Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 14:29:57 (2617)

1999-12-09 14:29:57# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hann er þar með fulltrúi okkar þingmanna í þeim lífeyrissjóði. Við höfum reyndar aldrei kosið hann frekar en aðrir sjóðfélagar í þeim sjóði sem eru þar nauðbeygðir samkvæmt lögum. Hann ráðstafar 2--3 milljörðum á ári og er þar af leiðandi einn af fáum kapítalistum á þingi, sennilega sá eini, og hefur þar af leiðandi mikið vit á þessum málum.

Hann talar um að hér sé um að ræða gjöf til stórkapítalista og það kom fram hjá hæstv. viðskrh. að boð kæmi frá markaðnum, þjóðarsálinni, sem ákveði verðið. Nú geri ég ráð fyrir að LSR geri tilboð til hagsbóta fyrir sjóðfélaga sína til þess að græða á því. Er það ekki rétt að hv. þm. muni í stjórn LSR leggja til að lífeyrissjóðurinn geri tilboð í þessi 5% til þess að græða á öllu saman?

Í öðru lagi er LSR stór hluti markaðarins og sendi því boð til hæstv. ráðherra eins og hér kom fram, boð frá markaðnum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Er hann ekki þá sú þjóð sem hæstv. ráðherra er að tala um sem þátttakanda í markaðnum?

Í þriðja lagi grætur hv. þm. mjög gamla tíma þegar bankar gátu gefið fé til vildarvina og talar um það í samhengi við lífeyrissjóðina sem eru skyldaðir til að lána núna með skynsamlegum kjörum, það sé ekki hægt að gefa fé. En vill hv. þm. gefa eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til skuldara, t.d. illa rekinna fyrirtækja sem ekki standa í skilum?