Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 14:37:02 (2621)

1999-12-09 14:37:02# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum hér að ræða mjög merkilegt mál þó að frv. sem um það fjallar sé stutt. Við erum í raun að ræða það hvernig eignarhald ríkisins, þjóðarinnar, verði í framtíðinni á peningastofnunum þessa lands, hvort ríkið eigi að hafa þar eignatök og vera ráðandi aðili eða ekki.

Þegar fjárfestingarsjóðirnir voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins lýsti ég þeirri skoðun minni að ég teldi að þarna væri verið að stíga rangt skref, ég teldi að íslenska ríkið ætti að eiga sterkan fjárfestingarbanka. Ég var reyndar á þeirri skoðun að það fyrsta sem hefði átt að gera væri að einkavæða þá sjóði sem urðu síðan stofninn að FBA og halda eignarhaldi þeirra hjá ríkinu í hlutafélagsformi. Rök mín fyrir þessu á sínum tíma voru þau og eru enn að það koma alltaf þeir tímar í íslensku þjóðfélagi sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék hér að áðan, að það verður niðursveifla í íslensku efnahagslífi og það þarf að gera ákveðnar ráðstafanir til þess að hjálpa atvinnuvegunum, atvinnutækjunum og efnahagslífinu að rétta við. Þetta sá ég iðulega þegar ég var stjórnarmaður í Fiskveiðasjóði fyrir hönd minna samtaka í sjávarútvegi sem ég var þá forustumaður fyrir. Það þurfti iðulega að grípa til aðgerða til að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum þegar hann átti í tímabundnum erfiðleikum með ýmsum aðgerðum sem ég tel að sé ekki svo auðvelt að grípa til í dag þar sem fjárfestingarlánasjóðirnir eru komnir yfir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Það er kannski nær en margur hyggur, að við munum standa frammi fyrir slíkum vanda. Ég veit ekki hvort þingmenn almennt hafa veitt því athygli að maður sem oft hefur verið nefndur hér í þessari umræðu, stjórnarformaður Íslandsbanka, Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, hefur vikið að því að fyrirtæki í sjávarútvegi, einkum þau sem eiga hagsmuni sína í uppsjávarveiðum og uppsjávarfiski, hefðu orðið fyrir talsverðum skakkaföllum á þessu ári og einkum í haust. Mér er nær að halda að mörg af fyrirtækjum á Austfjörðum sem eiga mesta hagsmuni undir því að uppsjávarfiskur veiðist og tekjur komi inn af þeim hluta aflans til þeirra fyrirtækja, muni standa frammi fyrir mjög miklum vanda þegar áramótauppgjör þeirra birtist. Hygg ég að þar muni þá koma fram að jafnvel mjög sterk fyrirtæki sem hafa verið í virkilegri uppsveiflu á undanförnum árum á hlutabréfamarkaði séu bara ekkert í allt of góðum málum með sinn rekstur. Það tekur í hjá fyrirtækjum, stórum fyrirtækjum sem eiga nánast alla sína afkomu undir loðnuveiðum og síld, þegar lítið fiskast af slíkum tegundum, einkum kannski þegar fyrirtæki hafa tekið sér það fyrir hendur að reyna að endurbyggja flotann og endurbyggja verksmiðjur og farið að gera út á kolmunna af miklum krafti, reyndar í þeirri einu von að það eigi að úthluta þeim kvóta, úthluta þeim verðmætum, þ.e. að byggja þar upp fyrir framtíðina. Auðvitað er það rétt að hluta til að við erum að byggja upp rétt Íslendinga fyrir framtíðina með þátttöku í kolmunnaveiðunum.

Því segi ég þetta að það skyldi þó ekki vera og það mjög fljótlega, samanber þá viðvörun sem Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ og núverandi stjórnarformaður Íslandsbanka ýjaði að, að fyrirtæki í sjávarútvegi sem eiga mikla hagsmuni í uppsjávarfiski mundu jafnvel þurfa á einhvers konar eftirgjöf að halda, skuldbreytingum eða lánalengingum til þess að rétta sig af. Sem betur fer eru sum af þessum fyrirtækjum mjög sterk og hafa verið í mikilli uppsveiflu á undanförnum árum og kannski þola þau niðursveiflu í nokkra mánuði þó að þau komi út með taprekstri í ársreikningum sínum á þessu ári.

En því vek ég athygli á þessu að þegar að kemur að því að það þarf að gera ráðstafanir í kannski heilli veiðigrein, yfir alla útgerð á landinu í heilli veiðigrein, þá vil ég a.m.k. sjá hvaða afgreiðslu slík erindi fá í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem nú hefur verið algjörlega einkavæddur. Hvernig verður þar að verki staðið ef á það þarf að reyna að þarna þurfi að vera eftirgjöf af vöxtum, lánalengingar, skuldbreytingar og annað slíkt? Þetta gátu menn gert í lánasjóðum atvinnulífsins meðan ríkið hafði þar eignatökin og þetta var iðulega gert, þ.e. að gefa jafnvel afborgunarleysi í langan tíma og fella niður vexti eða semja um sérstaka fyrirgreiðslu til þess að halda þessum atvinnugreinum gangandi. Ég er ekkert viss um að það sé íslenskri þjóð til hagsbóta að hin hörðu sjónarmið ávöxtunar af fé séu algild og að á þeim sé eingöngu keyrt. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék hér að að þeir tímar geta komið að taka þurfi tillit til þess hvernig efnahagslífið er í stakk búið til að halda þessari þjóð uppi. Það er nú svo að þrátt fyrir að hér séu fyrirhugaðar stórvirkjanir, álver og ýmislegt slíkt, þá er íslenskur sjávarútvegur undirstaða efnahags þessarar þjóðar að stærstum hluta eins og málum er komið enn þá. Það er íslenskur sjávarútvegur þrátt fyrir kvótakerfið sem allir hafa trú á að sé hin eina festa í þessu þjóðfélagi --- svo virðist a.m.k. vera --- nema kannski örfáir einstaklingar sem vonandi eru að öðlast dýpri skilning á því vandamáli að kvótinn einn og sér býr ekki til fé. Og ég spái því að fleiri og fleiri Íslendingar séu að átta sig á því að svo er ekki og muni kveikja á því á næstu mánuðum og missirum.

[14:45]

Á það hefur verið treyst að fyrirtæki gætu fjármagnað sig og byggt á þeirri eign sinni í íslenskri auðlind. Nú er þessi íslenska auðlind orðin svo, eins og hún sýnir okkur, að hvorki veiðist loðna né síld svo neinu nemur. Við munum eftir niðursveiflunni í rækjunni þegar menn stóðu allt í einu frammi fyrir því að veðsetningar í bönkum í rækjukvóta gjörsamlega hrundu úr því að vera veðsetning á 70 þúsund tonnum, og aflahlutdeildin í samræmi við það, niður í það að sjútvrn. ákvað að aflinn væri 20 þús. tonn í úthafsrækjunni. Og hvað varð þá um veðsetningar íslenskra banka? Menn stóðu allt í einu frammi fyrir því að þau skip þar sem veðin og tryggingarnar samanstóðu í íslenskum úthafsrækjukvóta voru nánast einskis virði. Menn lentu í að þurfa að selja ný skip, sem nýbúið var að kaupa til landsins og átti að nota til veiða á úthafsrækju, hið snarasta úr landi til að bjarga því sem bjargað varð.

Þetta er ég að draga fram í umræðunni vegna þess að ég held að ríkið ætti að skoða það mjög vel og vandlega. Og hverjir eru ríkið? Það er íslenska þjóðin. Fyrir hönd íslensku þjóðarinnar fer ríkisstjórnin með framkvæmdarvaldið og Alþingi með löggjafarvaldið. Ég held að menn ættu að skoða það mjög vandlega hvort ástæða sé til að ríkið eigi fjármálastofnanir.

Ég var á þeirri skoðun, og hef ekki breytt henni neitt þrátt fyrir að búið sé að einkavæða FBA, að ríkið hefði átt að eiga fjárfestingarsjóðina og hefði þar af leiðandi getað leyft sér meira frjálsræði í því að einkavæða hina almennu banka. En nú er málum hins vegar þannig komið að búið er að einkavæða Fjárfestingarbankann. Og þá finnst mér mjög athugandi að það sé skoðað ofan í kjölinn hvort við séum á réttri leið með því að stefna til þess að einkavæða báða ríkisbankana.

Ég vil vekja athygli á því að við þingmenn Frjálslynda flokksins höfðum samið þáltill. sem var útbýtt í morgun en hefur auðvitað ekki verið rædd enn þá, sem víkur að því að menn skoði hvernig að slíkum málum verði staðið, þ.e. einkavæðingu bankanna, og því verði virkilega velt upp hvort þjóðin sé að fá hámarksverð fyrir þessar bankastofnanir eins og fyrirhugað er að selja þær í dag. Skilaboð markaðarins sem þeir hv. þm. Ögmundur Jónasson og hæstv. viðskrh. skiptust á skoðunum um hvernig væru til komin, hvort þau væru komin frá fjármálamarkaðinum eða hvort þau væru komin úr þjóðarsálinni. Ég heyrði að hv. þm. Ögmundur Jónasson reyndi að sannfæra ráðherrann um að þetta væru ekki orð þjóðarsálarinnar. Ég hygg að það sé alveg rétt hjá honum, ég tek a.m.k. undir það sjónarmið að þetta hafi ekki verið orð þjóðarsálarinnar. Ég held að þetta hafi verið orð markaðarins sem hæstv. viðskrh. lagði eyrun við. Og ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson ætti nú ekki að gera meira af því að vera að eyðileggja trú hæstv. viðskrh. og leyfa honum að halda þeirri trú sinni að hann sé að hlusta á þjóðarsálina. Því að við megum nú ekki eyðileggja það að hæstv. ráðherrar hafi þá trú að þeir séu að vinna að hag og heill þjóðarinnar, þó að ég sé á sömu skoðun og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að menn séu í ríkisstjórninni núna að hlusta á hag og áherslur markaðarins fyrst og fremst, þeirra sem vilja koma fyrir peningum og fjárfesta.

Hvers vegna draga þeir þá ályktun að nú sé rétt að rjúka til og búa til það sem hæstv. viðskrh. nefndi hér jólagjafapakka fyrir íslenska þjóð? Það skyldi þó ekki vera þannig að jafnvel í vaxandi niðursveiflu í sjávarútvegi séu menn á fullri ferð að ná peningum út úr sjávarútveginum?

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að íslenskum stofnunum eins og Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka hefur ekki tekist að gera grein fyrir rúmum 30 milljörðum sem streymt hafa út úr íslenskum sjávarútvegi og orðið þar til að auka skuldsetningu hans um yfir 50 milljarða á fjórum árum. Og hvar skyldu þeir peningar hafa verið á ferðalagi? Jú, það er alveg öruggt að eitthvað af þeim peningum fór í að kaupa hlutabréf í FBA, það er alveg klárt, eitthvað af þessum 30 milljörðum lenti þar. Og ég hygg að eitthvað af þessum 30 milljörðum hafi líka lent í knattspyrnufélaginu Stoke í Englandi.

Það er nú samt einhver slatti eftir af þessum 30 milljörðum. Það skyldi nú ekki vera að það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson heldur að séu skilaboð markaðarins en viðskrh. heldur að sé þjóðarsálin, sé að segja mönnum að finna þurfi pláss fyrir peninga í íslensku þjóðfélagi? Þá rjúka menn upp til handa og fóta og mér er næst að taka mér þau orð í munn að mönnum verði brátt í brók og vilja fara að selja hluti í þeim fjármálastofnunum sem ríkið á enn þá, Búnaðarbanka og Landsbanka. Hér birtist frv. einn, tveir og þrír og það á að afgreiða á stuttum fundum og verða helst orðið að lögum fyrir vikulok. Ég held að menn ættu að flýta sér hægt.

Sú þáltill. sem við í Frjálslynda flokknum fáum vonandi að mæla fyrir sem fyrst gengur í rauninni út á það að við óskum eftir að ríkisstjórninni verði falið að kanna hagkvæmni þess að sameina fyrst Búnaðarbanka og Landsbanka og a.m.k. að tryggja að íslensk þjóð fái sem mest verðmæti út úr því sem hún ætlar að fara að selja. Því að við gerum okkur auðvitað grein fyrir því í þingflokki Frjálslynda flokksins, sem er nú reyndar aðeins tveir menn og ég held að ég muni það rétt að sjálfur hæstv. viðskrh. hafi einhvern tíma í haust kallað þennan litla þingflokk ,,örflokkinn``, þá gerum við okkur samt grein fyrir því, þó litlir séum, að ef það er vilji hinnar öflugu ríkisstjórnar þessa lands með sinn mikla þingmeirihluta að selja þessar bankastofnanir, Landsbanka og Búnaðarbanka, þá muni ríkisstjórnin sjálfsagt ná fram þeim vilja sínum sennilega fyrir jól. En við ætlum hins vegar að leggja það til að menn staldri aðeins við og hugsi sinn gang í þessum málum og velti því virkilega upp, ef það er svona eindreginn vilji manna að selja þessar bankastofnanir og ef menn álíta það sérstaka jólagjöf fyrir íslenska launþega að geta fjárfest í hlutabréfum í þessum bönkum, hvort við ættum ekki a.m.k. að tryggja það að íslenska ríkið fái hámarksverð fyrir bankana og þar með íslenska þjóðin.

Ég held að ég muni það rétt úr Hólamessu forsrh. að hann hélt því fram að menn væru að reyna að ná til sín FBA fyrir smánarlega lítið verð. Fyrir örfáum dögum hélt hann ræðu og skýrði það út fyrir þingheimi hversu gæfulegt það hefði verið að hinkra aðeins við og ná 14 milljörðum fyrir FBA. Við getum út af fyrir sig verið sammála honum um það að úr því að FBA var seldur þá var miklu skynsamlegra að menn fengju fyrir hann 14 milljarða en 8 milljarða. Það skyldi þó ekki svipað sjónarmið eiga við varðandi bankastofnanir eins og Búnaðarbanka og Landsbanka, að skynsamlegt sé, ef það er eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að selja þessa banka, að menn reyni að fá fyrir þá hámarksverð en séu ekki að gefa sérstakar gjafir, jafnvel þó fyrir jól sé og þær hugsaðar sem sérstakur jólagjafapakki. Það verði sem sagt tryggt að íslenska þjóðin fái réttvirði fyrir þessi 15% sem ákveðið er að selja. Í öðru lagi að það verði jafnvel skoðað hvort ekki þurfi að gera eins og hæstv. forsrh. sagði í sumar, að setja þyrfti einhverjar reglur um hvernig ætti að tryggja dreifða eignaraðild.

Ég held að það væri allt í lagi að menn stöldruðu við þessi tvö atriði og veltu þeim fyrir sér. Þau eru alla vega í samræmi við það eins og ég heyrði hæstv. forsrh. segja á sumardögum. Það getur vel verið að vetrarnætur hafi breytt skoðunum hans, en svona voru orð hans fyrr á þessu ári. Ég tel að full ástæða sé til þess að sú þáltill. sem við höfum fengið dreift hér á borðin fái að koma til umræðu sem allra fyrst þannig að hægt sé að velta upp þeim möguleika hér í salnum annars vegar og hins vegar við lokaafgreiðslu hvort menn séu tilbúnir að staldra við þá þáltill. og velta því fyrir sér hvort ekki sé verið að hafa af þjóðinni umtalsverða fjármuni með því að standa svona að málum.

Þess vegna vil ég nefna það úr þessum ræðustól, hæstv. forseti, hvort hugsanlegt sé, þó að þessari þáltill. hafi aðeins verið dreift hér í morgun, að fyrir henni fáist mælt eftir að þessari 2. umr. lýkur um sölu á hlutafé í Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Ég vil mælast til þess við forseta að hann hugleiði hvort hann geti leyft að við fáum að mæla fyrir þáltill. okkar svo menn geti skoðað hana. Reyndar er hún þannig úr garði gerð að jafnvel þó að menn stígi þetta ógæfuskref núna í eintómum flýti, þá heldur tillagan gildi sínu vegna þess að enn þá á ríkið eftir 72--73% í hvorum banka fyrir sig og hefur vissulega vald á því að sameina þá banka áður en þeir verða endanlega seldir. Málið er svo sem ekki alveg dottið um sjálft sig þó svo að ekki verði fallist á það af stjórn þingsins að þetta mál fái að koma hér til umræðu. En það væri vissulega betra ef það fengi að komast til umræðu áður en menn færu í endanlega afgreiðslu á þessu máli við 3. umr.

Það hafa komið hin og þessi skilaboð frá því sem hæstv. viðskrh. kallar markaðinn og þjóðarsálina. Fyrir ekki alllöngu síðan tók ég eftir ummælum formanns stjórnar Íslandsbanka, Kristjáns Ragnarssonar þar sem hann lýsti því yfir að hann teldi að bestu sameiningarmöguleikarnir og þeir sem lægju í raun og veru á borðinu undir stjórn Íslandsbanka, yrði sameining Landsbanka og Íslandsbanka, ef af yrði í framtíðinni, eftir að bankastofnanir sem ríkið á núna væru einkavæddar. Ég minnist hins vegar orða hans og langar að rifja þau hér upp þegar það kom til tals fyrir um það bil einu og hálfu ári eða tveimur árum að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka, þá held ég að ég muni það alveg rétt, þó það sé ekki orðrétt, að hann sagði eitthvað á þá leið að óráð væri að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka. Hvers vegna? Vegna þess að þá yrði til viðskiptarisi í bankaheiminum.

[15:00]

Núna talar hann hins vegar ekkert um það. Hann telur mjög eðlilegt að Íslandsbanki hafi forustu um að sameinast Landsbankanum. Þá óttast aðrir aðilar að til verði risi, þ.e. sparisjóðirnir og Búnaðarbankinn. Ég endurtek hins vegar að eðli málsins samkvæmt þyrfti, með hagsmuni íslensku þjóðarinnar sem á þessar bankastofnanir að leiðarljósi, að skoða hvort ekki bæri að sameina þessar tvær bankastofnanir áður en meira hlutafé yrði selt í þeim. Ég hygg að fólkið í landinu og ríkissjóður fengi meira fyrir eign sína ef sú sameining ætti sé stað áður en ráðstafað yrði meira af hlutafé í þessum bönkum. Ekki síst ef sú stefna yrði tekin að flýta endanlegri einkavæðingu. Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar um að það muni ekki gerast á næstu fjórum árum þá getur, miðað við þann flýti sem er á þessu máli, farið svo að menn ákveði að stíga skrefið til fulls.

Ég held að það væri gæfuspor að staldra aðeins við. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá formanni Sambands íslenskra bankamanna að eðlilegt væri og sjálfsagt að skoða sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka.

Ég hef tekið eftir að í þeim skjölum sem fylgja álitum þeirra sem starfa í efh.- og viðskn., en þar á Frjálslyndi flokkurinn ekki fulltrúa, hafa verið dregnar fram ýmsar upplýsingar. Í efh.- og viðskn. lagði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir langan fyrirspurnalista m.a. fyrir Fjármálaeftirlitið. Þar var m.a. spurt hvort leikreglur um fjármálamarkaðinn, m.a. löggjöf um Samkeppnisstofnun, væru nægilega traustar til að fyrirbyggja eins og kostur er valdasamþjöppun á fjármagnsmarkaði og tryggja dreifða eignaraðild. Því svaraði Fjármálaeftirlitið skriflega og segir að með bréfi til efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 9. nóvember, hafi Fjármálaeftirlitið gefið umsögn m.a. um eignaraðild í viðskiptabönkunum og öðrum lánastofnunum. Í umsögninni tekur Fjármálaeftirlitið ekki beina afstöðu til þeirrar almennu spurningar hvort tryggja beri dreifða eignaraðild að íslenskum viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum með lagaákvæðum um hámarkseign eða atkvæðisrétt. Í umsögninni eru hins vegar raktar reglur um eftirlit með eignarhaldi sem kveðið er á um í tilskipun um Evrópska efnahagssvæðið. Þar er fjallað um útfærslu þeirra á svæðinu og rakin umræða um málið í Noregi. Í umsögninni kemur fram að unnt sé, að mati Fjármálaeftirlitsins, að styrkja núgildandi ákvæði um eignaraðild og tryggja með því þá hagsmuni sem lúta að öryggi fjármagnsmarkaðarins. Enn fremur er vikið að nokkrum atriðum sem hafa ber í huga, sé það vilji löggjafans að setja lög um ákvæði um dreifða eignaraðild að lánastofnunum.

Ég skildi þær umræður sem fram fóru um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þannig að mikill vilji væri til þess hjá hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að slíkar reglur yrðu settar.

Mig langar, áður en ég lýk máli mínu, að beina þeirri spurningu til viðskrh. hvort hægt sé að vænta þess í nánustu framtíð að ríkisstjórnin eða viðskrh. beiti sér fyrir því að slíkar reglur verði settar.