Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 20:01:02 (2605)

1999-12-08 20:01:02# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[20:01]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði betur hlustað á hæstv. fjmrh. sem lýsti sjálfur í framsögu sinni tilurð þessara laga og vitnaði þar í samkomulag sem gert var á sínum tíma af hálfu fjmrn. við samtök opinberra starfsmanna. Ég vil ítreka það að ég tel mikilvægt að menn virði samninga og um það fjallar þessi umræða hér. (Gripið fram í: Sá samningur var ... 1986.) Sá samningur var gerður árið 1986 (Gripið fram í: Og staðfestur á Alþingi.) Og staðfestur á Alþingi eftir að aðilar höfðu náð um það samkomulagi. En kjarasamningar og framkvæmd kjarasamninga verða ekki keyrð áfram með lögregluvaldi. Hún verður ekki gerð með þeim hætti.

Það á að vera siðaðra manna háttur að komast að samkomulagi um þær leikreglur sem eiga að gilda. Fram á þetta er farið hér, einvörðungu og ekkert annað. Þess vegna vil ég hvetja til þess að frv. verði sett til hliðar og í staðinn verði þess freistað að ná heildarsamkomulagi um breytingar á þessum lögum sem löngu er tímabært að gera og allir eru sammála um að þurfi að gera. Ég vara því við alhæfingum að því tagi sem við heyrðum áðan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal.