Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 18:46:57 (2596)

1999-12-08 18:46:57# 125. lþ. 40.1 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka upplýsingarnar sem fram komu hjá hæstv. umhvrh. sem mér fannst í fyrstu ætla að skjóta sér hjá því að taka þátt í umræðunni. Kvaðst hæstv. ráðherra hafa búist við því að fleiri þingmenn mundu kveðja sér hljóðs um þetta efni.

Ég er þeirrar skoðunar að við 1. umr. þingmála sé það hlutverk þeirra sem leggja frumvörpin fram að gera ítarlega grein fyrir máli sínu og þeim rökum sem liggja að baki frumvörpum eða þáltill. sem fram eru settar.

Þetta frv. fjallar um að skerða tekjur Brunamálastofnunar ríkisins. Peningar umfram 87 millj. skulu renna í ríkissjóð samkvæmt þessu frv. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur veitir ekki af fjármagni til brunavarna í landinu og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði í skýrslu sem Brunamálastofnun sendi frá sér um eldvarnir í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu þar sem kom fram að tveir af hverjum þremur skólum hefðu ófullnægjandi brunavarnir og að Eldvarnaeftirlitið segði að ekki væri gerlegt að framfylgja athugasemdum stofnunarinnar þar sem ekki sé tekið tillit til bygginga sem reistar eru fyrir tíma brunareglugerðar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði einnig í kvartanir yfir brunavörnum sjúkrahússins á Akranesi. Ég ætla að leyfa mér að bæta örlitlu í þennan pott vegna þess að á undanförnum mánuðum hafa komið fram mjög alvarlegar athugasemdir og alvarleg gagnrýni á brunavarnir í landinu almennt. Formaður Bændasamtaka Íslands lýsti því yfir ekki alls fyrir löngu að hann hefði af því þungar áhyggjur hvernig komið væri í sveitum landsins, á bændabýlum. Rafverktakar víða um land hafa einnig lýst áhyggjum vegna þessara mála og tengja það þeim skipulagsbreytingum sem ríkisstjórnin gekkst fyrir um Rafmagnseftirlit ríkisins.

Eins og menn rekur eflaust minni til gekkst ríkisstjórnin fyrir róttækum breytingum á því sviði. Áður hafði sá háttur verið hafður á að starfsmenn rafveitna önnuðust eftirlit með rafmagnslögnum og var gerð úttekt á hverri einustu íbúð í landinu, hverjum einasta vinnustað, hverjum einasta sumarbústað, hverju einasta bændabýli, hvað þetta snertir. Ríkisstjórnin gekkst fyrir lagabreytingu á þessu sviði og hugmyndafræðin var sú að hér eftir skyldi einvörðungu vera um úrtaksskoðun að ræða. Hugsunin var þessi: Reynum að búa svo um hnútana að þeir sem vinna verkin, rafverktakarnir, ræki skyldur sínar mjög vel og þeir eiga að vinna eftir ákveðnum stöðlum sem Löggildingarstofan setur.

Til þess að tryggja að þeir geri það í raun skyldi framkvæmd úrtaksskoðun og þessi úrtaksskoðun nemur 10--20%, tíunda til tuttugasta hver íbúð er athuguð að þessu leyti. En að sjálfsögðu er þetta háð því að inn komi tilkynningar um nýjar veitur sem svo eru nefndar og er þá skírskotað til bæði íbúða og vinnustaða. En það eru mjög mikil brögð að því að þetta sé ekki gert. Þess vegna komu fram yfirlýsingar af hálfu aðila á borð við Bændasamtök Íslands sem hafa lýst áhyggjum yfir þessu. Í mín eyru hafa margir rafverktakar, ekki síst á landsbyggðinni, haft af þessu áhyggjur. Það má skjóta því inn í þessa röksemdafærslu að þær breytingar sem ríkisstjórnin gekkst fyrir hafi orðið til að veikja og grafa undan byggðastefnu. Þeir sem sinntu eftirlitinu áður bjuggu víðs vegar um landið, voru starfsmenn rafveitnanna. Skoðunarstofurnar sem fengu nú þetta hlutverk eru hins vegar allar í Reykjavík. Þær eru ekkert mjög margar. Ætli þær sé ekki tvær, þrjár talsins. Ég veit ekki hversu margar þær eru núna. Þær senda síðan liðsmenn sína út á landsbyggðina til þess að framkvæma þetta eftirlit, að sjálfsögðu fyrir ærinn pening.

Greint var frá því í austfirsku dagblaði fyrir nokkrum mánuðum að ein slík för Reykvíkinga austur á land til að taka út nokkrar veitur, nokkrar íbúðir, hefði kostað um 1 millj. kr. Eftir mikla gagnrýni, m.a. frá mér, um þetta mál var ráðist í skýrslugerð og athugun á því í sumar. Fenginn var prófessor við Háskóla Íslands til að veita nefnd sem fjallaði um þetta forustu og síðan tóku þátt í þessu starfi tveir aðilar til viðbótar. Þessi nefnd skilaði frá sér áliti sem var ófullnægjandi að mínum dómi. Nefndin klofnaði. Í minnihlutaáliti kom fram gagnýni á þetta nýja fyrirkomulag. Meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að óttast þessar breytingar og taldi að þegar fram liðu stundir, mundi þetta færast í viðunandi horf. Ég er hins vegar ekki sannfærður um það.

Hæstv. forseti. Ég vildi vekja athygli á málinu vegna þess að þetta tengist brunavörnum í landinu. Full ástæða er til að taka undir varnaðarorð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í þessu efni og full ástæða er til að staldra við þegar ríkisstjórnin kemur nú með frv. þar sem gert er ráð fyrir því að skerða framlag til brunavarnamála í landinu, full ástæða til að staldra við og íhuga hvað sé eiginlega á seyði.

Á þessu vildi ég vekja athygli, hæstv. forseti. Ég kann að óska eftir orðinu að nýju, en mun meta það í ljósi þeirrar umræðu sem nú fer í hönd um þetta efni.