Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 18:56:16 (2597)

1999-12-08 18:56:16# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 268. Það lýtur að breytingu á gildandi lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Lagt er til í frv. að við lögin bætist í 4. gr. svohljóðandi málsgrein, með leyfi forseta:

,,Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.``

Herra forseti. Hér er sem sagt lagt til að bætt verði við lögin þessum tveimur setningum og fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég hygg að þingmenn og aðrir þekki mætavel. Það hefur iðulega reynt á það á undanförnum árum og frá því að þessi lög tóku gildi að gripið hefur verið til aðgerða sem að margra dómi hefur mátt jafna til verkfalla án þess þó að með þær hafi verið farið sem slíkar. Þannig hefur friðarskylda verið rofin og menn knúð fram markmið sín með aðgerðum sem verður að telja óeðlilegar í samskiptum aðila á vinnumarkaði. Hér er sem sagt lagt til að slíkum aðgerðum verði jafnað til verkfalla og er þá kannski sérstaklega verið að hafa í huga svokallaðar fjöldauppsagnir sem eru þekkt fyrirbæri, ekki síst á undanförnum missirum.

Í nýlegu máli af því tagi reyndi á gildandi lagaákvæði fyrir Félagsdómi. Félagsdómur féllst ekki á það að gildandi lagaákvæði væru fullnægjandi til þess að flokka fjöldauppsagnir með þeim hætti sem deilt var um og eins og haldið var fram af sveitarfélaginu Árborg í því máli. Félagsdómur taldi ekki unnt án skýrra lagaákvæða, eins og dómurinn orðaði það, að taka af skarið með þeim hætti sem krafist var í því máli.

Það sem hér er verið að leggja til, virðulegi forseti, er að sett verði skýr lagaákvæði um þetta atriði. Það hygg ég að sé nauðsynlegt og það hygg ég að sé öllum aðilum sem að þessum málum koma fyrir bestu vegna þess að mjög nauðsynlegt er að um málefni á vinnumarkaði gildi alveg skýrar leikreglur og það hefur ekki verið að þessu leyti til.

Í undirbúningi þessa frv. var höfð hliðsjón af því lagaákvæði sem gildir um sambærilega hluti á hinum almenna vinnumarkaði og farið í smiðju í lögin um stéttarfélög og vinnudeilur eins og þau gilda núna og ákvæðið tekið þaðan óbreytt, þó með þeirri breytingu sem leiðir af því að opinberir vinnuveitendur hafi ekki verkfallsbannsrétt eins og gildir á hinum almenna vinnumarkaði.

[19:00]

Það leiðir hugann að því hvort vera megi að önnur ákvæði í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur gætu átt við hinn opinbera vinnumarkað í ríkari mæli en er að finna í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Vel má vera að svo sé. Ég tel þó augljóst að ekki er hægt að taka þau lög óbreytt upp sem fyrirmynd í kjarasamningamálum opinberra starfsmanna enda um eðlisólíka starfsemi að ræða og oft á tíðum mjög viðkvæma þjónustu sem hið opinbera veitir t.d. á sjúkrastofnunum.

Hins vegar kann að vera að í einhverjum mæli sé skynsamlegt og rétt að breyta gildindi lögum um kjarasamninga opinberra strfsmanna með tilliti til almennra kjarasamningalaga. Ábendingar þar að lútandi hafa vissulega borist frá hagsmunasamtökum opinberra starfsmanna, frá stéttarfélögum þeirra.

Ég vil þó taka fram að sú breyting sem hér er lögð til er ekki afrakstur af samkomulagi eða viðræðum við þau samtök. Þeim hefur að vísu verið kynnt þessi fyrirhugaða lagabreyting en það var ekki farið fram á að þau skrifuðu upp á hana eða bæru ábyrgð á þessu frv. að öðru leyti. Ég tel reyndar að ekki sé hægt að ætlast til þess að stéttarfélög opinberra starfsmanna skrifi upp á frv. af þessu tagi. Eigi að síður er þessi breyting að mínum dómi nauðsynleg. Ég held reyndar að hún styrki stéttarfélögin í starfsemi þeirra og forustumenn þeirra sem semja við ríkisvaldið. Aðgerðir eins og þær sem vikið er að í þessu frv. eru til þess fallnar að grafa undan forustumönnum stéttarfélaganna, samningum þeirra og forustuhlutverki á þessu sviði.

Ég vil að það komi skýrt fram að enda þótt ég hafi kynnt málið fyrir forustumönnum BSRB, BHM og Kennarasambandsins þá var þetta mál ekki liður í neinu samkomulagi við þau samtök. Ég geri ráð fyrir því að þau séu málinu andvíg.

Hins vegar hef ég áréttað við forustumenn þeirra samtaka og það hefur reyndar komið fram hjá þeim sjálfum við önnur tækifæri, að e.t.v. væri skynsamlegt að huga að heildarendurskoðun laga nr. 94 frá 1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og reyna e.t.v. að finna því máli farveg svipað og gert var 1986. Frv. sem þá varð að lögum var unnið í samstarfi viðkomandi aðila og lagt fram að loknu því sem kalla mætti samningaviðræður milli ríkisins og þessara samtaka. Það var síðan lögfest óbreytt að þeirri niðurstöðu fenginni. Ég hef sagt forustumönnum opinberra starfsmanna að ég sé tilbúinn að beita mér fyrir þessu í góðu samstarfi við þá.

Þó getur ekki verið um það að ræða að löggjafinn afsali sér löggjafarvaldinu beint eða óbeint til hagsmunasamtaka eins og hér um ræðir. Auðvitað getur ekki verið um það að ræða. Slík samtök geta ekki haft neitunarvald, t.d. um hvort frv. eins og þetta er flutt. Alþingi verður sjálft að ákveða hvort það vilji setja ákvæði sem þetta í lög. Ég tel hins vegar að sjálfsagt sé að hafa samráð og helst gott samstarf við samtök opinberra starfsmanna. Ég tel það farsælast og líklegast til þess að leiða til góðrar niðurstöðu að gera út um málin í góðu samstarfi þessara aðila. Að mínum dómi er þá líklegra að Alþingi fallist á niðurstöðuna.

Ég hyggst ekki fara fleiri orðum um þetta frv., virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.