum sjúkrahúsa á Akranesi og þar virðist vera krafist að brunavarnir sjúkrahúsa verði teknar til alvarlegrar skoðunar og framkvæmdir hefjist eins fljótt og auðið er. Það virðist því víða vera brotalöm í þessu efni og alveg ljóst að mjög mikilvægt er að ráðherrann sé þarna á verði og fylgist með því að réttir aðilar sem þarna eiga að bera ábyrgð sinni því verkefni sínu að bæta þar úr.