Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 20:02:55 (2606)

1999-12-08 20:02:55# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, GIG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[20:02]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þekki af eigin raun vandamálið við hópuppsagnir. Ég skil vel að finna þurfi lausn á því vandamáli. En hópuppsagnir í sjálfu sér eru einkenni á vanda. Til þeirra er gripið í neyð af einhverri ástæðu. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að gera sér grein fyrir því.

Frv. sem við erum að fjalla um stefnir að því að skilgreina hópuppsagnirnar sem ólöglegt verkfall. Spurningin er hvort að það sé lausn. Ef við göngum út frá því að það sé rétt skilið hjá mér að þetta sé einkenni á vanda, þá er spurning sú hvort lausnin felist í því að fara gegn einkennunum.

Þegar ég lít til baka þá man ég vel eftir því hvernig óánægjan safnaðist upp ár frá ári í þeim geira sem ég þekki til, í heilbrigðisþjónustunni, óánægja með starfskjör og óánægja vegna manneklu á sjúkrastofnunum sem einnig stafaði af lélegum kjörum. Þetta leiddi af sér lokanir deilda og smátt og smátt skapaðist slíkt ástand, eftir áralangar tilraunir til að ná samkomulagi við samninganefnd ríkisins um lagfæringu á starfskjörum, að menn fóru að hugsa til neyðarúrræða.

Ég veit ekki hversu margir af hv. þm. hafa tekið þátt í þeim ósköpum að segja upp starfi sínu til að reyna að lagfæra starfskjör. Hér hefur komið fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að standa skuli við samninga. Það held ég að allir séu sammála um. En ég veit ekki hversu oft hv. þm. Pétur Blöndal hefur í samningaviðræðum þurft að benda mótaðilunum á það ár eftir ár að ekki hafi verið staðið við bókanir og stefnu samnings. Þetta er ekki það einfalt. Þegar veik samningsstaða veldur því að menn verða að taka við því sem þeim er rétt, ár eftir ár, þá skapast sú neyðarstaða að menn fara að hugsa aðrar leiðir. Og hópuppsagnir er ekkert sem fólk grípur til vegna þess að því finnist það vera skynsamleg og þægileg leið.

Ekki nóg með það heldur leiða hópuppsagnir af sér alls konar vandamál. Hópuppsagnir hafa leitt til þess að fólk hefur hætt störfum endanlega. Það telur að því hafi verið misboðið með því að neyðast til að grípa til slíkra úrræða. Það kemur ekki aftur til starfa. Þeir sem hefja störf að nýju aftur hafa sumir hverjir borið gremju í brjósti vegna þess arna. Þetta skemmir út frá sér. Hópuppsagnir eru í sjálfu sér eitthvað sem ég mundi aldrei geta mælt með. Hópuppsagnir eru neyðarúrræði sem ég mundi vilja sjá hverfa algjörlega úr samskiptum launþega og viðsemjenda. En reynsla heilsugæslulækna af þessum vanda sem komið hefur upp aftur og aftur leiddi til þess að þeir völdu að koma sér úr þeirri neyð að þurfa með vissu millibili að standa í þeirri veiku stöðu að neyðast til að fara í uppsagnir. Þeir völdu því þann kostinn og það er líka neyðarúrræði að koma sér undan samningum, komast undir kjaranefnd. Það er kannski fyrst og fremst til að neyðast ekki til að fara í uppsagnir. Ég get hins vegar fyrir mitt leyti alveg fallist á frv. sem þetta ef því fylgir sú trygging að sú neyð sem leiðir til uppsagna komi ekki upp aftur.