Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 10:42:38 (2611)

1999-12-09 10:42:38# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að framsaga mín fyrir þessu máli væri yfir meðallagi miðað við þær sem ég hef yfirleitt fyrir málum. Ég hefði örugglega haft þessa framsögu töluvert lengri ef ég hefði haft hinn minnsta grun um að ég gæti sannfært hv. þm. um ágæti málsins. Ég hafði hins vegar ekki mikla von um að hann mundi skipta um skoðun né aðrir af hans flokksbræðrum og ákvað því að fara ekki mjög langt yfir meðaltalslengd framsagna minna um nál.

Varðandi það að hér sé stefnubreyting þá er það rétt hjá hv. þm. að þegar lögin um stofnun Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. voru samþykkt var gengið út frá því að aðrir aðilar en ríkið mundu koma inn í bankann í gegnum aukningu á hlutafé en það yrði ekki selt af hlut ríkissjóðs.

Hins vegar, við þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífinu, er það einfaldlega skynsamlegra út frá öllum efnahagslegum forsendum að breyta þarna um stefnu og selja af hlut ríkissjóðs fremur en bjóða út nýtt hlutafé. Það er málið og þess vegna kemur þetta hér inn.