Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 13:31:04 (2616)

1999-12-09 13:31:04# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (frh.):

Herra forseti. Mig langar að spyrjast fyrir um það í upphafi hvort hæstv. viðskrh. hyggst ekki vera viðstaddur umræðuna. Ég hef áður óskað eftir því að hann verði viðstaddur umræðuna og vildi gjarnan fá svör við því.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. iðnrh. er staddur í húsinu og er væntanlegur á hverri stundu.)

Ég mun hefja mál mitt, herra forseti, þegar hæstv. viðskrh. er kominn til þingsalarins.

Þá er hæstv. viðskrh. kominn til þingfundarins og ástæða til að halda honum áfram. Hins vegar þótti mér fara vel á því að gera hádegisverðarhlé á þessum tíma, ekki einungis til þess að menn gætu nært sig heldur einnig vegna hins að í hádegisverðarhléinu á þessum tíma efndu listamenn til ljóðaupplesturs á Austurvelli eins og þeir hafa gert í allan vetur til varnar Eyjabökkunum. Það fer ágætlega á því að þetta sé gert núna þegar hæstv. viðskrh. er á Alþingi því að hann er jafnframt iðnrh. landsins og fer með málefni hugsanlegrar Fljótsdalsvirkjunar, sem við vonum að verði ekki af, þótt þar komi einnig við sögu annar ráðherra, hæstv. umhvrh. og reyndar ríkisstjórnin öll.

(Forseti (GuðjG): Forseti vekur athygli á að hér er til umræðu stofnun hlutafélaga um Landsbankann og Búnaðarbankann.)

Hæstv. forseti. Ég vildi gera þetta að umræðuefni í upphafi þingfundar. Hins vegar má vel færa rök fyrir því að hægt sé að tengja þessa atburði saman, hvað er að gerast í fjármálalífi þjóðarinnar, hvernig fjármunum er ... (VE: Það er ekki víst að það yrði skáldum jafnmikið yrkisefni.) Það er svo aftur rétt að það er hugsanlegt að það verði ekki skáldum sama tilefni til ljóðagerðar. Hitt er annað mál að þessi mál eru öll saman nátengd og snúast um það hvernig við varðveitum verðmæti þjóðarinnar og hvernig við ráðstöfum sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar. Það frv. sem hér er til umfjöllunar snýst einmitt um þetta. Það fjallar um að selja hluta ríkisbankanna, 15% eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands og samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar stendur til að einkavæða þessa banka þegar fram líða stundir.

Ég gerði það einmitt að umtalsefni í upphafi máls míns og áður en ég sneri mér að eiginlegri framsöguræðu að vekja athygli á því hvaða áhrif þessi lagabreyting hefur þegar haft og ýmsar yfirlýsingar sem henni tengjast. Ég vakti sérstaklega athygli á því að hæstv. viðskrh. lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum þegar hann er spurður um afstöðu sína til framhaldsins, til hagræðingar í heimi fjármálastofnana, hugsanlegrar sameiningar banka, að hann hafi engin svör. Hann ætli að gera það eitt að leggja við eyrun, leggja við hlustir og hlusta á sína menn eða eins og hann orðaði það sjálfur, þá kvaðst hann munu hlýða á boð sem komi frá markaðnum. (Viðskrh.: Það er þjóðarsálin.) Hæstv. ráðherra leiðréttir mig og segir að í raun sé það þjóðarsálin, hann hlusti á rödd þjóðarsálarinnar. Hvernig skyldi hv. þm. Finnur Ingólfsson skilgreina þjóðarsálina? Það eru þeir sem hafa efni á því að kaupa banka á Íslandi. Það er þjóðarsálin. Það er fjármálaheimurinn sem hæstv. ráðherra setur samasemmerki við þjóðarsálina.

Þegar rætt er um það í alvöru að þetta eigi að vera jólagjöfin í ár, hlutur úr Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka, þá fer maður að velta fyrir sér hvernig þeir menn sem stýra landinu skilgreina þessa þjóð. Hvaða fólk er það sem er aflögufært um mörg hundruð þús. kr., jafnvel milljón, jafnvel tugi milljóna? Vegna þess að í þessari sölu er að sönnu hægt að kaupa smáa hluti en menn eru engu að síður líka að tala um að hámark skuli vera 1% af hlutafé bankans. Þannig geti hver kaupandi gert tilboð í 370 millj. kr. í báðum bönkum eða 150 millj. kr. í Búnaðarbanka og 220 millj. kr. í Landsbanka. Einhverjir smærri kaupendur kunna að rúmast innan þjóðar Finns Ingólfssonar og ríkisstjórnarinnar en þetta er þeirra þjóð og þjóðarsálin er það sem gerist innra með þessum mönnum og á boðin þaðan segist hæstv. viðskrh. ætla að hlusta.

Ég vakti athygli á því að þessar ráðstafanir, þessar lagabreytingar, hafa valdið miklum óróa á fjármálamarkaði og þess var sérstaklega getið í ítarlegri umfjöllun fjölmiðla, þar á meðal Ríkisútvarpsins í gær sem orðaði það svo að spenna ríkti á verðbréfamarkaðnum í kjölfar yfirlýsinga og þeirra atburða sem fylgdu samfara þeim.

Ég vitnaði einnig í yfirlýsingar sem hafa komið frá fulltrúum bankanna, Búnaðarbankans, Landsbankans, Íslandsbanka og frá þingmönnum og ráðherrum í ríkisstjórninni, þar á meðal hæstv. landbrh., Guðna Ágústssyni, sem hafði uppi mjög alvarleg varnaðarorð og minnti okkur á hve dýrmætar eignir ríkisbankarnir væru og hversu vel við þyrftum að vanda til verkanna ef við ætluðum að gera breytingar á eignarformi þeirra.

Síðan rakti ég aðdraganda þessa máls og minnti á að það sem nú er að gerast ætti sér alllangan aðdraganda, minnti á lagasetningu frá 1997 þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum. Ég minnti á loforð og fyrirheit sem þá voru gefin um að ekki stæði til að selja hlut ríkisins í bönkunum. Það stæði ekki til að selja hlut ríkisins í bönkunum í fjögur ár, frá 1. janúar 1998 og ég minnti á að nú værum við stödd í desember 1999 og við værum að fjalla um frv. þar sem kveðið er á um sölu á eignarhluta ríkisins í báðum þessum bönkum. Þetta eru svik. Menn eru að svíkja fyrirheit, loforð sem gefin voru. Eða telja menn það einskis virði sem sagt er í greinargerð með stjórnarfrv.? Ég vil taka það alvarlega.

Það getur vel verið að menn geti með orðaleikjum réttlætt það sem gerðist á árinu 1998 þegar einkaaðilum var hleypt inn í eignarhlut ríkisbankanna með aukningu hlutafjár vegna þess að opnað var fyrir þessa smugu í lögunum frá 1997. Það var heimild til hlutafjáraukningar, til að styrkja stöðu bankanna ef ráðherra teldi að á því væri þörf. En auðvitað er þetta bara orðaleikur. Þetta er önnur leið til að ná sama markmiði til að dreifa eignarhaldinu á bönkunum til einkaaðila og þetta kalla menn reyndar að tryggja dreifða eignaraðild þegar þessar stofnanir sem eru í eigu 275 þúsund Íslendinga eru færðar fámennum hópi til eignar. Þá kalla menn þetta að dreifa eignaraðildinni. Þetta eru nú hálfgerð öfugmæli.

Ég rakti hvers vegna ríkisstjórnin vildi selja bankana og sýndi fram á að það væru fyrst og fremst pólitísk markmið sem lægju þar á bak við, það væri pólitísk stefna sem menn væru að fylgja. Að sjálfsögðu telja menn að sín pólitík sé góðra gjalda verð og til hagsbóta fyrir einhverja í þjóðfélaginu og ég hef verið að skilgreina hverjir það eru sem verið er að hugnast og hæstv. viðskrh. hefur ítrekað kallað fram í hér að hann hlusti á þjóðarsálina og við fengjum staðfestingu á því í Morgunblaðinu um helgina hver sú þjóðarsál er. Það er fjármagnsmarkaðurinn. Það er á hann sem ég hlusta, sagði hæstv. viðskrh. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig þó ég sé ekki sammála því sjálfur.

Ég vakti athygli á því hve verðmætar eignir þetta væru og ég tek undir með hæstv. landbrh. sem hefur greinilega miklar efasemdir um alla þessa ráðstöfun og þessa þróun þegar hann minnir okkur á það í dagblöðum í dag að hér er um veruleg verðmæti að ræða enda minnti ég á að samanlagður hagnaður þessara banka á árinu 1998 var rúmlega 1,5 milljarðar kr. Það er ljóst að hann verður miklu meiri á þessu komandi ári því að á fyrri hluta þessa árs nam þessi hagnaður þegar 1.300 millj. kr., næstum hálfum öðrum milljarði kr. og fyrirsjáanlegt að hann verður miklu meiri þegar upp er staðið.

Eins og við vitum reynir ríkisstjórnin og áhugamenn um einkavæðingu að réttlæta hagnaðinn í bankakerfinu og skýra hann í ljósi kerfisbreytinga í bönkunum að þeir hafi verið gerðir að hlutafélögum og þetta skýri hagnaðinn. Vill þá gleymast að öll ytri skilyrði í íslensku þjóðarbúi hafa verið mjög ákjósanleg, hafi verið mjög góð síðustu ár. (Gripið fram í: Vegna stefnu ríkisstjórnarinnar.) Þrátt fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar hafa þau verið mjög góð, ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar að vel hefur fiskast. Það er ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, hæstv. viðskrh., að markaðir erlendis hafa verið hagstæðir, það er ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er þrátt fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur haldið mjög óhyggilega á málum. Það hefur hún gert í skattapólitík sinni, mjög óhyggilega á málum. Hún hefur þrengt að almennu launafólki. Hún hefur neitað að láta skattleysismörk fylgja almennri launaþróun. Hún hefur neitað því að láta viðmiðunarmörk barnabóta fylgja almennri launaþróun og skert þannig barnabæturnar. Þær eru lægri í krónum talið ár frá ári þannig að hlutfallslega dregur úr vægi þeirra og mikilvægi þeirra en á móti hefur verið gert vel við fyrirtækin og sérstaklega stór fyrirtæki sem hafa hagnast vel.

[13:45]

Sé litið til áratugarins alls er um verulegar upphæðir að ræða. Við minnumst þess þegar aðstöðugjaldið var lækkað á sínum tíma. Við það vænkaðist hagur fyrirtækjanna um 5--6 milljarða kr. Síðan hefur tekjuskatturinn sem var yfir 50% í upphafi áratugarins verið færður stórlega niður, um rúm 20 prósentustig. Þá kom til sögunnar fjármagnstekjuskatturinn en þegar hann var settur var skattur af arði færður úr tekjuskattsprósentustiginu niður í 10%. Þetta færði eignafólki mikla peninga, sumum milljónir króna. Ef menn halda að þetta hafi verið til að örva atvinnulíf og hagsæld í landinu þá er það mikill misskilningur. Þetta er stefna sem oft var kennd við Ronald Reagan á sínum tíma og kölluð Reaganomics. Hún hefur stundum verið kölluð ,,brauðmolahagfræði`` vegna þess að hún byggðist á því að gefa efnafólki svigrúm til að baka stóru brauðin sín. Við það mundu bitar og molar hrjóta af borðum þeirra til hinna sem minna hefðu og allt mundi þetta verða efnahagslífinu til góðs. Crumble down economics eða ... (VE: Trickle down economics.) Trickle down economics hefur þetta verið kallað. (VE: Það er miklu eldra en Reaganomics.) Já, sem er eldra en Regan\-omics enda má rekja þetta aftur til frumstæðustu kenninga frá 18. öld um markaðsviðskipti. Það eru þær kenningar sem menn taka upp núna og sigla hraðbyri inn í fortíðina. Þetta hefur verið að gerast á undanförnum árum. Það er alrangt að hagur bankanna hafi vænkast á undanförnum árum vegna þess að þeir hafi verið gerðir að hlutafélögum. Þetta eru svo barnalegar fullyrðingar að þær taka engu tali.

Ég hef líka sett spurningarmerki við það þegar menn eru með þunga áfellisdóma yfir ríkisbönkunum og sjá þeim allt til foráttu. Það er rétt að hugsunarhátturinn hefur breyst í þjóðfélaginu og að mörgu leyti til góðs. Menn eru hræddir við aukna skuldsetningu og vilja halda hyggilegar á málum. Bankarnir vilja lána þannig að fólk geti endurgoldið skuldir sínar. Það er gott en hins vegar getur þetta viðhorf leitt til mikillar þröngsýni. Ég minnti á það sem gerðist á Vestfjörðum sl. haust, þegar kvótinn var fluttur úr byggðarlögum og fólk missti atvinnu í stórum stíl. Þar urðu menn fjárþurfi og leituðu til lánastofnana. Þá var sagt að veðin dygðu ekki fyrir lánum og ekki þýddi að leita til aðila á borð við Landsbankann, held ég að það hafi verið í því tilviki. Ég tel það að þrengja sjónarhorn sitt með þessum hætti ekki hið sama og að halda á málum af ábyrgð.

Þegar litið er til uppbyggingar íslensks samfélags allt frá lokum seinna stríðs er ljóst að hún hefur kostað miklar lántökur. Henni fylgdi önnur hugsun. Í uphafi aldarinnar sagði Skúli Thoroddsen, síðar ritstjóri og alþingismaður, að menn ættu að reyna að komast út úr stöðnuðu samfélagi samtímans, taka lán og láta kapítölin ávaxta sig. Hann sagði að menn ættu að taka lán til að byggja brýr, gera vegi, reisa hús og verksmiðjur. Þetta mundi síðan skila okkur hagnaði inn í þjóðarbúið. Á þeirri hugsun byggðu Íslendingar í langan tíma og gengu hugsanlega of langt. Síðan hafa menn viljað stíga af meiri varfærni til jarðar. En ég vara við mjög einstrengislegri afstöðu og þungum sleggjudómum yfir öllu sem gert hefur verið hér á liðnum áratugum.

Það var þannig að stjórnarfyrirkomulag bankanna tryggði aðkomu fulltrúa úr mismunandi áttum þjóðlífsins, úr ólíkum pólitískum áttum, einfaldlega með því að kjósa fulltrúa í bankaráðin hér á Alþingi. Það tryggði að innan í þessara fjármálastofnana heyrðust mismunandi raddir. Ég held að það hafi verið til góðs. En með hlutafélagavæðingunni var þetta vald fært til eins aðila. Sá aðili sem hefur þetta vald heitir núna Finnur Ingólfsson, hæstv. viðskrh. Nú vilja menn ganga enn þá lengra og færa ákvörðunarvaldið yfir í þjóðarsálina sem hæstv. viðskrh. nefnir svo þegar hann vísar til ráðgjafa sinna í íslensku þjóðfélagi, þ.e. fjármagnsaflanna. Í Morgunblaðinu um helgina segist hann helst vilja leita til þeirra um ráðgjöf í hvert stefna skuli í skipulagningu íslensks fjármagnsmarkaðar. Ég er mjög andvígur þessari hugsun.

Ég velti því fyrir mér í fyrri hluta ræðu minnar hvort þjóðfélagið, sem þegar til kastanna kemur ber ábyrgð á þessu kerfi, eigi ekki rétt á því að hafa hönd í bagga. Ég minnti á hrun banka í Bandaríkjunum, í Kanada, Svíþjóð, Noregi. Ég nefndi það að í Noregi þurfti ríkið að greiða 50 milljarða norskra króna, 500 milljarða íslenskra króna til að reisa við banka sem orðið höfðu gjaldþrota. Menn gerðu sér grein fyrir því að ella blasti við hrun í efnahagslífinu sem segja mundi til sín inni á heimilum og inni í fyrirtækjum. Ríkið varð að koma til sögunnar. Það breytti afstöðu manna í Noregi í þá átt að nú telja Norðmenn hyggilegt að ríkið eigi afgerandi hlut í stærstu bönkunum og þingið er mótandi aðili. Ekki eins og hér þar sem hæstv. viðskrh. stýrir för fyrir hönd fjármagnsmarkaðarins. Hann sagðist helst hlusta á hann. Ég hlusta á þjóðarsálina kallaði hann fram í áðan og vísaði til hans.

Mér finnst illa komið fyrir Framsfl. sem einhvern tíma vildi temja sér að hugsa á félagslega vísu þegar þessi viðhorf ríkja. Mér finnst illa komið fyrir Framsfl.

Þá velti ég einnig fyrir mér meðgjöfinni sem ég vil þó ekki gera mikið úr í þessu tilviki. Margir munu fá skattafslátt um jólin, enda er talað um þetta sem jólagjöf. En jólagjöfin er náttúrlega ekki fyrst og fremst til hinna smáu, hún er til hinna stóru. Hún er til þeirra sem vilja komast yfir þær verðmætu eignir þjóðarinnar sem skila hagnaði, arði sem er talinn í milljörðum króna. Menn líta á það sem sérstakt forgangsverkefni að losa þjóðina við þessar eignir sínar. (Gripið fram í: Stórar jólagjafir í góðærinu.) Stórar jólagjafir í góðærinu, það er rétt, um það er að tefla.

Ég rakti hvernig arðsemi eigin fjár þessara banka hefur aukist síðustu ár. Arðsemi eigin fjár var í Landsbankanum 3% árið 1995, komin í 12,4% 1998. Í Búnaðarbankanum var hún 5,7% 1995 og komin í 14,6% 1998. Þetta er þróunin í þessum verðmætu stofnunum sem hæstv. landbrh. nefnir svo í Degi í dag, sem ríkisstjórnin er áköf í að losa sig við vegna þess að hún fær um það boð frá markaðnum sem nú vill koma höndum yfir þessar eignir.

En nú má spyrja: Gæti verið að eitthvert annað fyrirkomulag sé heppilegra en framtíðarland hæstv. viðskrh. Finns Ingólfssonar? Gætu verið rök fyrir því að hér starfaði öflugur þjóðbanki, gæti það verið? Gætu menn fallist á það, jafnvel þeir sem eru andvígir miklum ríkisafskiptum? Gætu þeir fallist á það þó að þeir, þegar til kastanna kemur, telji eðlilegra að fjármálastofnanir á samkeppnismarkaði séu í einkaeign og lúti lögmálum markaðarins? Getur verið að einhver rök séu fyrir því að hér sé starfandi þjóðbanki í ríkiseign? Ég held að það séu rök fyrir því og þau eru þessi:

Í íslensku efnahagslífi, í þessu litla hagkerfi okkar á sér nú stað mikil samþjöppun á valdi og peningum. Það er að gerast í sjávarútvegi með ógnvekjandi hraða, í flutningageiranum og á sviði trygginga. Þetta er að gerast í olíuverslun. (Gripið fram í: Það er ekkert nýtt í flutningageiranum.) Það er ekki nýtt, nei. En þessi tilhneiging er að aukast. Þetta er hraðvaxandi þróun í verslun þar sem stór samsteypa er komin með um 60% af markaðnum. Þá spyr ég: Getur það verið ef þessar stóru samsteypur yrðu líka ráðandi í bankaheiminum --- við skulum ekki gleyma að varnaðarorðin í morgun og í gær, í blöðum, útvarpi og sjónvarpi lúta einmitt að þessu --- þá verði til viðskiptarisar sem stuðli að einokun og útrými samkeppninni? Um það eru menn að tala.

[14:00]

Hvað ef þessar stóru eignasamsteypur á markaði ná líka eignarhaldi á banka sem er orðinn ráðandi, hvað gæti það haft í för með sér? Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um mjög smátt hagkerfi. Það gæti haft það í för með sér að markaðslögmálin hættu að virka. Með þessu móti gætu hinir nýju eignaraðilar farið að hygla sjálfum sér og misbeita valdi sínu. Þetta gæti gerst. Ég bið talsmenn markaðshyggjunnar, þá sem vilja stuðla að frjálsri samkeppni, að hugleiða þetta. Ég vil biðja hv. þm. Pétur H. Blöndal (PHB: Ég er búinn að hugleiða það.) sem er einarður talsmaður samkeppni og markaðshyggju að hugleiða hvort þetta verði til að takmarka samkeppni og stuðli að einokun. Er ekki vænlegra, við slíkar aðstæður, að hafa öflugan þjóðbanka sem lýtur almannastjórn en ekki bara fulltrúum eins manns? Nei, þar þyrftu að vera fulltrúar helst allra sjónarmiða sem eru við lýði í stjórnmálum, mismunandi skoðana þar sem eru mismunandi áherslur.

Að umfjöllun um þetta frv. hafa komið fulltrúar fjármálakerfisins, þeir sem koma til með að stýra þessum stofnunum. Sjónarhorn þeirra er mjög þröngt. Það er svona 10 sm. Það er ekki mikið meira. Þar er ekki horft til allra átta, ekki horft til vanda þeirra Vestfirðinga sem eru að missa vinnu sína eða hafa þegar misst hana. Þar er spurningin aðeins ein: Geturðu borgað? Ekkert annað. Þar er engin félagsleg sýn, engin félagsleg ábyrgð, ekki til í dæminu. (PHB: En lífeyrissjóðirnir?) Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr um lífeyrissjóðina og ég fagna því að hann vill örva þessa umræðu og lengja. Ég skal ekki láta mitt eftir liggja í því efni. Hann spyr: Hvað með lífeyrissjóðina? Hafa þeir pólitíska eða félagslega ábyrgð?

Með lögum sem sett voru um lífeyrissjóði á síðasta kjörtímabili fyrir tilstuðlan ríkisstjórnar sjálfstæðis- og framsóknarmanna var lífeyrissjóðunum lögum samkvæmt meinað að lána nema samkvæmt hæstu mögulegu ávöxtun. Það stendur í lögunum. Ég hef oft minnt á það í þessum ræðustól að fyrir fáeinum árum var bannað að okra í landinu. Nú er bannað að okra ekki. Þessi ríkisstjórn stóð fyrir því að þau lög voru sett. Þessi hugsun er ríkjandi í samfélaginu og er á sumum sviðum lögfest.

Munið þið þá tíð er rætt var um, aðeins fyrir örfáum árum, að fjármálafyrirtæki og þeir sem tök hefðu á að stýra vöxtum ættu að sýna ábyrgð og reyna að ná fjármagnskostnaði niður? Á sama hátt var sagt við launafólk: Sýnið hógværð og biðlund meðan við náum verðbólgunni niður? Á sama hátt var reynt að höfða til allra í samfélaginu, til allra sem stýra verði á vöru og þjónustu, með að sýna ábyrgð. Nú er verið að banna þetta með lögum. Markaðshyggjan og markaðslögmálin eru innleidd í lög landsins. Þetta er svo yfirgengilegt að því verður vart trúað. En þetta er staðreynd málsins, svona er þetta. Frammíkall hv. þm. Péturs H. Blöndals um lífeyrissjóðina er út í hött, út í loftið. Hann stóð sjálfur fyrir lagasetningu sem miðaði að því að takmarka svigrúm lífeyrissjóðanna. Þannig er þetta að verða í fjármálakerfinu almennt. Ég vil hvetja þá sem eru talsmenn markaðshyggju og samkeppni að hugsa sinn gang, sjá hvort ekki sé rétt að staldra ögn við.

Hvað með þá staðhæfingu ríkisstjórnarinnar að sala á hlutabréfum ríkisins slái á þenslu? Því hefur verið haldið fram. Vissulega má til sanns vegar færa að sá er munur á sölu fyrir tilstilli hlutafjáraukningar annars vegar og beinni sölu hlutafjár hins vegar að fyrri kosturinn eykur augljóslega fjármagn í umferð en hinn síðari er líklegri til að binda það og þar með slá á þenslu. Þó er þetta háð því hvar peningarnir eru teknir og einnig hinu hvernig þeim er varið af hálfu þess aðila sem fær þá í hendur. Það sjónarmið hefur víða komið fram að enda þótt augljóslega mæli margt með því að selja ríkiseignir, sem á annað borð á að selja, á þenslutímum en ekki þegar samdráttur er í efnahagslífinu sé hér um svo lágar upphæðir að ræða hlutfallslega með tillti til efnahagskerfisins í heild að áhrifin verði vart teljandi. Þetta sögðu okkar sérfræðingar í efh.- og viðskn. Þeir vildu halda þessu fram.

Ég vil að það komi þó fram að ég tel að nokkur fótur sé fyrir þessu. Ég gagnrýndi það á sínum tíma þegar ráðist var í einkavæðingu á samdráttartímum. Ég taldi mjög óhyggilegt að gera það þá. Slík ráðstöfun bindur fjármagnið í stað þess að örva gangverk efnahagskerfisins. Hins vegar er ég sammála því að hvað þetta snertir, þá er þessi tímasetning rétt. Það eru ýmis þenslumerki í hagkerfinu og eðlilegt að gripið sé til ráðstafana af þessu tagi ef á annað borð á að grípa til þeirra á slíkum stundum. Ég vil að þetta komi fram til að ljóst sé að ég sé alveg sjálfum mér samkvæmur hvað þetta snertir.

Í álitsgerð Seðlabanka Íslands, svari við spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Áhrifin af fyrirhugaðri sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á innlenda eftirspurn og fjármálamarkaði mun einkum ráðast af þremur þáttum. Í fyrsta lagi af hegðun fjárfesta varðandi neyslufrestun, heildarsparnað eða fjármögnum kaupanna með eignasölu eða lántöku, þar með talið hvort kaupin eru fjármögnuð með erlendu lánsfé. Í öðru lagi af söluverði bréfanna í hlutfalli við markaðsverð. Í þriðja lagi af því hvernig ríkissjóður ráðstafar andvirði sölunnar. Samspil þessara þátta mun hafa áhrif á hvort salan virkar eftirspurnarletjandi eða hvetjandi og hvort áhrif verða á gengi krónunnar til hækkunar eða lækkunar.

Ljóst er að áhrifin verða minnst á eftirspurn og innlenda fjármálamarkaði ef hlutaféð er selt innlendum aðilum og þeir minnka eign sína á ríkisskuldabréfum á móti. Ef selt er á undirverði er hugsanlegt að salan virki eftirspurnarhvetjandi og öfugt ef selt er á yfirverði. Kaup erlendra aðila á bréfunum eða fjármögnun innlendra aðila með erlendum lánum mun stuðla að hærra gengi en ráðstöfun andvirðis til niðurgreiðslu erlendra lána mun hafa öfug áhrif.``

Þetta er úr svari Seðlabankans við spurningu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til hans og reyndar Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem hafa með fjármálaumsýslu að gera í þjóðfélaginu. Þegar á heildina er litið er það mat þeirra aðila, sérstaklega talsmanns Seðlabankans ef ég man rétt, að þessi áhrif verði að líkindum ekki mikil. Því til stuðnings var vísað til umfangsins, að það væri ekki það mikið þegar litið væri á efnahagskerfið í heild sinni. Hins vegar var talið augljóst að þessi aðferð við sölu bankanna væri heppilegri en sú aðferð sem hæstv. viðskrh. beitti sér fyrir á árinu 1998, þ.e. að ráðstafa hlut ríkisins í bönkunum með hlutafjáraukningu. Þetta er talinn skynsamlegri kostur á þenslutímum (Viðskrh.: Sammála.) og ég tek undir það. (Viðskrh.: Þetta er í lagi.) Þá er það í lagi. Það er einhvern ljósan blett að finna, það er rétt og hæstv. viðskrh. gleðst að sjálfsögðu mjög yfir því. En ég held því miður að þessi ákvörðun í heild sinni sé röng.

Hvaða leið viljum við þá fara? Hvaða leið viljum við fara í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði? Í fyrsta lagi höfum við lagt til að komið verði á traustum þjóðbanka. Það hefur margoft komið fram í málflutningi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hér á þingi. Við viljum skoða alla kosti í því efni og gefa okkur góðan tíma til þess. Sjálfum hefur mér fundist það skynsamlegt að íhuga sameiningu ríkisbankanna tveggja, Landsbankans og Búnaðarbankans. Hvað það snertir tek ég undir með Friðberti Traustasyni, formanni Sambands ísl. bankamanna. Hann segist í blaðaviðtali í dag telja það vænlegri leið að sameina ríkisbankana tvo heldur en hitt, að sameina t.d. Landsbanka og Íslandsbanka sem nokkuð hefur verið til umræðu að undanförnu.

Þetta er fyrsta atriðið sem við höfum lagt áherslu á, að íhuga það að koma á fót traustum þjóðbanka. Við erum með trausta ríkisbanka, Búnaðarbankann og Landsbankann. Ég hef sýnt fram á að hagur þeirra er mjög góður. Þetta eru mjög verðmætar stofnanir sem skila miklum og sívaxandi arði. Við eigum að huga að þessu. Ég held það sé líka til hagsbóta ekki aðeins fyrir samfélagið allt, félagsleg sjónarmið og lýðræðisleg, heldur líka í þágu samkeppninnar. Ég hef trú á því.

Í öðru lagi hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð eða þingflokkur hreyfingarinnar hér á Alþingi lagt fram þáltill. þar sem lagt er til að öll einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar verði tekin til endurskoðunar. Í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað í efnahagskerfinu að undanförnu, í ljósi þeirrar samþjöppunar á valdi og fjármunum sem ég gerði að umtalsefni hér áðan, held ég að enn ríkari ástæða sé til að taka þessi mál öll til endurskoðunar. Í greinargerð þáltill. sem við fluttum um þetta efni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Afar brýnt er að breytingar sem gerðar eru á grundvallarþáttum samfélagsins séu vel ígrundaðar, byggist á traustum rökum og haldgóðum upplýsingum en ekki framkvæmdar af handahófi. Þá er nauðsynlegt að breytingar séu gerðar með framtíðarsýn á hlutverk hins opinbera í huga þar sem skýrt komi fram hvaða verkefni eigi að vera á vegum ríkis og hvar skuli koma til kasta fyrirtækja á markaði.``

Þetta segir í niðurlagi greinargerðar með þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þess efnis að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka til að yfirfara áform um einkavæðingu. (Gripið fram í.) Það finnst hæstv. viðskrh. alveg út í hött, að ræða málin. (Viðskrh.: Nei, nei, alls ekki.) að skoða rökin, að reyna að læra af reynslu annarra. Alls ekki? Af hverju gerum við þetta ekki þá? (Viðskrh.: ... nefnd fram á miðja næstu öld.) Má ekki hafa það í nefnd sem starfaði fram á næstu öld? Ákvarðanirnar sem hér um ræðir snerta kannski komandi kynslóðir miklu fremur en okkar. Það er rétt sem hæstv. viðskrh. leggur hér til málanna í þessari umræðu. Hann veltir því fyrir sér hvort það heyri ekki til næstu aldar að fjalla um þessi mál. Það mun gera það. Komandi kynslóðir næstu aldar munu þurfa að súpa seyðið af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar núna. Ég skal nefna dæmi.

[14:15]

Það hefur verið ákveðið að ráðast í svokallaða einkaframkvæmd í sambandi við elliheimili og skóla og kominn er einn skóli inn í það fyrirkomulag, Iðnskólinn í Hafnarfirði (Viðskrh.: Gengur vel.) og gengur vel, segir hæstv. ráðherra. Þetta er hin barnslega bjartsýni ríkisstjórnarinnar að þetta sé allt svona góðra gjalda vert. Búið er að reisa skólann og engar skuldir. Nú á að fara að bjóða út og búið að bjóða út þrjú elliheimili. Þar eru fyrirtæki að taka að sér að reisa og reka þau, ég veit ekki hvort búið er að taka ákvörðun um hvort það er Securitas eða Ístak sem reisir þau elliheimili en þau er á meðal fyrirtækjanna sem eiga hlut að máli.

Hið góða sem hæstv. viðskrh. finnst vera í þessu er að það eru engar skuldir. Skuldirnar hvíla hjá fyrirtækinu sem reisir og rekur en almenningur mun borga. Hann mun borga í formi skatta eða í formi notendagjalda. Einu skuldbindingarnar sem ríkisstjórnin gefur þessum fyrirtækjum er að sjá þeim fyrir kúnnum, skólanemum í Hafnarfirði eða gamalmennum, öldruðu fólki á elliheimilum. Þetta eru skuldbindingarnar. Þess vegna koma ekki fram neinar skuldir ríkissjóðs þegar ráðist er í þetta. Þetta eru skuldbindingarnar. Þær eru eingöngu í formi samninga af þessu tagi. En reikninginn þarf að borga og það verður gert annaðhvort, eins og ég segi með hærri sköttum eða notendagjöldum. Ríkisstjórnin segist vilja fara inn á braut notendagjalda og þar blasa við skólagjöldin og elliheimilagjöldin, eins og OECD er að ráðleggja að við tökum upp og tekur þar undir með ríkisstjórninni sem hefur birt stefnu sína í bæklingi um einkaframkvæmd og gefinn var út á síðasta ári. Þessi stefna kemur náttúrlega komandi kynslóðum við. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. viðskrh. Þess vegna er mikil skammsýni að hugsa ekki fram í tímann, heldur hugsa bara frá degi til dags. Nú er meira að segja skammtímahugsunin orðin svo aðþrengd að ekki er hugsað lengur en til jólanna. Það þarf að lögfesta þetta frv. til að fólk geti keypt jólagjafir. Það er von að hæstv. viðskrh. hlæi. Honum finnst þetta fyndið. Mér fannst þetta fyndið fyrst, ég hélt að það væri brandari þegar menn voru að tala um það í efh.- og viðskn. að hraða þyrfti þessu til að fólk gæti farið að ráðast í jólainnkaup, en þetta er bara staðreynd. Þetta er talið örva fólk til að leita eftir skattafslætti fyrir áramótin (Viðskrh.: Og spara.) og spara, segir hæstv. ráðherra, og svo eru náttúrlega stóru jólagjafirnar hjá félögum hæstv. ráðherra. Þetta var annað atriðið sem við vildum gera.

Síðan er eitt enn. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram frv. um dreifða eignaraðild fjármálastofnana. Þetta var gert með það í huga að ef sjónarmið okkar yrðu ofurliði borin sem er harla líklegt, því miður, þá höfum við viljað koma með tillögur um hvernig best yrði staðið að þessum breytingum. Við höfum viljað leggja okkar af mörkum til að finna leiðir til að tryggja dreifða eignaraðild. Við lögðum fram frv. þess efnis á Alþingi og það er til umfjöllunar nú í efh.- og viðskn. Því miður liggur það þar og sefur svefninum, vonandi ekki hinum langa, en sefur enn. Í greinargerð með frv. um dreifða eignaraðild segir m.a., með leyfi forseta:

,,Óþarfi er að fara mörgum orðum um tilefni þessa frumvarps. Mikil umræða hefur verið um sölu á eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og reyndar einnig áður um stofnun þess banka og breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Mikið vantar á að vandað hafi verið til vinnubragða í þessu sambandi þó svo að horft sé fram hjá pólitískum ágreiningi um þessar breytingar sem slíkar. Leikreglur og nauðsynlegar lagabreytingar voru ekki undirbúnar og gerðar fyrir fram. Nú, þegar fyrstu skref í einkavæðingu ríkisviðskiptabankanna með hlutafjárútboðum hafa verið stigin, tæpur helmingur af eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hefur verið seldur`` --- og vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var sett á blað --- ,,og sala á hinum helmingnum er í fullum gangi, blossar upp síðbúin umræða um nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum.``

Í greinargerðinni er vikið að yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálastofnunum og í framhaldinu segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Óhjákvæmilegt er að Alþingi taki af skarið í þessu máli og láti á það reyna hvaða innstæður eru fyrir fullyrðingum um nauðsyn þess að dreifa eignaraðild og sporna við samþjöppun á eignarhaldi í mikilvægum innlendum fjármálastofnunum. Viðbúið er að um setningu slíkra reglna geti orðið pólitískar deilur en því verður varla á móti mælt að skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að fara varlega í þessum efnum. Slíkar takmarkanir eða reglur er alltaf hægt að rýmka síðar meir ef áhyggjur af samþjöppun og fákeppni reynast ástæðulausar. Varla getur sakað að hafa vaðið fyrir neðan sig. Eins kæmi til greina að skoða rýmri mörk hvað hámarkseign í fjármálastofnun snertir þegar í hlut eiga viðskiptabankar, sparisjóðir eða aðrar lánastofnanir. Gæti það einkum átt við ef bankar eða aðrar lánastofnanir vildu starfrækja þjónustufyrirtæki á fjármálasviði sem hefði starfsleyfi sem lánastofnun. Þær reglur sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru einfaldar en að mati flutningsmanna fullnægjandi til að setja hámarkshlutafjáreign og ítökum einstakra aðila í viðskiptabönkum og öðrum mikilvægum lánastofnunum takmörk.``

Hér var vitnað til greinargerðar með frv. sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagði fram á Alþingi um dreifða eignaraðild í fjármálastofnunum. Eins og við munum varð talsverð umræða um dreifða eignaraðild í sumar. Hæstv. viðskrh. hefur margoft sagt sjálfur að hann sé því hlynntur að dreifð eignaraðild sé tryggð í stærstu fjármálastofnunum landsins. Hann hefur talað um mikilvægi þess hverjir haldi um eignarhaldið, gerði það upphaflega þegar farið var að ræða um einkavæðingu bankanna og hæstv. forsrh. hefur hugsanlega gengið enn lengra í þessu efni. Hæstv. viðskrh. hefur lagt meiri áherslu á hverjir það væru sem kæmu þarna að máli og hefur t.d. nefnt lífeyrissjóði í því efni. Hæstv. forsrh. hefur hins vegar lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að sem flestir aðilar komi að máli. Hann hefur ekki viljað ganga svo langt að halda þeim í eigu þjóðarinnar allrar sem eru dreifðust eignaraðild, dreifðari gerist hún ekki. En hann hefur engu að síður lagt áherslu á þetta. Ég minnist þess að þegar þetta frv. kom til umræðu á Alþingi, þá tók m.a. Pétur H. Blöndal mjög í sama streng og sagði að þetta væru ahyglisverðar tillögur.

Ég hef hreyft því ítrekað í efh.- og viðskn. að þetta frv. verði tekið til umfjöllunar samhliða hugmyndum um sölu á eignarhlut ríkisins í ríkisbönkunum. Þessu hefur verið hafnað, því miður. Þegar þetta var rætt á allra síðustu dögum var bent á og réttilega að um flókið mál væri að ræða, það er alveg rétt. Þetta er mál sem þarf að skoða mjög gaumgæfilega og ekki skal standa á mér að taka þátt í slíkri vinnu. Ég geri ekki lítið úr því að þetta þurfi að skoða rækilega. En það hefði verið hægur vandinn að ráðast í þá vinnu í haust og framkvæma hana samhliða því sem þetta frv. eða önnur ámóta væru tekin til umfjöllunar. Það hefði verið hægur vandinn ef vilji hefði verið fyrir hendi.

Það frv. sem hér er til umfjöllunar kom til þingsins fyrir aðeins fáeinum dögum og menn eru í alvöru, ef ég á að trúa því, að tala um að afgreiða þetta frv. fyrir vikulok. Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin krefjist þess að málið, sem kom til kasta þingsins fyrir nánast nokkrum klukkutímum, verði afgreitt á nokkrum dögum, fyrir vikulok. Fyrir vikulok á að vera búið að taka um það ákvörðun og festa í lög sölu á 15% hluta í ríkisbönkunum. (Viðskrh.: Það eru alveg að verða vikulok.) Það eru alveg að verða vikulok, segir hæstv. viðskrh. réttilega, glöggur maður. Þetta eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð. En það var sem sagt ekki fallist á að verða við ósk um að vinna þessi mál samhliða og því fór sem fór að frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um dreifða eignaraðild í fjármálastofnunum sefur enn í efh.- og viðskn. en á meðan er verið að reyna að keyra þetta makalausa frv. í gegnum þingið. Það er í þessu ljósi sem ég legg til að frv. ríkisstjórnarinnar um sölu á eignarhluta í Landsbanka og Búnaðarbanka verði vísað frá.

Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Ég er svo ljónheppinn að eiga þess kost að taka þátt í ítarlegri umræðu um frv. í dag og á næstu dögum og í næstu viku ef því er að skipta ef ekki verður fallist á tillögu okkar að vísa þessu máli frá og afgreiða síðan samhliða frv. af þessu tagi og frv. okkar um dreifða eignaraðild. Þá kæmi í ljós hver raunverulegur vilji ráðamanna er, hvort þeir meina eitthvað með þeim yfirlýsingum sínum að þeir vilji tryggja dreifða eignaraðild í fjármálastofnunum landsins. Hins vegar hefur það komið vel og rækilega fram í máli mínu að ég er mjög andvígur því að ráðist verði í þessa sölu yfir höfuð, hvenær sem það yrði gert. Ég er andvígur því og fyndist eðlilegra og tek undir með forsvarsmönnum Sambands ísl. bankamanna að eðlilegra væri að huga að sameiningu banka, þess vegna ríkisbankanna en vísa tillögu um einkavæðingu þeirra frá.