Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 19:52:17 (2602)

1999-12-08 19:52:17# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[19:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Kjarasamningur er gagnkvæmissamningur tveggja aðila, annars vegar stéttarfélags eða samtaka stéttarfélaga og hins vegar fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja. Þarna mætast tveir aðilar og friðarskyldan sem um er rætt felst einfaldlega í því að menn lofa að standa við undirskrift sína á samningstímanum. Það er nú ekki flóknara en það. Menn lofa sem sagt að standa við undirskriftina. Það er eitthvað að marka undirskriftina undir samningnum.

Dómur Félagsdóms frá því nýlega ógilti undirskrift fulltrúa opinberra starfsmanna. Dómurinn sagði einfaldlega: ,,Þessi undirskrift er einskis virði. Hana er ekkert að marka. Það er ekki friðarskylda. Samningurinn sem þið skrifuðuð undir gildir bara ekki út samningstímann.``

Í ljósi þess átti ég von á því að samtök opinberra starfsmanna rykju upp til handa og fóta og krefðust þess eins og skot að ríkisvaldið bætti úr þessu með nýrri lagasetningu, þeim lögum sem hér liggja fyrir, þannig að eitthvað yrði að marka undirskrift þeirra.

En það gerðist ekki. Þeir segja að þetta sé reyndar slæmt o.s.frv. en huga þurfi að heildarendurskoðun og allt svoleiðis. Það á því að tefja þetta. Áfram á sem sagt ekkert að marka það sem þeir skrifa undir. Það er gert lítið úr þeim.

Ég geri mikinn mun á hópuppsögnum og uppsögnum þar sem menn segja upp til þess að ráða sig annars staðar vegna þess að þar eru í boði hærri laun. Ég geri líka mikinn mun á hópuppsögnum og uppsögnum fyrirtækja þar sem ekki stendur til að ráða fólkið aftur með lægri laun heldur vegna þess að fyrirtækið þarf af einhverjum ástæðum að minnka við sig og segja upp. Það ræður ekki lengur við þann rekstur sem það er með af því að launin eru orðin of há eða verð á framleiðslunni hefur lækkað eða eitthvað slíkt.

En þegar menn segja upp til þess að fá aftur vinnu hjá sama vinnuveitanda með hærri laun eða ef fyrirtæki segir upp starfsmönnum til þess að ráða þá aftur með lægri laun, þá er það brot á friðarskyldunni og um það vorum við einmitt að ræða.

Menn tala um vinnumarkað. En þeir átta sig ekkert á því að í orðinu felst ,,markaður`` sem þýðir framboð og eftirspurn, þ.e. framboð á vinnuafli og eftirspurn eftir vinnuafli. Þetta framboð og eftirspurn endurspeglast í verðinu sem eru launin. Við erum alltaf að tala um markaðslaun. Þegar atvinnuleysið var sem mest hallaði verulega á launþegana. Menn vita hvernig það var þegar það var 6% atvinnuleysi og sumir atvinnurekendur urðu mjög leiðinlegir og beittu allt að því kúgunum. Þetta er þekkt um alla Evrópu þar sem er 10% atvinnuleysi, þar sem atvinnurekendur kúga launþegana til þess að sætta sig við lægri laun, lengri vinnutíma o.s.frv.

Það öfuga gerist þegar atvinnuleysið minnkar. Þá gerist þetta nefnilega öfugt. Þá fara einstakir launþegar að beita kúgun og það er ósköp eðlilegt. Hvort tveggja er ósköp eðlilegt. Nú erum við í þeirri stöðu að alls staðar vantar fólk og þá fara launþegarnir að beita kúgunum. Ef friðarskyldan á ekki að gilda þá getur þetta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir launþega ef atvinnuleysi skyldi aukast aftur, sem guð gefi að gerist ekki því ég tel að það sé mjög mikilvægt að atvinnuleysi sé lítið. Kannski er það mesta kjarabót fyrir láglaunafólk í þessu landi að atvinnuleysið er nánast horfið.

Ef ekki eiga að gilda þær reglur sem hér er verið að leggja til að settar verði í lög, ef ekki eiga að gilda reglur um það, þá getur nefnilega nákvæmlega það sama gerst í atvinnuleysi þegar hvergi er hægt að fá vinnu. Þá getur það gerst að atvinnurekendur, opinberir atvinnurekendur, spítalar og aðrir, segi upp öllum starfsmönnum sínum til þess að knýja þá til lægri launa. Það gerist alveg nákvæmlega eins ef friðarskyldan á ekki að gilda. Menn þurfa að átta sig á þessu.

Ég held því að sú breyting sem hér er verið að gera sé mjög mikilvæg. Hún gildir til hagsbóta fyrir bæði launþega og fyrirtæki og hún segir eiginlega ekkert annað en að undirskrift aðila á kjarasamningum eigi að gilda.