Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 10:44:21 (2612)

1999-12-09 10:44:21# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[10:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra vísu. Það er að sönnu rétt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur tamið sér mjög stuttar framsöguræður, enda maðurinn önnum kafinn og hefur mörgum störfum og miklum skyldum að gegna. Auðvitað hefur hver sinn stíl, sinn smekk og sinn metnað í þingstörfunum.

En það er t.d. athyglisvert að bera saman framsöguræðu fyrir þessu máli hér áðan sem flutt var á nokkrum mínútum og framsöguræðu formanns fjárln. fyrir brtt. við fjáraukalög við 2. umr. í gær. Svo getur hver dæmt fyrir sig um hvað er við hæfi í þessum efnum.

Hv. þm. ætti líka að leiða hugann að því að málflutningur úr ræðustól á Alþingi snýst ekki bara um tilraunir til að snúa mönnum á sitt mál í þingsalnum, um að við hv. þm. sannfærum hver annan. Þetta er líka fundur í heyranda hljóði sem sendur er út í þjóðfélagið. Hér fer fram rökstuðningur fyrir pólitískum sjónarmiðum. Hér eiga að fara fram pólitískar rökræður sem eiga sér samsvörun í þjóðfélaginu og í því ljósi er framsöguræða hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að sjálfsögðu einnig mæld.

Staðreyndin er sú að þessi skilyrði Verðbréfaþingsins eru skálkaskjól ríkisstjórnarinnar og afsökun til þess að rjúka til og hefja beina sölu á ríkisbönkunum núna fyrir hádegi, í óðagoti eins og raun ber vitni. Í fyrsta lagi hafa menn tíma fram í júní á næsta ári til þess að uppfylla þessi ákvæði. Í öðru lagi gætu menn að sjálfsögðu rætt við Verðbréfaþingið um lengri aðlögun að skilmálum þess. Úr því að hægt var að gefa mönnum þennan frest á sínum tíma, er þá ekki hægt að semja þarna um lengri aðlögun? Í þriðja lagi geta menn velt því fyrir sér hvort einhver héraðsbrestur yrði þótt bankarnir hyrfu tímabundið út af þinginu ef ekki væri hægt að ná samkomulagi við þingið um annað. Viðskipti með þau væru þá á tilboðsmarkaði. Hér er um frekar ódýra afsökun að ræða fyrir því að þjösna þessu máli í gegn með þessum hætti.