Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 15:05:45 (2622)

1999-12-09 15:05:45# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að mér verði það fyrst fyrir, herra forseti, að ræða dálítið um vinnubrögð og þær vinnuaðstæður sem okkur þingmönnum er boðið upp á í þessu máli. Ég hygg að ég muni það rétt, herra forseti, að þetta frv. hafi komið fram í síðustu viku. A.m.k. kom það hér til umræðu fyrst 3. desember sl. Það er ekki ýkja langt síðan. Ég sagði þá strax og endurtek hér að mér finnast þetta fráleitar aðstæður sem hæstv. ríkisstjórn ætlar þingmönnum og þinginu í vinnu að stórmáli af þessu tagi. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að við stöndum frammi fyrir slíku hér á Alþingi trekk í trekk. Það virðist færast í vöxt að hæstv. ríkisstjórn líti svo á að hún hafi alfarið í valdi sínu og til ákvörðunar úti í bæ að skipa Alþingi fyrir verkum og ákveða hvernig málum skuli rúllað hér í gegn. Við fáum um það tilskipanir utan úr bæ að þetta eða hitt málið skuli afgreitt á fimm dögum, tíu dögum eða þremur vikum, að ríkisstjórnin hafi ákveðið að þetta eða hitt verði afgreitt fyrir jól, fyrir páskaleyfi eða hvað það nú er. Þannig er með þetta mál.

Svo virðist sem skyndiákvörðun ríkisstjórnarinnar um að henda út 15% af eignarhlut almennings í Landsbanka og Búnaðarbanka sé tilefni þess að frv. er tekið hér til 1. umr. þegar komið er fram í desembermánuð. Það er ekki eins og það sé bara nóg að afgreiða málið fyrir áramót. Nei, málið þarf helst að afgreiða í gær þannig að hægt sé að selja bankana í dag. Þannig er það. Ríkisstjórn og ráðherrum finnst sjálfsagt að Alþingi hlýði, að menn bukki sig hér og beygi fyrir ákvörðunum ríkisstjórnarinnar úti í bæ og málunum sé rúllað í gegn. Allur þessi aðdragandi málsins, herra forseti, er til vitnis um það að þetta mál er sáralítið undirbúið af hálfu ríkisstjórnar. Hér er um skyndiákvörðun að ræða. Hún er liður í leikfimisæfingum ríkisstjórnarinnar sem eiga að heita til þess fallnar að slá á þenslu. Ríkisstjórnin er í nokkrum vanda með ýmis ofhitunareinkenni í efnahagslífinu og margt hefur reynst með öðrum brag og í raunar í lakara standi en hæstv. ríkisstjórn taldi þjóðinni trú um fyrir kosningar. Góðærið er sem sagt ekki jafnfast í sessi og ríkisstjórnin vildi láta þegar hér var allt í himnalagi fyrir kosningar. Þess vegna þarf að grípa til æfinga eins og þeirra sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í kringum afgreiðslu fjárlagafrv. og nú þeirrar, að það sé mikið snjallræði að selja hlut í ríkisbönkunum til að slá á þenslu. Það réttlætir það að hverfa frá öllum fyrri yfirlýsingum og loforðum. Menn telja sig lausa allra mála af því að þeir fundu þessa miklu afsökun, að slá á þensluna.

Það er í lagi að hér komi fram, herra forseti, að svo mikið lá við að drífa þessa sölu bankanna af að hv. formaður viðskn., Vilhjálmur Egilsson, var kallaður heim frá útlöndum. Hann mátti taka töskur sínar, troða ofan í þær pjönkum sínum og drífa sig heim þar sem hann var staddur í mikilvægum erindagjörðum Alþingis á erlendri grund. Hann varð að stytta för sína um einhverja sólarhringa. Verkefnið er þetta, að pína frv. í gegnum efh.- og viðskn. á svo sem eins og einum til tveim sólarhringum. Að sjálfsögðu lét hv. þm. sig hafa það enda ýmsu vanur eins og kunnugt er. (JóhS: Hann vinnur nú alla vikuna.) Rétt, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er einn allra ötulasti vinnumaður ríkisstjórnarinnar í gegnum árin við að troða í gegn hverju sem vera skal hafi það verið ákveðið af hinni háu ríkisstjórn. Ég er alveg viss um það að ef enn væru við lýði þau verðlaun sem Búnaðarfélag Íslands veitti fyrr á öldinni dyggustu vinnumönnum í sveitum landsins, þá ætti hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þann prís skilinn. Hann ætti að fá þann bikar sem Búnaðarfélagið úthlutaði hér fyrr á öldinni, við þær aðstæður sem þá voru, duglegustu vinnumönnum. Þá var valinn vinnumaður ársins. Ég legg til að þó seint sé fái nú hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þann titil, vinnumaður ársins. Hann hefur svo sannarlega verið ríkisstjórninni og ríkisstjórnum á undangegnum kjörtímabilum betri en enginn þegar þurft hefur að troða í gegn svona ákvörðunum, stimpluðum úti í bæ. Þar með hefur fyrir hönd Alþingis verið ákveðið að þetta skuli fram ganga og verða að lögum. (Gripið fram í: Og gegnir öðru starfi með.) Svo ekki sé nú minnst á það.

En hv. þm. Vilhjálmur Egilsson má eiga það að hann hefur það fram yfir ýmsa aðra nefndarformenn að þegar beita þarf ofbeldinu þá gerir hann það af nokkurri lagni. Það vill nú svo til að ræðumaður þekkir þetta af nokkuð langri sambúð við hv. þm. í efh.- og viðskn., sem hæstv. forseti kallar stundum fjárhags- og viðskiptanefnd af sögulegum ástæðum. Það sem ég á við og vil hrósa hv. þm. fyrir þrátt fyrir allt, þó mér finnist hann stundum leggjast lágt í þessum vinnumannsstörfum, er að ég minnist þess ekki að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., hafi nokkurn tímann neitað bón um að fá t.d. gesti fyrir nefndina. Ég hef alla vega ekki orðið fyrir því og hef ég þó kallað býsna marga fyrir efh.- og viðskn. á sl. átta árum eða svo.

Þetta hefur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson fram yfir starfsbróður sinn, hv. þm. Hjálmar Jónsson, sem komst á spjöld þingsögunnar í gær eða fyrradag fyrir framgöngu sína sem formaður í annarri þingnefnd með því að hafna því að kalla fyrir þingnefndina einn aðalaðila málsins, í því tilviki fyrirtækið Norsk Hydro. (Gripið fram í: Hjálmar Árnason.) Já, hv. þm. Hjálmar Árnason, sem er formaður iðnn. Já, mikil ósköp. Þar var fjallað um byggingu álvers á Reyðarfirði og virkjunar á Eyjabökkum. Slíkt hefði hv. þm. Vilhjálmur Egilsson aldrei gert því að hann beitir þeirri aðferð að kvelja menn með endalausum fundum og bregst yfirleitt heldur vel við öllum beiðnum um viðmælendur þar til menn þrýtur krafta og þá er málunum ruslað út.

En þannig er, herra forseti, að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson varð fyrir þessum hremmingum og varð að færa þær fórnir að gera heldur snautlega og stutta för sína sem formanns EFTA/EES-sendinefndar íslenska þjóðþingsins. Sennilega hefur ekki verið mikil reisn yfir því hvernig þátttöku Íslendinga í fundahaldinu lauk að þessu sinni eða hvernig það fjaraði út með ótímabærri heimferð ákveðinna þátttakenda vegna þess að fyrirmæli komu frá æðstu stöðum í ríkisstjórninni, ég hygg frá sjálfum hæstv. forsrh., um að nú þyrfti að kalla vinnumanninn heim til verka.

Hér er frv. komið, greinilega eftir afar flausturslega skoðun. Þeim mun hallærislegra er það fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. meiri hlutann í efh.- og viðskn. að í þjóðfélaginu gýs upp mikil umræða um þetta mál. Áhrifamiklir fjölmiðlar hafa skrifað um að óhjákvæmilegt sé að fram fari um þessi mál umræða um framtíðarstefnuna og grunnatriðin í þessum efnum, m.a. um hugmyndir manna í þjóðfélaginu um stórfellda bankasameiningu og annað í þeim dúr. Ég kem betur að því síðar í ræðu minni.

[15:15]

Herra forseti. Ég held að næst sé rétt að rifja aðeins upp vissa þætti úr sögulegum aðdraganda þessa máls. Staðreyndin er sú að á árinu 1997 voru hér til umfjöllunar á hinu háa Alþingi frumvörp eða frumvarp sem varaði einkavæðingu eða háeffun ríkisviðskiptabankanna. Þá voru uppi, eins og ég vitnaði til við 1. umr. þessa máls, miklir svardagar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um að ekki yrði um beina sölu á eignahlut ríkisins að ræða í ríkisviðskiptabönkunum fyrstu fjögur árin. Nú gekk það eftir að Búnaðarbankinn og Landsbankinn breyttust í hlutafélög um áramót 1997/1998 þannig að í raun er sá tími ekki uppi fyrr en í árslok 2001. Þetta var tekið skýrt fram í greinargerð frv. á sínum tíma. Þetta var undirstrikað í ræðum hæstv. viðskrh. Hæstv. viðskrh. tók þetta enn fram í svörum við fyrirspurnum á Alþingi á þessum tíma og á ýmsan hátt annan, en þetta hefur verið margítrekað og svarið t.d. í yfirlýsingum við starfsmenn, starfsmannafélög bankanna og Samband bankamanna.

Svo kemur hér hæstv. viðskrh. og telur sig lausan allra mála með því einu að segja að nú séu aðstæðurnar þannig að það sé skynsamlegra að gera þetta svona heldur en að auka hlutafé, eins og þá sé hann laus allra mála, þar með skuli orð ekki standa, þar með geti menn gefið lönd og leið lögskýringargögn og yfirlýsingar sem gefnar voru hér á Alþingi og lagðar fram í þinggögnum fyrir ekki lengri tíma síðan en raun ber vitni, tveimur árum rúmum eða svo.

Er þetta þá þannig? Er það þá þannig að einhverjar æfingar af þessu tagi leysi menn undan loforðum, stefnuyfirlýsingum, lögskýringargögnum, yfirlýsingum við samtök starfsmanna á viðkomandi sviði o.s.frv.? Og ef svarið er já, þá er það það sama og að segja: ,,Það er aldrei neitt að marka slíkar yfirlýsingar``? Þær eru ævinlega einskis virði vegna þess að það er auðvitað ævinlega hægt að bera við svona hlutum, ævinlega. Og er það vilji ríkisstjórnarinnar? Er það þá þannig sem þeir telja að hlutirnir eigi að vera, þ.e. að afsala í raun og veru stjórnvöldum þeim möguleika að geta gefið einhverjar bindandi skuldbindingar, loforð eða fyrirheit sem haldi?

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera neinar sérstakar kröfur til þess að hæstv. iðn.- og viðskrh. gerist gæslumaður virðingarverðra grundvallarsjónarmiða og prinsippa hér í sambandi við lagasetningu og þingstörf. Það væri til of mikils mælst. En ég ætla að segja það hér að aðrir menn með meiri metnað hefðu nú einhvern tíma haft það að ófrávíkjanlegri grundvallarreglu að orð skyldu standa. Og þeir hefðu þá --- þrátt fyrir það að eitthvað kallaði kannski á og þeir hefðu gjarnan viljað vera lausir loforða sinna og skuldbindinga --- staðið við þau samt til þess að það fornkveðna ætti við að orð skyldu standa. Það er athyglisvert að sjá menn svona viljuga við að gera sig að ómerkingum. Ég minnist þess varla að hafa séð hæstv. ráðherra í annan tíma jafnviljugan, sporléttan, þegar hann er að gera sjálfan sig að ómerkingi eins og hæstv. iðn.- og viðskrh. Það liggur við að hæstv. ráðherra sé glaðhlakkalegur þegar hann kemur hér og afhjúpar það að hann er að gera að engu þau fyrirheit sem hann gaf, stóð fyrir að gefa hér við afgreiðslu málsins á sínum tíma þegar bönkunum var breytt í hlutafélög. Auðvitað verður það, eins og ég segi, að vera hans eigin ákvörðun, hæstv. ráðherrans, en það er athyglisvert að sjá hversu lítill metnaður manna sem fara með ráðherraembætti á Íslandi er orðinn á þessum síðustu tímum. Einu sinni var sú tíð að mönnum var fátt kærara en mannorð sitt og alveg sérstaklega það að þeir væru orðheldnir menn, þeirra orðum væri að treysta og þeir legðu mikið á sig jafnvel til að það stæði, tóku á sig ýmiss konar vandkvæði til þess að geta verið menn fyrir því að standa við orð sín. Það á ekki við um hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. augljóslega eins og þetta dæmi sýnir. Og það sem meira er, svo undarlega virðist bera til að hæstv. ráðherra er viljugur og þess óðfús að láta hlutina ganga þannig fram hér að þeir geri hann sjálfkrafa að ómerkingi orða sinna.

Herra forseti. Í þriðja lagi þá held ég að það sé athyglisvert og ástæða til að ræða hér stefnuleysi hvað varðar framkvæmd og markmið sem einkennir allt þetta ferli. Í raun vil ég lýsa nokkrum vonbrigðum með það hvernig þessi mál eru og hafa verið að þróast hvað varðar breytingu á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög og svo framhaldinu og reyndar fleira sem varðar, má segja, einkavæðingu og æfingar hæstv. ríkisstjórnar á því sviði. Það er að vísu svo að ljóst er að að einu leyti er leiðin vörðuð og skýr, þ.e. með því að einkavæða. Hún er sú. Það er alveg ljóst. Einhvern veginn skal haldið áfram þessari einkavæðingu. En það er augljóslega þannig að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki lagt niður neinar línur hvorki hvað varðar vinnubrögð né áfanga eða markmið í þessum efnum að öðru leyti.

Hvað varðar meðferð þessara mála í tilviki fjármálastofnananna þá er þetta auðvitað svo ljóst vegna þess að þar hafa menn hringlað með framkvæmdina. Ég fullyrði það hér, herra forseti, að í ekki eitt einasta skipti, hvorki þegar byrjað var að einkavæða eða selja Fjárfestingarbankann, þegar því verki var lokið, þegar æfingarnar hófust með Landsbankann og Búnaðarbankann né heldur nú í framhaldinu, er beitt sömu vinnuaðferðum. Það er ævinlega spilað af fingrum fram og búin til einhver ný aðferðafræði í hvert sinn. Þannig hefur það verið. Í hvert einasta skipti er farið út í einhverjar svona nýjar æfingar og þær rökstuddar eða kynntar eða seldar með ýmsum æfingum.

Til að nefna nokkur dæmi þá má náttúrlega í fyrsta lagi vísa í þær mismunandi aðferðir sem notaðar voru við söluna. Þegar hlutaféð í ríkisviðskiptabönkunum var boðið út þá var ein aðferð notuð. Þegar 49% í Fjárfestingarbankanum voru seld þá var önnur aðferð notuð og þegar afgangurinn var seldur þá var þriðja aðferðin notuð. Og nú er verið að afgreiða þetta hér án þess að neitt liggi fyrir um það hvernig farið verður með eignarhlut ríkisins, þessi 15% í hvorum banka fyrir sig.

Þá má nefna það að einu sinni var sú stefna sett fram að engin bein sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum skyldi fara fram næstu fjögur árin eða fyrstu fjögur árin sem þeir væru reknir sem hlutafélög. Það er einn hluturinn sem nú er verið að hverfa frá. Enn er verið að breyta um kúrs, breyta stefnu.

Ég nefni í þriðja lagi hugmyndirnar sem gusu upp í fyrrasumar algjörlega þvert ofan í t.d. loforðin um enga sölu, þ.e. að selja allt í einu stóran og í raun ráðandi hlut í Landsbankanum til útlanda. Hæstv. iðn.- og viðskrh., auðvitað þvert ofan í eigin loforð og yfirlýsingar, var kominn á fulla ferð með sínum húskörlum í það mál. Hann var kominn á bólakaf í viðræður við Enskilda bankann um að selja honum drjúgan hlut af Landsbankanum. Svo var það nú stoppað og ráðin tekin af hæstv. ráðherra. En það sýnir samt hringlið, stefnuleysið og í raun og veru ósvífnina í þessum málum. Þá sem fyrr og síðar var þessi sami einkennilegi vilji á ferðinni hjá hæstv. viðskrh. að gera sjálfan sig að ómerkingi því þá var enn styttra um liðið frá því að loforðin um að selja ekkert voru gefin.

Í fjórða lagi, herra forseti, mætti nefna þá aðgerð sem hæstv. iðn.- og viðskrh. hafði forgöngu um, að rjúka til og bjóða út nýtt hlutafé í báðum ríkisviðskiptabönkunum á sínum tíma. Í raun er það þannig að allt sem síðan hefur gerst og meira að segja hæstv. ráðherra sjálfur með málflutningi sínum nú og þenslutali, segir að það hafi verið mjög óskynsamleg aðgerð. Voru einhver sérstök rök fyrir því t.d. að það þyrfti að styrkja eiginfjárstöðu bankanna út af fyrir sig? Var Búnaðarbankinn illa á vegi staddur? Skorti hann meira eigið fé? Nei. Menn geta sagt sem svo að á þeim tíma hafi menn viljað stækka efnahagsreikning bankanna og auka svigrúm þeirra til að þjónusta stóra viðskiptavini. En þá voru menn líka um leið að segja að þeir vildu að bankarnir gætu að breyttu breytanda verið þátttakendur í þeirri útlánaþenslu sem menn líta nú á sem vandamál og segja að sé eitt það efnahagsvandamál sem menn séu að glíma við. Og nú kemur hæstv. viðskrh. hér og segir að það væri óskynsamlegt að auka hlutafé bankanna því það mundi auka þenslu og þess vegna verðum við að gera þetta svona, að selja beint.

Þetta er sami maðurinn og fyrir ekki löngu síðan stóð einmitt fyrir því að bjóða út aukið hlutafé og stækka bankana, stækka efnahagsreikning bankanna sem auðveldaði þeim aftur aukin útlán o.s.frv. Hér rekst eitt á annars horn og niðurstaðan í málinu er sú sem blasir við og er staðreynd, að ríkisstjórnin hefur ekki haft neina heildstæða, skýra stefnumörkun uppi í þessum efnum. Þetta er spilað af fingrum fram og það er eins og menn séu að selja kartöflupoka eða nokkur kíló af hveiti eða eitthvað slíkt. Það er farið með þessa hluti af þvílíku kæruleysi að það mætti ætla að ekki væru miklir hagsmunir í húfi. Og það er auðvitað mjög ámælisvert, herra forseti.

Er það virkilega orðið þannig að hæstv. ríkisstjórn líti svo á að eignir almennings, opinber fyrirtæki og stofnanir, séu bara svona eins og spilafé eða vasapeningur sem krakkar fá og geta leikið sér með og gert við hvað sem þeim sýnist, að menn getið tekið í skyndi einhverjar geðþóttaákvarðanir og farið með þetta að vild, svona einn daginn og hinsegin annan daginn? Það er auðvitað athyglisvert, herra forseti, hvernig ábyrgð menn sýna eða öllu heldur sýna ekki í umgengni um þessa hluti.

Herra forseti. Það er einnig athyglisvert og ástæða til þess að fá á því skýringar, hvers vegna ríkisstjórnin velur að láta báða ríkisviðskiptabankana fylgjast algjörlega að í þessum efnum, bjóða út nýtt hlutafé í þeim báðum með svipuðum hætti og nú selja 15% af eignarhlut ríkisins í þeim báðum samtímis. Hvaða rök eru sérstaklega fyrir því að meðhöndla báða ríkisviðskiptabankana nákvæmlega eins að þessu leyti? Eru þeir algjörlega eins? Er efnahagsleg staða þeirra og viðskiptaumhverfi þannig að það kalli á að þeir séu meðhöndlaðir nákvæmlega eins? Ég frábið mér röksemdafærsluna um skilyrðin frá Verðbréfaþingi Íslands því ég kannast ekki við að Alþingi Íslendinga sem á að móta stefnuna í þessum málum og fer með valdið í reynd --- eða ætti að fara með það ef hér væri eðlilegt þingræði í landinu --- hafi framselt Verðbréfaþingi Íslands vald til þess að ráðskast með það hvernig farið verði með eignarhlut bankanna. Það var framkvæmdarvaldsaðgerð sem var ekki borin undir Alþingi svo mér sé kunnugt um að gangast inn á þessa skilmála til þess að fá bankana skráða á Verðbréfaþinginu og þennan aðlögunartíma sem er þó fram í júní eða júlí á næsta ári og gerir það m.a. að verkum að Alþingi gæti tekið sér tíma fram á vor til þess að skoða vandlega og ákveða hvernig frá þessu yrði gengið.

[15:30]

En af hverju 15% í báðum bönkunum? Jafngildir það ákvörðun eða tillögu um að báða ríkisviðskiptabankana skuli einkavæða í sömu skrefum og láta þá báða hverfa yfir til einkamarkaðarins með sama hætti, eða hvað? Eða eru rökin bara þau að menn vilji ekki gera upp á milli þeirra? Auðvitað er staðreyndin sú að að mörgu leyti er staða bankanna ólík, bæði hvað varðar efnahagslega stöðu þeirra, hlutfallslegt eigið fé miðað við útlán og stærð þeirra á markaðnum og fleira mætti þar til telja. Ef maður lítur á þá hlið mála væru ýmis rök sem virðast benda til þess og mæla með því að einmitt gæti verið ástæða til að meðhöndla þá ólíkt og nýta með mismunandi hætti, t.d. heimildir til hlutafjáraukningar og/eða sölu. En það er ekki lagt til, þvert á móti er þetta spyrt saman með þessum hætti. Þýðir þetta líka að ríkisstjórnin ætli sér, hafi sett sér, að ríkið skuli sem eigandi hverfa út úr báðum bönkunum og ekki komi til greina t.d. að halda eignarhlut í öðrum bankanum, stærri eða alfarið? Er þetta t.d. til marks um það að ríkisstjórnin hafi alfarið hafnað þeim möguleika að fara hér hvað varðar eignarhald í bönkunum það sem við höfum stundum kallað í þessari umræðu ,,norsku leiðina``, að ríkið eigi drjúgan hlut í mikilvægustu viðskiptabönkunum sem það hefur af sögulegum ástæðum átt eða átt aðild að, a.m.k. öðrum þeirra, er búið að hafna því? Er hægt að fá einhver svör við því eða verður svarið eins og venjulega, þetta verður allt metið eftir aðstæðum og er niðurstaðan sú að það verði spilað af fingrum fram af geðþótta ríkisstjórnarinnar og teknar um það skyndiákvarðanir sem síðan verði hent inn í Alþingi til þess að stimpla?

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er ekki sérlega upprifinn yfir framgöngu hæstv. ríkisstjórnar og hvernig þetta birtist hér og verð að láta í ljós að ég hef afar takmarkaða samúð með því sem hæstv. viðskrh. beitir sér fyrir og hæstv. ríkisstjórn er væntanlega á bak við hann.

Það er líka ákaflega athyglisvert, herra forseti, og liggur við að vera skemmtilegt í pólitísku sögulegu samhengi að það skuli vera Framsfl. og hæstv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, sem eru nú aðalverkamennirnir í víngarði drottins í þessum efnum ef svo má að orði komast. Sú var tíðin að hæstv. viðskrh. var ungur maður á uppleið í Framsfl., var í stjórnarandstöðu á Alþingi og hafði flest á hornum sér vegna þeirrar einkavæðingar sem var þá í undirbúningi eða í gangi í tíð þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem þá sat, þ.e. ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. Væri auðvitað hægt að draga fram í dagsljósið ýmis gullkorn, m.a. úr ræðum hv. þm. á þeirri tíð, Finns Ingólfssonar, núv. hæstv. viðskrh. Þetta er líka athyglisvert vegna þess að ekki er langt síðan, herra forseti, að sá flokkur sem hæstv. viðskrh. er varaformaður fyrir, hafði uppi allt aðrar áherslur í þessum efnum. Það eru orðin býsna merkileg vatnaskil í þessari umræðu pólitískt séð þegar það birtist okkur nú að Framsfl. er með öllu horfinn úr hópi þeirra sem hafa einhverjar efasemdir uppi hvað varðar nýfrjálshyggjuna og allsherjarmarkaðsvæðingu samfélagsins. En það er ekki hægt að fá aðra niðurstöðu af því sem er raunverulega að gerast og hefur verið að gerast síðustu missiri en þá, að Framsfl. er genginn í raðir nýfrjálshyggjuflokkanna og það sem meira er, hann er tiltölulega ötull í framkvæmdinni og hefur þar í raun og veru enga fyrirvara á. Það er svo skemmtilegt, herra forseti, að á köflum hafa í umræðum um þessi mál talsmenn Framsfl. verið meiri markaðshyggjumenn, hægri sinnaðri og gaddfreðnari, eins og ég hef stundum komist að orði um þá nýfrjálshyggjumenn, en talsmenn Sjálfstfl.

Það var t.d. afar skemmtilegt þegar umræða hófst nú í haust um möguleikann á því að setja lög og reglur sem tryggðu dreifða eignaraðild einmitt að fjármálstofnunum. Hæstv. forsrh. blandaði sér mjög í þá umræðu og taldi að slíkt kynni að reynast nauðsynlegt, hann hefði að vísu heldur, sagði hæstv. forsrh., kosið að óskráðar reglur dygðu, en ef á því væri vafi þá væri óumflýjanlegt að setja slíkar reglur. Hverjir komu þá fram og andmæltu því og töldu það óheppilegt inngrip í markaðinn? Var það Hannes Hólmsteinn sem kemst víst á spjöld sögunnar sem einn af tíu umdeildustu stjórnmálamönnunum, Íslendingunum, af því hann hefur þótt eða þótti á sinni tíð mestur frjálshyggjumanna norðan Alpafjalla, fyrir utan kannski Milton Friedman? Nei, það var ekki Hannes Hólmsteinn, það var ekki Heimdallur, það var ekki SUS, það var Framsfl. Það var bæði formaður og sérstaklega varaformaður Framsfl., hæstv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, sem taldi á því öll tormerki að vera að setja slíkar reglur sem gripu inn í markaðinn. Í þessari umræðu og í umræðum á dögunum þegar þetta mál var til 1. umr. og einnig til umræðu í fyrirspurnatíma og í óundirbúnum fyrirspurnum þá kom markaðshyggjan mjög skýrt fram hjá hæstv. viðskrh. Hann vildi enga skoðun hafa á því, þóttist a.m.k. ekki hafa, skaut sér á bak við það og svaraði engu til þegar að spurt var um áform hvað varðaði sameiningu eða meðferð þessara bankamála. Hver voru rökin? Jú, hæstv. viðskrh. ætlaði að hlusta á skilaboð markaðarins og fara að þeim. Var með öðrum orðum orðinn einn helsti talsmaður óheftrar markaðshyggju og alræðis markaðarins og markaðsvæðingar samfélagsins. Það er Framsfl. í dag. Það er mjög athyglisvert, herra forseti.

Menn kunna að segja að þetta séu allt saman frasar og þetta skipti ekki lengur máli og þjóðfélagið sé á einni leið í þessum efnum o.s.frv. og það sé mjög gamaldags að hafa uppi önnur sjónarmið. Ég hef oft heyrt þær ræður, sennilega fáir Íslendingar oftar. En er það samt ekki athyglisvert og mun það ekki á seinni tímum þegar menn fara yfir hina pólitísku sögu ofanverðs 10. áratugarins og síðustu áranna á þessari öld, þá spái ég því að það muni þykja merkilegt hversu hröð þróun Framsfl. varð undir forustu núv. ráðamanna þar, frá því að vera miðjuflokkur, með svona ákveðnu félagslegu ívafi á köflum, sem hélt því á lofti að hann væri í bland flokkur samvinnu og jafnvel nokkurrar félagshyggju og yfir í að verða að sumu leyti forustuflokkur nýfrjálshyggjunnar og markaðsvæðingarinnar á Íslandi. Því rifja ég þetta upp, herra forseti, að m.a. í þessu máli, meðferð þessara bankamála verður þetta afar skýrt. Þegar til umræðu var á sínum tíma að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög fór fram geysimikil umræða um þau mál eins og eðlilegt er og ég hef hérna með mér hluta af umræðunni sem varð um frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hf. Þessi umræða varð bæði í þingsölum og úti í þjóðfélaginu. Hún varð á aðalfundum bankastofnana og hún varð á vettvangi stjórnmálafélaga. Á þeim tíma sem nú veltu menn ekki bara fyrir sér formbreytingunni heldur hinu, hvernig skyldi með málin fara í framhaldinu? Hver ætti að verða framtíðarstefnan, hver ættu að verða markmiðin í þessum efnum? Gerð var hörð hríð að því á þingi og víðar að fá fram einhverjar línur í þeim efnum. T.d. með spurningunni um það hvort einn kostur í stöðunni sem menn ættu að skoða væri að sameina ríkisviðskiptabankana, hvort sem þeir verða svo háeffaðir og jafnvel að einhverju leyti einkavæddir eða ekki. Um það gætu menn í sjálfu sér deilt. En væri það skynsamlegur kostur í stöðunni, annaðhvort samtímis eða þá áður en þeim væri breytt í hlutafélög, að leggja þessa banka ríkisins saman? Fengist meira fyrir eignarhlut ríkisins þannig? Væri það skjótvirk leið til hagræðingar í bankakerfinu? Gæti ríkisvaldið notað eignarhlut sinn og eigendastöðu sína til þess að flýta fyrir uppstokkun og hagræðingu í bankakerfinu með slíkri aðgerð? Slík sjónarmið komu fram á árunum 1996--1997 og voru býsna vel rökstudd af ýmsum. Þá voru eða höfðu verið viðhorf margra framsóknarmanna þau að það ætti að fara mjög varlega í einkavæðingu bankanna, sérstaklega var það viðhorf Framsfl. á árunum 1991--1995 og að sumu leyti birtist hæstv. viðskrh. ekki aðeins sem ómerkingur orða sinna í þessu máli, heldur líka sem hálfgerður umskiptingur, miðað við fyrri sjónarmið. Ef maður vitnar t.d., herra forseti, í fyrrv. formann Framsfl. og þau sjónarmið sem hann setti fram á þessum tíma, t.d. á fyrri hluta kjörtímabilsins frá 1991--1995, eru þau líka mjög til marks um þá hröðu þróun Framsfl. til hægri og yfir í nýfrjálshyggju og markaðsvæðingarflokk sem orðið hefur síðan, að hann fór þar með húsbóndavald og minnti stundum á yfirlýsingar fyrri forustumanna Framsfl. um að allt væri betra en íhaldið, allt væri betra en íhaldið. Mun vera ættað frá Eysteini Jónssyni, eða hvort það var Hermann Jónasson.

Þannig var það t.d., herra forseti, að meðan Steingrímur Hermannsson var enn þá formaður Framsfl., setti hann fram sjónarmið sín í þessum bankamálum í ítarlegri og athyglisverðri ræðu á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur á árinu 1991. Það er vissulega nokkuð um liðið en þetta er lýsandi fyrir þau viðhorf sem uppi voru þá í Framsfl. og höfðu áhrif á það hvernig framsóknarmenn töluðu og héldu á þessum málum í allmörg ár eftir það og í raun og veru að ég hygg að mestu leyti á því kjörtímabili, allt til 1995. En þá sagði m.a. Steingrímur Hermannsson í þessari gagnmerku ræðu á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, með leyfi forseta:

,,Steingrímur ræddi nokkuð hugmyndir um að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og selja þá einkaaðilum. Sagði hann að það að breyta bönkunum í hlutafélög skipti ekki miklu máli ef ríkið ætti allt hlutaféð en hins vegar væri ekki góð reynsla af því að selja einkaaðilum ríkisbanka.``

Þetta sagði formaður Framsfl. árið 1991. Hann fór síðan yfir ýmislegt í þessum málum í ræðunni, m.a. um sölu Útvegsbankans:

,,Sagði hann, að mikilvægt væri að hafa í landinu sterkan íslenskan banka og athugandi væri, að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka í því skyni.``

Ég rifja þetta upp, herra forseti, vegna þess að þetta er í senn lýsandi fyrir þær áherslubreytingar sem orðið hafa hjá Framsfl. og þetta á líka erindi inn í umræðuna og var reyndar rifjað upp þegar umræðan fór fram á árinu 1987 um að breyta viðskiptabönkunum í hlutafélög. En sú umræða og umræðan sem varð á árunum 1996--1997 er auðvitað mun nær okkur og á enn frekar erindi inn í þetta mál vegna þess að þar liggur upphafið og það er aðdragandinn að þeirri hlutafélagavæðingu og síðan einkavæðingu bankanna sem við erum nú að ræða hér. Þá, eins og núna, var að sjálfsögðu uppi þessi umræða um framtíðarstefnuna og þá var uppi sú spurning hvort ekki væri vænlegur kostur, úr því að svo háttaði nú til, að ríkið ætti tvo af viðskiptabönkunum að það beitti eignarhaldi sínu til að knýja fram uppstokkun og hagræðingu í bankakerfinu ef menn teldu vænlegan kost að gera það með slíkum hætti og byrja þá á því að skoða þann kost sem eðlilegt var, að sameina ríkisviðskiptabankana. Enn er staðan sú, herra forseti, að ríkið hefur fullt forræði á því máli, að sjálfsögðu sem yfirgnæfandi meirihlutaeigandi beggja bankanna.

[15:45]

Það voru ekki neinar smákanónur sem á þessum tíma lögðu þessa hluti til eða töluðu fyrir þeim. Það var t.d., herra forseti, Björgvin Vilmundarson, sem var aðalbankastjóri og reyndasti bankastjóri Landsbankans á þessum tíma, sem lagði þetta til í ræðu á aðalfundi bankans og taldi að með slíkri sameiningu mætti spara a.m.k. milljarð kr. Sameina mætti eða leggja niður 18 útibú þar sem þau væru sameiginleg hjá bönkunum, á sama stað, og eitt dygði að sjálfsögðu, ef ég man rétt níu úti á landi og níu á höfuðborgarsvæðinu. Núna eru menn að tala um allmörgum árum síðar að hugsanlega felist í því 2 milljarða sparnaður að sameina Landsbanka og Íslandsbanka.

Undir þetta var tekið, m.a. af ekki minni mönnum en leiðarahöfundum Morgunblaðsins, því þann 10. mars 1996 birtist í Morgunblaðinu leiðari þar sem fjallað var um þessi mál og vitnað í Björgvin Vilmundarson. Benti Morgunblaðið á a.m.k. þrennt sem það taldi mæla með því að þetta yrði skoðað vandlega. Það var á þá leið að menn þyrftu ekki í því sambandi að hafa áhyggjur af því að samkeppni yrði of lítil vegna þess að aðstæður væru óðum að breytast. Þar var þrennt tínt til.

Í fyrsta lagi væru sparisjóðirnir að stóreflast og ég hygg að sú þróun hafi haldið áfram. Vitnað var í nánast ótrúlega innlánsaukningu í Sparisjóði Reykjavíkur einmitt á þessum tíma.

Í öðru lagi færi ekki á milli mála að breiddin á fjármagnsmarkaðnum hefði aukist verulega á undanförnum árum og þeir sem þyrftu á þjónustu banka að halda gætu nú leitað út á innlendan fjármagnsmarkað og auk þess eftir viðskiptum beint við erlenda banka. Hafi þessi þróun verið í gangi á árinu 1996 er auðvitað augljóst að hún hefur haldið áfram síðan og enn hefur þetta breikkað.

Í þriðja lagi væri ekki óhugsandi að hér risi nýr einkabanki. Menn geta stofnað banka í samkeppni við þá sem fyrir eru ef menn telja að það sé svigrúm á markaðnum. Ef menn telja að stór banki sé farinn að misbeita stöðu sinni og farinn að gefa höggstað á sér er mönnum að sjálfsögðu frjálst að taka höndum saman og stofna banka.

Í fjórða lagi, sem er reyndar svo skemmtilegt, nefndi Morgunblaðið á þessum tíma í leiðaranum að uppi væru hugmyndir um að breyta fjárfestingarlánasjóðunum í einn fjárfestingarbanka og þá yrði hann kominn til sögunnar og mundi veita aðhald þessum stærri banka sem myndaðist með sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka. Eiga nú ekki þessar aðstæður við í dag, herra forseti, og jafnvel enn frekar?

Við nokkrir þingmenn í þingflokki Alþb. og óháðra, sem þá hét og var, lögðum það til í þáltill. að athuguð yrði sameining ríkisviðskiptabankanna áður en frekar yrði aðhafst í breytingum í bankamálum. Það er skemmtilegt að í raun og veru er hliðstæð þáltill. komin fram og var dreift á borð þingmanna í dag og ekkert síður skynsamleg nú en hún var þá, að auðvitað er það eðlilegur fyrsti kostur að skoða þegar ríkið á yfirgnæfandi eignarhlut í tveimur bönkum að sameining þeirra verði athuguð vandlega, borin saman og kannað hvaða hagræðingarmöguleikar fælust í slíku áður en menn fara að taka upp til skoðunar hugmyndir um að selja hlutina eða sameinast öðrum.

Það verður næsta hlálegt, herra forseti, og dapurlegt ef það verður niðurstaðan að þrátt fyrir endurtekinn tillöguflutning á Alþingi um þetta hafi það aldrei fengist tekið til skoðunar þrátt fyrir að stjórnmálamenn eins og Steingrímur Hermannsson, fyrrv. formaður Framsfl., þrátt fyrir það að bankamenn eins og Björgvin Vilmundarson og margir fleiri, sem ég man ekki að tilgreina, hafi talað fyrir slíkum skoðunum, og þrátt fyrir að það hafi endurtekið verið flutt inni á Alþingi í formi tillagna þá hlustar ríkisstjórnin eða ráðandi menn að sjálfsögðu ekki á það en keyra áfram sína línu eins og þeim komi ekkert annað við en það sem þeir ákveða, taka skyndilega ákvarðanir um úti í bæ.

Herra forseti. Þetta eitt og sér væri að mínu mati nægjanleg ástæða til þess að afgreiða ekki þetta frv. hér og nú og taka sér tíma í það og það ætti þá þingið að gera úr því að framkvæmdarvaldið hefur brugðist að þessu leyti. Það ætti að taka sér tíma í að skoða í fyrstu umferð þann kost að sameina bankana og þá auðvitað í öðru lagi allt sem í kringum þetta er, hvaða framtíðarstefnu eigi þarna að móta, hver eigi að vera markmiðin í þessum efnum svona til næstu ára litið o.s.frv.

Það er athyglisvert, herra forseti, og það kom reyndar fram í framsöguræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar fyrir áliti 2. minni hluta, að bera saman hlutskipti Alþingis Íslendinga annars vegar og norska Stórþingsins hins vegar í þessum efnum. Menn geta að vísu sagt að í Noregi séu aðrar aðstæður, þar sitji minnihlutastjórn, hún þurfi að leita meira til þingsins og reiða sig á málamiðlanir og samkomulag og það er vissulega margt til í því. En það breytir ekki hinu, og hefur ekki þurft minnihlutastjórnir til í Noregi því þær hafa ekki alltaf setið heldur meirihlutastjórnir í bland, að þar eru gerólík viðhorf og hlutverk hvors um sig, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.

Í stærri málum af þessu tagi, t.d. hvað varðar bankamálin og eignarhald og þátttöku ríkisins í bankaheiminum í Noregi er það Stórþingið sem mótar stefnuna, það er Stórþingsákvörðun, það er ,,Stortingsmelding``, eins og það heitir á norskunni, þar sem stefnan er lögð niður með vel rökstuddri samþykkt þar sem byggt er á ítarlegum greinargerðum og vinnu sem lögð er til grundvallar ákvarðatökunni. Þegar slíkt hefur einu sinni verið afgreitt er borin virðing fyrir því. Þá dettur framkvæmdarvaldinu ekki í hug að ráðskast með það heldur er þá borið upp við Stórþingið á nýjan leik, ef efni standa til, hvort gera skuli einhverjar breytingar.

En hér ætlar þetta að verða með öðrum hætti og er svo sem ekki einsdæmi, herra forseti, því miður, að stefnan eða stefnuleysið í mikilvægum málaflokkum af þessu tagi, eins og þær miklu breytingar í fjármálaheiminum sem hér hafa verið að ganga yfir, gerast í skrefum og áföngum handahófskennt, tilviljanakennt á grundvelli geðþóttaákvarðana framkvæmdarvaldsins sem er hent inn í þingið til afgreiðslu. Oftar en ekki eru mönnum ætlaðar alls ófullnægjandi aðstæður til að skoða þá hluti, enginn tími og í raun og veru er ekkert svigrúm til sjálfstæðra athugana eða skoðana á málunum.

Þetta er afar dapurlegt, herra forseti, og ekki til þess fallið að auka sérstaklega virðingu þessarar stofnunar, og okkur miðar lítt áfram og í raun og veru að mörgu leyti frekar aftur á bak, því miður, hvað varðar samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Má minna á að forseti lýðveldisins, sem er býsna hagvanur maður í stjórnkerfinu og þekkir bæði til starfa sem ráðherra og í framkvæmdarvaldinu og hér á þingi, sá ástæðu til að ræða sérstaklega stöðu Alþingis í setningarræðu sinni úr þessum ræðustól fyrir nokkrum mánuðum. Ég held að allir sem til þekkja og allir sem hafa vegna kynna af starfi annarra þjóðþinga og hafa þar af leiðandi einhverjar forsendur til samanburðar viti og viðurkenni að staða Alþingis er í þessum efnum nánast í öllu tilliti til muna veikari og dapurlegri en gerist annars staðar.

Núv. ríkisstjórn og þær stjórnir sem setið hafa undir forustu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hafa í raun og veru fært okkur aftur á bak en ekki áfram í þessum efnum, það er alveg morgunljóst. Það er öllum þeim sem til þekkja alveg ljóst. Ekki bætir úr skák þegar hæstv. ráðherrar, eins og hæstv. viðskrh. Finnur Ingólfsson, umgangast jafnvel eigin orð og yfirlýsingar af því metnaðarleysi sem raun ber vitni og ég hef gert áður að umtalsefni.

Herra forseti. Aðeins nánar í sambandi við sameiningu bankanna. Ef svo verður ekki er náttúrlega líka ástæða til að athuga og hugleiða hvað gerist þá. Ef ekki einasta verður nú ekki af því að menn skoði sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka heldur bara verður yfir höfuð ekkert yfir það mál farið. Jú, þá velta menn náttúrlega fyrir sér hvað annað gæti orðið uppi á teningunum. Ekki þarf mikið hugmyndaríki til að láta sér detta í hug að það sem þá verði skoðað og sé kannski þegar komið af stað sé sameining Íslandsbanka og Landsbanka. Svo vill til að einmitt sömu daga og þessi mál eru til umfjöllunar er mönnum svo brátt í brók í þeim bönkum að þeir geta ekki orða bundist, þeir mega ekki við bindast, og hafa verið með býsna athyglisverðar yfirlýsingar, fyrst bankastjóri Landsbankans og formaður bankaráðs Landsbankans og síðan formaður bankaráðs Íslandsbanka um að sameining Landsbanka og Íslandsbanka sé sá kostur sem nú eigi að taka upp til skoðunar í bankaheiminum.

Það er alveg með ólíkindum, herra forseti, og er enn eitt atriðið sem dregur athyglina að þeirri stöðu sem Alþingi er skömmtuð í málinu. Sú umræða fer fram úti í bæ, hæstv. ráðherra svarar Alþingi engu, talar í besta falli eins og véfrétt ef hann snýr ekki út úr spurningum en heimtar málið í gegn. Ég leyfi mér að spyrja að því, herra forseti, fékk efh.- og viðskn. skýr svör þegar þessir viðmælendur hennar komu fyrir nefndina? Reyndar virðist það svo að að sumu leyti hafi yfirlýsingar þeirra verið gefnar eftir að þeir höfðu komið til fundar við efh.- og viðskn., því mér er nær að halda að formaður bankaráðs Íslandsbanka, Kristján Ragnarsson, hafi verið að úttala sig við fjölmiðla um þessa hluti eftir að hann hafði verið gestur í efh.- og viðskn. Mér er ekki kunnugt um að hann hafi gefið þar miklar upplýsingar. Það væri athyglisvert að fá það fram. Getur hv. formaður efh.- og viðskn., sem íþyngdi ekki Alþingi með langri ræðu í morgun, framsöguræðu fyrir málinu sem var nánast eins og venjulegt andsvar, fyrir þessu smámáli að mati hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Getur hann gefið okkur aðeins upplýsingar um hvað talsmenn þessara tveggja banka sögðu, sem úti í þjóðfélaginu kallast á um að sameina þá, á fundi efh.- og viðskn. um það mál? Finnst mönnum það virkilega eðlilegt að Alþingi rúlli þessu í gegn í algjörri óvissu um hvað er í farvatninu í þessum efnum?

Ástæða er til að gruna hæstv. viðskrh. um græsku. Það er ástæða til að spyrja að því: Eru stjórnarflokkarnir á bak við tjöldin að kokka eitthvað í þessum efnum eða liggur jafnvel eitthvað fyrir? Er jafnvel búið að ákveða það á æðstu stöðum? En eins og við vitum er það við Lækjartorg sem á að ákveðast hverjir mega kaupa banka og hverjir ekki. Þjóðin hefur nú aldeilis fengið að kynnast því. Það er ekki sama Jón og séra Jón þegar kemur að því að bjóða í banka. Nei, það skal ákveða á æðstu stöðum hverjir eru verðugir og hverjir mega kaupa og hverjir ekki. Hlýtur það þá ekki að vera eins með Landsbankann? Jú, ég skyldi nú halda það.

[16:00]

Er kannski búið að ákveða það, herra forseti? Ég sá að hæstv. viðskrh. spýttist úr salnum þegar ég fór að ræða þessa hluti. Er kannski búið að ákveða hvernig eigi að ráðstafa Landsbankanum, hverjir eigi að fá hann? Liggur hundurinn grafinn þar? Er það hin ástæðan fyrir því að þessi lifandis ósköp liggur á að hamast með þetta í gegnum þingið núna fyrir jólaleyfið? Og ekki bara það, heldur selja líka 15%. Því að auðvitað gætu þeir aðilar sem ætluðu sér síðan í krafti sameiningar Íslandsbanka og Landsbankans og verulegs eignarhluts í Íslandsbanka, auðvitað væri það í þeirra þágu að hleypa þeim að, veita þeim aðgang að dálítilli sneið að Landsbankanum, sem þeir ættu þá fyrir og legðu saman við sína eign í Íslandsbanka þegar þessu yrði slegið saman. Og líka það að með því að minnka eignarhluti ríkisins með þessum hætti, niður í kannski 70%, þá vigtar eignarhlutur ríkisins minna í sameinuðum banka og fer eins og blaðaúttektir hafa sýnt væntanlega talsvert niður fyrir 50%, ríkið verður orðinn minnihlutaeigandi í þeim banka og það er fyrirkomulag sem kynni að þjóna ráðandi öflum í hinum sameinaða banka mjög vel, að eiga ríkið sem eignaraðila á móti sér, en minnihlutaaðila þó. Þá mundi sterkur eignarhlutur, t.d. samtengdrar blokkar, á móti mjög dreifðri eignaraðild margra, almennings, og tiltölulega óvirkum eignarhlut ríkisins, kannski upp á 45%, vera fyrirkomulag sem nýttist slíkum aðilum mjög vel til að hafa sterka stöðu, jafnvel ráðandi stöðu, út á frekar lítinn eignarhlut í hinum sameinaða banka. Þetta er alþekkt formúla, hvernig menn í krafti talsverðrar minnihlutaeignar á móti dreifðri eignaraðild margra eða óvirkri eignaraðild einhverra, t.d. lífeyrissjóða eins og þetta er erlendis þar sem að þeir eiga oft í fyrirtækjum en afsala sér stjórnunarlegri ábyrgð og setja ekki menn í stjórn, að í gegnum slíka formúlu hafa menn oft náð undirtökunum og ráðandi stöðu, jafnvel þó að þeir eigi ekki nema 30, 33, 35 eða 40%. Og er nema von að maður sé tortrygginn? Er nema von að maður spyrji? Það er boðið upp á þessi áflog með þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstjórn ástundar. Það var aldeilis boðið upp í dans í sambandi við Fjárfestingarbankann og hrikti nú í þegar að einhverjir ætluðu að taka ríkisstjórnina á orðinu og fara að reyna að fljúgast á um ráðandi stöðu í bankanum. En það voru bara ekki réttir menn og allt varð vitlaust. En nú eru það sennilega réttir menn sem eru með Landsbankann í sigti og þess vegna er um að gera að drífa þetta í gegn og þá þarf ekki lög sem tryggja dreifða eignaraðild ef það eru réttir menn sem eiga.

Ég, herra forseti, verð að segja alveg eins og er að ég tortryggi aðstæðurnar í kringum þetta mál. Ég geri það. Ég tortryggi það fullkomlega í ljósi reynslunnar, í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur borið hér mál fyrir og líka í ljósi þess hvernig við sáum aðeins hornið í umræðunum um einkavæðingu Fjárfestingarbankans. Það er löngu vitað um áhuga ákveðinna aðila á að ná tangarhaldi á sérstaklega Landsbankanum. Og af hverju? Það er stærsti banki landsins, hann er með mjög ráðandi og sterka stöðu í viðskiptum við sjávarútveginn og í honum sameinast í raun valdaaðstaða og margir mjög veigamiklir þræðir í samfélagi okkar, efnahagslífi og atvinnulífi. Það eru engin ný sanningi, það er vitað. Þó að sá banki hafi á köflum búið við hremmingar og deilt kjörum með sjávarútveginum og stundum að mínu mati ranglega verið skammaður fyrir t.d. lélegan rekstur vegna þess ósköp einfaldlega að hann hefur deilt kjörum með sveiflugjarnri og áhættusamri atvinnugrein þar sem sjávarútvegurinn er, þá er hann mjög mikil og afgerandi stærð í þessu öllu saman.

Herra forseti. Það er líka annað sem ég óska eftir að menn hugleiði aðeins í þessum efnum. Ég vil spyrja hvort hæstv. viðskrh. sé illa haldinn af þeim óróleika sem upplýst varð um hér fyrr í morgun og hefur valdið því að hann hefur tollað illa í þingsalnum. Mér finnst alveg sjálfsagt mál að gera hlé á umræðunni og fresta henni þangað til hæstv. viðskrh. hefur náð betri heilsu þannig að hann geti verið hér nokkurn veginn að meðaltali um 50% í salnum. Ég vil ekki fyrir mitt leyti leggja þær hörmungar á hæstv. ráðherra að vera alltaf að hlaupa svona á milli, en ég alveg tilbúinn til þess, herra forseti, að gera hlé á máli mínu ef eftir því er óskað. Auk þess finnst mér, herra forseti, það væri nú ekki ofætlan að svo sem 20% af ríkisstjórninni væri við, eða tveir ráðherrar að meðaltali. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. núverandi forseti, sá er í stóli situr, er sammála forseta í morgun sem tók að sér það óvenjulega hlutskipti að afsaka fjarveru ráðherra og sagði að þingið þyrfti nú ekki mikið á ráðherrum að halda. Kannski hefur mönnum yfirsést að ráðherrar eru allir þingmenn í núv. ríkisstjórn. Og þó að þeir séu það ekki eiga þeir seturétt sem ráðherrar og hafa þingskyldum að gegna. Mér finnst þetta því heldur snautlegt, herra forseti, að hér skuli ekki vera betur skipað liðið hjá hæstv. ríkisstjórn, og mér fyndist t.d. engin goðgá að hæstv. forsrh. væri hér tilkallaður. Síðan hefur hæstv. landbrh. úttalað sig sérstaklega um bankamálin og er vísað þar til reynslu hans sem langvarandi formanns í bankaráði Búnaðarbankans, þannig að mér væri líka mikil þægð í því ef hæstv. landbrh. væri látinn vita að kærkomið væri að hann sæi sér fært að vera hérna við umræðurnar. Ég er því að hugsa um að gera það að formlegri ósk minni að hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. verði látnir vita af því að nærveru þeirra sé hér óskað og mun að sjálfsögðu sætta mig við það hver afdrif slíkrar beiðni verða, en mér finnst óskin sanngjörn.

Þá kem ég einmitt að Búnaðarbankanum og er það sérstakur skaði að hæstv. landbrh. skuli ekki vera hér, sérstakur -- ég vil nú ekki nota það ljóta orð varðhundur en sérstakur gæslumaður Búnaðarbankans í Stjórnarráðinu og hefur tekið það að sér óbeðinn.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun athuga hvaða ráðherrar eru í húsinu og gera ráðstafanir til þess að þeir fái að vita óskina.)

Já, herra forseti, en það er sem sagt hæstv. landbrh. sem hefur sérstaklega tekið að sér að standa vörð um Búnaðarbankann og ætti hæstv. landbrh. að vera heldur órólegur þessa dagana. Hann ætti að vera býsna órólegur þessa dagana. Hvað er í farvatninu ef plottið um sameiningu um Íslandsbanka og Landsbanka gengur eftir? Hvað er þá í farvatninu fyrir Búnaðarbankann? Gæti það verið, herra forseti, að það sem menn kynnu að vinna hugsanlega, þó að það sé auðvitað óskrifað blað, og telja sig mögulega geta hagnast á með sameiningu Landsbankans við Íslandsbanka og hugsanlega hækkuðu gengi á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, gæti það þá kannski tapast Búnaðarbankamegin? Er þá ekki alveg ljóst að í raun og veru eru menn að skilja Búnaðarbankann eftir í mjög umhugsunarverðri stöðu, svo ekki sé sagt alvarlegri?

Ef menn búa til einn algjörlega ráðandi risa í bankaheiminum í landinu, hver verður þá staða Búnaðarbankans hf. og hver verður staða sparisjóðanna? Og hvað geta þeir gert? Geta þeir sameinast? Það er ekki einfalt mál þó að hæstv. landbrh. hafi að mínu mati óþarflega mikið allt á hornum sér þegar hann ræðir um málefni sparisjóðanna í Degi í dag ef ég man rétt og hefur ræðumanni líklega láðst að hafa með sér ljósrit af þeirri ágætu blaðafrétt sem hefði verið handhægt að hafa hérna og einhver verður svo vinsamlegur að gauka að mér. En ég man það eftir morgunlesturinn að hæstv. landbrh. hafði allt á hornum sér í þessum efnum, sá öll tormerki á sameiningu Búnaðarbankans og sparisjóðanna og nefndi þar til sérstaklega eignarhaldið eða eignarhaldsfyrirkomulagið á sparisjóðunum. Mér þótti þar gæta nokkurs misskilnings, ég verð að leyfa mér að segja það, þó að hæstv. landbrh. eigi í hlut, gamalreyndur bankaráðsformaður, að mér fannst gæta misskilnings hvað varðar eignarhaldslega stöðu sparisjóðanna. Það er ekkert vandamál í mínum huga og hefur aldrei verið að sparisjóðirnir séu þær stofnanir í reynd að mestu leyti ígildi sjálfseignarstofnana undir heimastjórn sem þeir eru og hafa lengi verið. Jú, hér er ljósritið komið og þökk fyrir það, og hér kemur einmitt fram að Búnaðarbankann þarf að styrkja, segir hæstv. landbrh. Búnaðarbankann þarf að styrkja. Er það þá aðferðin að plægja akurinn fyrir sameiningu Landsbankans og Íslands, sem nú virðist vera í farvatninu og maður verður að fara að taka alvarlega að eitthvað sé á bak við, þegar ráðandi öfl og handgengnir trúnaðarmenn hæstv. viðskrh. eiga í hlut og úttala sig með þeim hætti sem Halldór Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans og fyrrum ráðuneytisstjóri í iðn.- og viðskrn., Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, og Kristján Ragnarsson, sjálfur formaður bankaráðs Íslandsbanka, hafa gert. Og þá spýtist fram á sjónarsviðið landbrh. og hefur áhyggjur af Búnaðarbankanum og segir að styrkja verði Búnaðarbankann. En ég held að aðferðin sé ekki þessi. Ég vara menn mjög alvarlega við því að þetta er ekki að mínu mati aðferðin til að hámarka eignarhlut ríkissjóðs í þessum bönkum samtals ef menn fara svona að ráði sínu. Ég held að miklu vænlegri kostur væri að skoða samlegðaráhrifin af að sameina ríkisviðskiptabankana og það hefði einn kost umfram hitt að sá aðili yrði þó ekki alveg jafn ráðandi risi á markaðnum því að nokkur stærðarmunur er á hvað Íslandsbanki er þó stærri en Búnaðarbankinn sem er samtals minnstur eininganna fjögurra Landsbankans, Íslandsbanka, sparisjóðanna og Búnaðarbankans, með rétt um 20% markaðshlutdeild á móti líklega einum 26% Íslandsbanka.

Já, herra forseti, það er nefnilega að mörgu að hyggja þegar kemur að því hvernig þessir hlutir þróast og hver niðurstaðan verður. Það sjá auðvitað allir heilvita menn að óskir alþingismanna um skýrari línur í þessum efnum og svör við þessum stóru spurningum eru fullkomlega réttmætar. Það er til vansa fyrir Alþingi að henda þessu máli frá sér og út í rauninni með fullkomna óvissu ríkjandi um það hvað um þessa hluti verður. Menn eru þá ekki að taka ábyrgð sína á þessu máli mjög alvarlega, segi ég, og ég a.m.k. frábið mér það að bera á því ábyrgð að svona sé gengið frá málunum. Það er ámælisvert, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki geta veitt skýr svör um hver stefnan er og það er ekki hægt að mínu mati fyrir Alþingi, sóma þess vegna, að rusla málunum frá sér eða láta hafa sig til þess eins og hér stendur til.

Herra forseti. Það er líka viðkvæmt þegar farið er að ræða þessar hrókeringar og hagræðingar allar, að auðvitað eru bankarnir mikilvægir vinnuveitendur og hjá þeim starfar fólk sem nú þegar hefur mátt færa talsverðar fórnir vegna sameiningar og niðurskurðar og hagræðingar, sem knúið hefur verið á um og má segja að hafi að ýmsu leyti verið óumflýjanlegt. Þá skiptir mjög miklu máli hvernig að slíku er farið. Það verður að segja t.d. Íslandsbanka til hróss og það hefur ræðumaður reynda áður gert, að ég hygg að segja megi að Íslandsbanki hafi sýnt af sér þó nokkurn metnað í þeim efnum að gera þær breytingar sem bankinn hefur gert og gengið í gegnum á undanförnum árum í kjölfar þess að hann varð til sem slíkur með sameiningu nokkurra banka, gera þær þannig að sem allra sársaukaminnst yrði fyrir starfsfólkið. Ég vil segja það. Er það mér þó kannski ekkert skyldara en öðrum mönnum að hrósa þeirri stofnun, þessum einkabanka, ég hef sjálfsagt oft skammað hann og ekki sérstaklega hælt einkaframtakinu í þeim efnum. En það má þó Íslandsbanki eiga, að ég hygg, að þar hafa menn reynt að standa þannig að breytingum að sem allra sársaukaminnst yrði fyrir starfsfólkið og þá fækkun sem þar hefur orðið á starfsmönnum á undanförnum árum og var auðvitað borðleggjandi og kannski meginröksemdin fyrir því að hagræðing væri fólgin í því að sameina Iðnaðarbankann, Útvegsbankann og Alþýðubankann með því að reyna að segja ekki upp fólki, heldur nota frekar þá aðferð að ráða ekki í stöður þegar þær losnuðu, með því að aðstoða fólk jafnvel á námskeið til að endurhæfa sig til annarra starfa o.s.frv. Það skiptir máli þegar við ræðum um þetta hvernig að því verður staðið. Eru menn tilbúnir til þess áður en þeir sleppa höndunum frekar af ríkisviðskiptabönkunum en orðið er, að setja á þá kvaðir og tryggja það fyrir fram að að öllum slíkum breytingum verði staðið á eins manneskjulegan hátt og nokkur kostur er.

[16:15]

Loforðið sem gefið var á sínum tíma um að ekki yrðu seld hlutabréf í ríkisviðskiptabönkunum fyrstu fjögur árin, það vita allir sem eitthvað vita að hin meginástæðan fyrir því að það var gefið voru samskiptin við starfsmenn bankanna. Annars vegar var um þá röksemd að ræða að gefa bönkunum tíma til að fóta sig og tryggja ákveðinn stöðugleika og róa menn niður gagnvart því að ekki yrði umtalsverð breyting á viðskiptalegri stöðu bankanna, þeir yrðu áfram í eigu ríkisins og ríkið mundi ekki henda þeim frá sér þannig að minni hætta en ella væri á því að röskun yrði á viðskiptatrausti og viðskiptaumhverfi bankanna. Hin meginástæðan var að verið var að reyna að leita eftir skárra samkomulagi við Samband ísl. bankamanna og starfsmannafélög bankanna um þessi mál, og hafði auðvitað sín áhrif.

Þess vegna tek ég það fram að þó að ég hafi gerst talsmaður þess, og það er ekkert nýtt, að menn skoðuðu sem fyrsta kost samlegðaráhrifin af sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, þá vil ég að sjálfsögðu halda til haga þeim fyrirvörum að það yrði að gera á þann hátt að sem allra best tækist til hvað varðar starfsmannahaldið. Ég held reyndar að til þess væru að mörgu leyti prýðilegar aðstæður að fara í slíka sameiningu nú og alveg sérstaklega góðar aðstæður væru til þess á höfuðborgarsvæðinu, þar sem líklega um helmingur af útibúafækkuninni eða jafnvel meira og drjúgur hluti af fækkun starfsmanna mundi væntanlega koma fram á einhverjum aðlögunartíma. Eins og ástandið er á vinnumarkaði hér og alveg sérstaklega í þeim greinum sem ætla má að þjálfað starfsfólk í bönkum væri gjaldgengt á ættu að vera nokkuð góðar aðstæður til þess að aðstoða fólk eftir atvikum við að fá vinnu við önnur störf og/eða beita þeirri aðferð að ekki yrði um uppsagnir að ræða heldur yrði ekki ráðið í stöður sem losnuðu.

Ég held líka, herra forseti, að menn verði að horfast alvarlega í augu við það að ef menn búa til þennan risa í bankaheiminum sem sameinaður Landsbanki og Íslandsbanki er, sem samkvæmt öllum skilgreiningum yrði flokkaður sem markaðsráðandi stofnun, markaðsráðandi fyrirtæki, sennilega einrátt fyrirtæki, þá býst ég við því, herra forseti, að samkvæmt breskum viðmiðunum yrði slíkur banki í rauninni kallaður einráður á markaði því hann væri svo yfirgnæfandi sterkur að hann réði í raun og veru þróuninni, hann réði viðskiptaumhverfinu. Hann væri ekki bara markaðsráðandi, hann væri á næsta stigi þar fyrir ofan, sem stundum er kallað að vera einráður á markaðnum og er næsta stig neðan við hreina einokun.

Eru menn þá tilbúnir til að gera einhverjar mótvægisaðgerðir og í hverju gætu þær þá falist? Þá er einmitt komið að hinu. Þarf þá ekki að stækka Búnaðarbankann og það hressilega í staðinn fyrir að selja af honum? Og reyna frekar að stórefla hann. Hann yrði þá þriðja einingin í þessu fyrir utan sparisjóðina sem lúta að nokkru öðrum lögmálum og vaxa með öðrum hætti, fyrst og fremst með því að þeir hafa verið vinsamlegar og þjónustumiðaðar stofnanir sem hafa laðað til sín viðskipti og vaxið af því ágæti, en ekki í formi hlutafjáraukninga eða slíkra hluta eins og kunnugt er. Þeir njóta að vísu hins að þeir eru í reynd sjálfseignarstofnanir og út úr þeim hverfur ekki sá arður sem þar myndast þannig að hann getur orðið til vaxtar og viðgangs stofnununum og það hefur reynst þeirra styrkur og ekki síst á þeim tímum sem vaxandi kröfur eru gerðar til þess að draga arð út úr hlutafjárvæddum bönkum. Ég held þess vegna að yrði af þessum veruleika þá mundi skipta miklu máli að Búnaðarbankinn eða hvernig til tækist með hann og sparisjóðirnir gætu þá eflst einnig. Vissulega má segja að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins sé kominn til sögunnar og hann skiptir máli á ákveðnum enda markaðarins hvað varðar þjónustu við stærri fyrirtæki og á afmörkuðum sviðum en hann er ekki innlánsstofnun og keppir ekki við bankana að því leyti.

Herra forseti. Þá vil ég aðeins koma að því að það er dálítið sérkennilegt hvernig tímarnir breytast og mennirnir með, að þær miklu áhyggjur sem ýmsir höfðu af sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka þegar hún var uppi á borðinu og til umræðu fyrir tveim, þrem árum síðan, virðast nú alveg gufaðar upp. Nú hefur það alveg gjörbreyst. Það er frægt og hefur þegar verið til vitnað að forsvarsmenn Íslandsbanka brugðust heldur öndverðir við þegar hugmyndir komu upp um að skoða sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans. Meginröksemdirnar voru þær að þetta yrði allt of stór banki. Það mundi bara eyðileggja samkeppnina á bankamarkaðnum ef slíkur risi yrði til. Þetta var að vísu á tímum þegar Íslandsbanki átti enn í nokkru basli og var að jafna sig og ná landi eftir sameininguna og einnig eftir talsverðar þrengingar sem gengu yfir í bankaheiminum með miklum afskriftum eins og kunnugt er. En þetta var grundvallarafstaða bankamannanna í einkabankanum á þeim tíma og margra fleiri. Ég hygg að ýmsir postular hafi þá verið leiddir fram og haft á sér ýmsa fyrirvara um að þetta gæti verið varhugavert samkeppninnar vegna, ýmsir spekingar og snillingar úr fjármálaheiminum og viðskiptaheiminum.

Hvar eru þeir nú? Hverju sætir sú undarlega þögn eða þessi merkilegu sinnaskipti á ekki lengri tíma? Að nú sé ekkert áhyggjuefni að búa til 65--70% markaðsráðandi eða einráðan risa í íslenska bankaheiminum. Er það erlend samkeppni sem hefur komið til síðan? Svarið er nei. Það er í raun og veru ekkert meiri eða merkilegri erlend samkeppni hér en var þá. Það má kannski segja að stærri fyrirtæki í landinu búi yfir meiri þekkingu og hreyfi sig frjálslegra um þennan markað, en samkeppnin er ekki í þeirri mynd að hér hafi komið upp starfsemi erlendra banka sem sé í beinni og milliliðalausri samkeppni við íslenska banka á heimamarkaði þeirra. Það er ekki svo. Og það er ekkert sérstakt sem bendir til þess að sú tíð sé endilega fram undan eða á allra næsta leiti.

Og af hverju? Af því ósköp einfaldlega að íslenski markaðurinn er svo lítill þegar út í hinn stóra heim er komið að það verkar ekkert sérstaklega spennandi að koma inn á hann til að reyna að keppa við þá sem fyrir eru. Það eina sem gæti verið áhugavert fyrir erlenda banka er að taka einn eða fleiri íslenska banka í nefið, fara þannig inn á markaðinn að kaupa sér strax ráðandi stöðu eða sterka stöðu. En það er ekki líklegt að mínu mati að erlendir bankar nenni að standa í því á næstu árum að leggja hér af stað frá núlli ósköp einfaldlega vegna þess að það svarar varla kostnaði. Markaðurinn er það lítill, á honum eru fyrir það rótgrónir og sterkir aðilar með slíkt útibúanet og markaðsstöðu að það liggur í hlutarins eðli að ekkert sérstaklega spennandi er að reyna að glíma við þann markað frá byrjun að byggja upp allt sem til þarf til að geta farið út í samkeppni. Það mundi kosta umtalsverða fjármuni og taka langan tíma held ég alveg augljóslega út frá öllum venjulegum aðstæðum þegar slíkar markaðsaðstæður eru metnar að fara inn í markaðinn með þeim hætti. Ef erlendir aðilar geta ekki keypt hér drjúgan hlut eða ráðandi hlut í einhverjum af þeim bönkum sem fyrir eru á markaði, þá á ég ekki von á því að þeirra sjái hér stað í miklum mæli á næstu árum. Þá er staðan í öllum aðalatriðum óbreytt, að við erum með þessa fjóra banka eða bankasamsteypur sem eru Landsbankinn, Íslandsbanki, Búnaðarbankinn og sparisjóðirnir og ekkert sérstakt sem bendir til þess að það breytist á allra næstu árum.

Og höldum nú áfram smástund, herra forseti, með þá hugsun að til verði þessi stóri banki, sameinaður Landsbanki og Íslandsbanki. Ríkið verður minnihlutaeigandi í bankanum frá byrjun á móti einhverri dreifðri eignaraðild almennings og út af fyrir sig alldreifðri eignaraðild sem fyrir er í Íslandsbanka, og síðan verða hinir eigendurnir og sterkustu eigendurnir verða þeir sem sterkasta stöðu hafa í Íslandsbanka í dag, og þar er ákveðin nokkuð samtengd blokk tiltölulega mjög ráðandi. Þessir aðilar gætu enn styrkt stöðu sína í gegnum kaup á eins miklu og þeir næðu til sín af þeim hluta Landsbankans sem er eða verður á markaði áður en til sameiningarinnar kemur og markaðshlutdeild bankans á bilinu 60--70%, eða 60% alla vega.

Hvað er þá að gerast, herra forseti? Jú, þá er það að gerast og gæti ágerst á næstu missirum og árum að langstærsti banki landsins sé kominn í umtalsverð eignaleg og jafnvel stjórnunarleg tengsl við nokkra af ráðandi aðilum í viðskiptum á öðrum sviðum. Það yrði þannig. Það er ljóst að stórir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja eða sjávarútvegsfyrirtæki, stórir aðilar í samgöngumálum og flutningum, stórir aðilar í tryggingum, olíuviðskiptum, sölumálum, sérstaklega með sjávarafurðir, væru þá orðnir stjórnunarlega og eignalega tengdir.

Og þyrfti þá ekki Samkeppnisstofnun eitthvað að iðja? Fyrir nokkrum árum kom út þykk skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslenskum fyrirtækjum. Mikið verk sem Samkeppnisstofnun vann í framhaldi af samkomulagi sem tókst um afgreiðslu samkeppnislaganna á sínum tíma og margfrægu ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum um að slík úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku efnahags- og atvinnulífi yrði gerð. Það var augljóst mál að inn í myndirnar og skipuritin, sem í þeirri skýrslu eru, mundi bætast einn aðili enn, banki. Og ekki bara hver sem er, ekki bara einhver smásjoppa, nei, langstærsti banki landsins væri þá að dragast inn í þetta samhengi. Er þá engin ástæða, herra forseti, til að hafa neinar áhyggjur af því að enn eitt fákeppnissamþjöppunarsviðið sé þarna að dragast upp og tengjast saman þar sem þessir fjölþættu hagsmunir í ýmsum greinum atvinnulífsins og stærsti banki landsins eru?

Ýmsum hefur þótt nóg um þau tengsl og þá þræði sem liggja t.d. inn í Landsbankann og tengingu sjávarútvegsins og fleiri greina við hann. En hann hefur þó verið ríkisbanki og laut þangað til fyrir skemmstu yfirstjórn þingkjörins bankaráðs. En ef hann sem einkavæddur banki væri kominn að drjúgum hluta í eigu sömu aðila og þarna ættu mesta hagsmuni undir, vakna þá hvergi neinar áhyggjur, hringja hvergi neinar bjöllur? Sjá menn enga ástæðu til að hafa áhyggjur?

Herra forseti. Ég vitnaði í hv. þm., hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrím Hermannsson. Hann taldi að fyrir því lægju óhrekjandi upplýsingar eða sannanir að sala ríkisbanka til einkaaðila hefði ekki gefist vel og væri ekki skynsamleg. Kannski hafa þar legið að baki þær skoðanir --- þó ég að sjálfsögðu ætli ekki að fara að gera þessum ágæta hv. fyrrv. þm. og hæstv. forsrh. upp slíkar skoðanir --- að einkaeinokun væri ekki mjög heppilegur kostur, það er a.m.k. mín skoðun. Ég held, herra forseti, að versta fyrirkomulag sem hægt er að hafa á í viðskiptum sé einkaeinokun.

[16:30]

Ég ætla að vitna í skemmtilega ræðu sem ég heyrði flutta á flugþingi fyrir nokkrum dögum af Íslendingi, sem að vísu hefur verið búsettur lengi erlendis. Þar var til umfjöllunar spurning eða álitamál í sambandi við einkavæðingu í flugþjónustu. Íslendingar þekkja af eigin raun og af býsna biturri reynslu hvað það er að búa við einkaeinokun. Því að það var nákvæmlega fyrirkomulagið sem var á verslun landsins um nokkur hundruð ára skeið. Að frátöldum stuttum tímabilum þegar Danakonungur yfirtók verslunina sjálfur og reyndist í öllum tilvikum til bóta og mun skárra við að búa heldur en hitt, þá var einokunarverslunin gamla einkaeinokun. Einkaaðilum var seldur í hendur einkarétturinn til þess að versla við eða eigum við að segja, herra forseti, okra á landsmönnum.

Og þetta er reynslan. Alls staðar þar sem menn hafa á byggðu bóli kynnst því að lenda með slíka mikilvæga hluti, þjónustu eða verslun, í hendurnar eða klærnar á einkaaðilum í einokunaraðstöðu þá hefur það gefist verst. Eðlilega og augljóslega, það liggur í hlutarins eðli. Það er hin sífellda glíma í viðskiptunum að einkaaðilar sem eru í rekstri hafa alltaf áhuga á því að styrkja stöðu sína, ná til sín stærri hluta af markaðnum, út á það gengur þetta. Að endingu ná þeir oft og iðulega eða á ákveðnum tímabilum markaðsráðandi eða jafnvel einokunaraðstöðu.

Gegn því setja menn síðan ýmsar skorður. Sett eru ákvæði um að menn megi ekki misbeita slíkri stöðu eða jafnvel að bannað sé að vera í henni, menn verði þá bara að minnka sinn hlut og ekki megi verja slíka stöðu. En það held ég, herra forseti, að mundi heyra til mikilla tíðinda ef menn byggju sér slíka stöðu nánast til sjálfviljugir. Ég segi að það mundi stappa nærri að það gerðist ef menn með þessum hætti eins og nú er til umræðu byggju til þennan geysilega sterka eða markaðsráðandi einráða risa í bankaheiminum og létu óátalið þá þróun ganga eftir sem gæti --- og ég tek fram gæti --- orðið niðurstaðan að það yrði til þess að auka enn á samþjöppun í fjármálalífi og efnahagslífi okkar og þykir þó flestum hún nóg fyrir.

Af þessum sökum, herra forseti, væri ástæða til að fara kannski aðeins lengra aftur í söguna og minna á að ekki hefur gefist Íslendingum vel --- og skal ég þó að vísu ekki fara alveg aftur í einokunarverslunina heldur aðeins lengra aftur í bankasöguna, þ.e. sögu Íslandsbanka gamla. Sú saga var nokkuð rifjuð upp hér þegar ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélög og þau mál voru til umfjöllunar á árinu 1997. Það urðu reyndar sérstaklega um það orðaskipti milli þáv. hv. þm. og reyndar núv. í öðru tilvikinu, þeirra Ólafs Þ. Þórðarsonar heitins og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þar sem sá síðarnefndi vændi hinn fyrri um að kunna ekki söguna og fara ekki rétt með. En það stóð ekki á vörnum hjá þáv. hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og kom hann í ræðustól skömmu síðar með bók Ólafs Björnssonar um sögu Íslandsbanka og vitnaði í hana. Býsna athyglisverðir hlutir voru þá rifjaðir upp og eiga kannski aftur svolítið erindi inn í þessa umræðu.

Hvernig voru aðstæðurnar í gamla Íslandsbanka? Þær voru þannig að hann var auðvitað mjög sterkur og nánast ráðandi banki a.m.k. á ákveðnum sviðum í efnahagslífi landsins því hann var yfirgnæfandi í stærð í öllum viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtækin á fyrstu áratugum aldarinnar. Hann deildi vissulega með þeim kjörum en hann var líka í miklu návígi við þau. Og hann var eignalega að ýmsu leyti, og alla vega hvað mikilvæga viðskiptahagsmuni varðaði, tengdur þessum sömu fyrirtækjum eða erlendum viðskiptaaðilum þeirra.

Og til hvers leiddi það þegar frá er litið? Ég ætla ekkert að fara að varpa rýrð á sögu þessarar stofnunar sem var mikilvæg á sínum tíma og gerði margt gott, átti m.a. þátt í því að fjármagna mikilvæga uppbyggingu í atvinnulífinu á fyrstu áratugum aldarinnar. En þetta návígi og hin miklu hagsmunatengsl í þessum banka urðu án efa eitt af því sem varð honum síðan að falli vegna þess að hann var orðinn svo tengdur hagsmunum stórra viðskiptavina sinna að hann riðaði til falls og féll með þeim þegar máttarstoðir eins og fyrirtæki Péturs J. Thorsteinssonar og Milljónafélagið rúlluðu. Þá gerði Íslandsbanki gamli það einnig.

Hver var nú lærdómurinn sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ætlaðist til og vonaðist til að menn drægju af því? Jú, lærdómurinn var einmitt sá að einkabankaformið væri engin trygging fyrir því að ekki gæti illa farið. Einkavæðing banka væri ekkert allsherjarlausnarorð og allra síst ef þær aðstæður væru uppi í viðskiptunum að sá banki væri yfirgnæfandi tengdur tilteknum viðskiptaaðilum sínum og væri kannski í of miklu návígi við þá til þess að geta þar staðið einn og óstuddur og metið hlutina sjálfstætt og varið sína hagsmuni án óeðlilegs þrýstings.

Það er umhugsunarefni fyrir menn á þeim tímum að þannig voru málin gerð upp þegar Íslandsbanki varð gjaldþrota að erlendum kröfuhöfum voru borgaðar upp sínar kröfur. En almenningur og viðskiptavinir bankans innan lands glötuðu nánast öllu sínu. Þannig glötuðu menn á ákveðnum svæðum og í ákveðnum byggðarlögum, þar sem Íslandsbankinn gamli var höfuðviðskiptastofnunin, nánast öllu sínu fé. Það hygg ég að hafi átt við t.d. um marga Vestfirðinga þar sem bankinn var mjög stór. En erlendu kröfuhafarnir fengu sitt. Og af hverju? Jú, af nokkuð augljósum ástæðum. Þrátt fyrir þrengingar kreppunnar og erfiðleika mátu menn það svo að það yrði dýrara hagsmunum þjóðarbúsins að taka á landið þann álitshnekki sem af því yrði að einn af höfuðbönkum og í raun og veru aðalbanki þjóðarinnar, fyrir utan þá Landsbankann, yrði gjaldþrota og að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar út á við, út fyrir landsteinana. Þess vegna voru þær kröfur borgaðar upp.

Ætli, herra forseti, það gæti ekki farið með svipuðum hætti jafnvel þó að um fína einkavædda banka yrði að ræða ef menn stæðu frammi fyrir því einhvern tíma í framtíðinni, sem við skulum auðvitað vona að verði ekki en við getum heldur ekki útilokað að gerist, að bankar lentu í erfiðleikum eða jafnvel riðuðu til falls að þá hlypu menn undir bagga? Jú, ætli það ekki? Og er það ekki reynslan frá Noregi, Svíþjóð, Kanada, Bandaríkjunum og víðar? Ójú.

Auðvitað er það þannig að eitthvert rekstrarform getur aldrei verið mönnum nein allsherjartrygging eða eitthvert patent í þeim efnum að slíkir hlutir gerist ekki. Það voru skilaboðin, það var boðskapurinn sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, með tilvitnun sinni í sögu Íslandsbankans gamla, ætlaði hygg ég að koma á framfæri, enda sagði hann, með leyfi forseta:

,,Það er nú einu sinni svo að eitthvert eitt rekstrarform getur ekki komið í veg fyrir erfiðleika og Íslandsbanki lenti í miklum töpum sem urðu vegna þess að stórfyrirtæki fór á höfuðið.``

Síðar sagði hv. þm. og vitnaði þá til bókar Ólafs Björnssonar:

,,Hún [þ.e. bókin] er nefnilega merkilegur fróðleikur um að jafnvel þó að hluthafar séu margir og eigi hlutafélagsbanka, þá getur það gerst að einum aðila sé lánað það mikið að því verði ekki hægt að bjarga og bankinn verði fyrir stóráföllum.``

Herra forseti. Það eru breyttir tímar og mikið breyttir tímar frá því að Íslandsbanki sálugi var á dögum. Ég veit að menn geta komið hér upp en þeir þurfa þess ekki því ég skal taka að mér að segja að nú eru komin lög og reglur sem tryggja miklu betur en þá áhættudreifingu sem tryggir að menn geti aldrei lagt of mikið undir með einum einstökum aðila o.s.frv. og það er auðvitað heilmikið til í því. Kannski er það svo að af þeim sökum sé miklu minni ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að svo illa geti farið að bankar verði beinlínis gjaldþrota og alla vega síður vegna þess að einhver einn eða fáeinir viðskiptaaðilar þeirra rúlli. En reynslan sýnir engu að síður og úr nýlegum dæmum bankakreppunnar á Norðurlöndum og víðar á Vesturlöndum í kringum lok síðasta áratugar og í byrjun þessa, að þrátt fyrir allar fínu BIS-reglurnar sem þá hétu og CAD-reglurnar núna, þá geta bankar lent í mikum erfiðleikum. Þeir standa í miklu návígi við þau fyrirtæki og viðskiptavini sem þeir eru að þjónusta og bæði erfiðleikar í fjárhag almennings og atvinnurekstri geta skapað bönkum mikla erfiðleika og það jafnvel svo að þeir ráði ekki við þá sjálfir og einir og óstuddir og þá hefur niðurstaðan yfirleitt orðið sú að ríkisvaldið hefur hlaupið undir bagga.

Stundum eru það reyndar aðrir aðilar sem óbeðnir nánast taka að sér að koma til hjálpar, mér er kunnugt um það. Meðal annars hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal uppfrætt mig um það að í Þýskalandi hafi það gerst að aðrir bankar hafi komið til bjargar til þess að ekki færi illa hjá samkeppnisaðilum. Vegna þess að þrátt fyrir allt áttu þeir allir mikilvægra heildarhagsmuna að gæta í því að bankaheimurinn sem slíkur yrði ekki fyrir álitshnekki, að almenningur tapaði ekki sínu fé, og betra væri fyrir þá að safna liði og koma bágstöddum bönkum til bjargar en fá þá umræðu upp í þjóðfélaginu að svoleiðis gæti gerst.

Auðvitað verður svo áfram, herra forseti, og enn frekar hér á landi, að menn munu hlaupa undir pilsfaldinn ef illa fer, ég er alveg sannfærður um það.

Herra forseti. Aðeins í sambandi við afgreiðslu þessa máls og framkomu hæstv. ríkisstjórnar eða aðkomu hennar að málinu. Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér núna, bæði í tengslum við þetta þingmál og þessi bankamál og reyndar fleiri mál sem hér hafa verið til umfjöllunar hvernig mynd sé smátt og smátt að dragast upp af svona stjórnunarháttum á Íslandi og því hvernig menn fara með vald sitt. Það sem hefur ýtt mér af stað út í slíkar hugleiðingar er ósköp einfaldlega samtöl við fólk, símtöl og samtöl við fólk sem í mann hefur hringt eða maður hefur hitt á förnum vegi, úti á götu, í búðum eða í strætó, í leigubílum eða hvar sem það nú er. Ég þykist merkja það að almenningur skynji stöðu sína gagnvart sérstaklega framkvæmdarvaldinu um þessar mundir þannig að það sé ekkert með hann gert. Almenningur sé góður til þess að hóa í á fjögurra ára fresti og láta kjósa en svo sé ekki ástæða til að hlusta mikið á það sem þaðan kemur.

Þessi tilfinning er ákaflega sterk í sambandi við virkjanamálin og það sem þar er að gerast, þar sem nokkuð ljóst er að ríkisstjórnin þjösnast áfram í andstöðu við vilja meiri hluta almennings. En ég hef einnig orðið var við það nú á síðustu sólarhringum að almenningur upplifir framgöngu ríkisstjórnarinnar hvað einkavæðinguna varðar með svipuðum hætti. Því það er nefnilega þannig að fólk lítur svo á að það eigi þessar eignir og því er ekki sama og því finnst ekki að það sé sjálfgefið að ríkisstjórnin eða einn maður, eins og hæstv. viðskrh., geti að geðþótta ráðskast með þessa hluti. Ég var spurður í gær: Hvaða möguleika hafið þið alþingismenn til þess að stoppa það að viðskrh. láti eins og honum komi þetta einum við? Ég sagði að því miður væru þeir kannski takmarkaðir vegna þess að ríkisstjórnin ástundar þá stjórnunarhætti að ákveða hlutina einhliða, oft í skyndingu, úti í bæ og senda síðan tilkynningar til Alþingis um að fullnusta sinn vilja strax, umbúðalaust og möglunarlaust eftir duttlungunum eins og þeir eru hverju sinni.

[16:45]

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að hafa af þessu áhyggjur, að íbúar landsins upplifi sig mjög fjarlæga valdinu. Þeir upplifa það svo, alveg sérstaklega um þessar mundir, að í raun skipti sjónarmið þeirra engu máli því á þau sé ekkert hlustað. Framgangan er öll á þann veg. Það er ráðskast með hlutina af ákveðnum hroka sem einkennir framgöngu hæstv. ríkisstjórnar og samskiptin við aðra í þjóðfélaginu, þingið, almannasamtök, áhugamannafélög o.s.frv.

Mér finnst, herra forseti, þetta bankamál því miður vera lýsandi fyrir þessa sambúð eins og hún er á vegi stödd. Afleiðingarnar, hverjar verða þær? Vaxandi kæruleysi almennings, vaxandi firrð, minnkandi kosningaþátttaka og ræðurnar fluttar sem aldrei fyrr um að þátttaka almennings sé tilgangslaus, skipti engu máli og hafi engin áhrif, ekkert sé á menn hlustað og þeir nenni ekki á kjörstað. Þessu valda m.a. stjórnunarhættir af þessu tagi, valdhroki af þessu tagi og sú lítilsvirðing við þingræðið sem birtist í því að meðhöndla þingið eins og stimpilstofnun. Slíkt þróar og ýtir undir þessa tilfinningu fólks. Menn súpa af því seyðið í formi þess að lýðræðið veikist, áhugi almennings dofnar og kosningaþátttakan minnkar. Við sjáum þessa þróun því miður, herra forseti, að nokkru leyti hér.

Enn er að vísu langt í land með að kosningaþátttakan fari t.d. niður undir helming, niður fyrir helming eða niður í hörmungina í Evrópusambandsríkjunum þegar þar er kosið til Evrópuþingsins. Þar nennir kannski fjórðungur á kjörstað, þrátt fyrir massífan áróður og stórkostlega fjárútlát til að draga menn á staðinn og fá þá til að kjósa. En þróunin er niður á við. Ég veit ekki hvort menn hafa t.d. skoðað að það virðist afgerandi tilhneiging til þess að kosningaþátttakan minnki hraðar á höfuðborgarsvæðinu en í landsbyggðarkjördæmunum. Það er væntanlega vegna þess að hér er fjarlægðin, firring manna meiri á einhvern hátt. Mönnum finnst þeir kannski fjarlægari valdinu og stjórnvöldunum en fólki í landsbyggðarkjördæmunum. Þar er þátttakan meiri kannski vegna fámennisins og meira návígis við hina kjörnu fulltrúa.

Mér finnst, herra forseti, tilefni til að koma einnig með þessar hugleiðingar þar sem ég hef orðið var við og hef fengið nokkur dæmi um það á síðustu sólarhringum að mönnum finnast m.a. þessi bankamál og meðferð ríkisstjórnarinnar á þeim vera hluti af þessu. Glöggur maður minnti mig á að í raun hefði hinn ágæti skopmyndateiknari Morgunblaðsins, Sigmund, eins og venjulega hitt naglann á höfuðið og afgreitt þetta mál í skopteikningu fyrir nokkrum árum síðan. Það var þegar menn voru fyrst með hugmyndir um að háeffa og selja ríkisbankana. Þá teiknaði Sigmund karl og kerlingu sem stóðu fyrir dyrum úti og kallinn hló glaðbeittur og sagði: ,,Ja, allur fjandinn dettur þeim nú í hug. Nú ætla þeir að fara að selja okkur okkar eigin banka.`` Þetta var þegar fyrstu hugmyndirnar komu upp um að selja almenningi bankann sinn, Landsbankann. Þetta þótti karli skondið og teiknaranum sem talaði gegnum hann. Auðvitað er það brandari í sjálfu sér að menn þykist hafa fundið upp hjólið og gylla það fyrir almenningi að kaupa banka af sjálfum sér. Hvaða speki er það? Munurinn er auðvitað sá að það eru ekki nema sumir sem kaupa.

Það er athyglisvert, herra forseti, að í þessum umræðum núna færa menn m.a. tímanauðina fram sem rök. Alltaf byggir framganga ríkisstjórnarinnar á því að búa fyrst til tímanauð. Það var gert í Eyjabakkamálinu og því logið upp á Norsk Hydro að þeir vildu ekki bíða eftir umhverfismati. Það var síðan afhjúpað. Nú er tímanauð, mikil tímapressa, búið að útbúa mikla tímapressu. Annars vegar er hún vegna skattfrádráttarins um áramótin og hins vegar vegna Verðbréfaþingsins sem hefur stillt Alþingi upp við vegg, algjörlega upp við vegg. Það verður bara að afgreiða þetta helst í gær, það er svo rosaleg tímapressa í málinu, segir hæstv. iðnrh. Hún er heimatilbúin, hún er algjörlega heimtilbúin, þessi tímanauð.

Mér finnst, herra forseti, ekki hægt að skilja við þann hluta málsins sem gengur út á að það sé svo mikið þjóðþrifamál að drífa þetta hér í gegn vegna þess að almenningur þurfi að geta keypt bankann fyrir áramótin og skálað í kampavíni á gamlársdag, síðasta gamlársdeginum á öldinni segja sumir, fyrir nýju hlutabréfunum sínum í bönkunum. (Gripið fram í: Næstsíðasta.) Eða næstsíðasta, segir hv. þm. Ég heyri strax að hér eru skiptar skoðanir. Það er kannski ekki rétt að fara lengra út í það mál. En aldamótin eru öðru hvorum megin við næsta ár, herra forseti, það er alveg á hreinu. (Gripið fram í). Þau eru annaðhvort við upphaf þess eða endi.

Staðreyndin er auðvitað sú að það eru ekki nema sumir sem nýta sér þennan skattfrádrátt. Það eru ekki endilega þeir sem þurfa mest á honum að halda. Þeir sem nýta sér hann hlutfallslega langmest eru þeir sem minnsta þörf hafa fyrir að ríkið gefi þeim svolítið í viðbót um áramótin, hátekjufólkið. Þeir sem eru með tekjur um eða undir skattleysismörkum fá ekkert í skóinn, enga pakka frá ríkisstjórninni, ekki nokkurn skapaðan hlut. Fjölmargir aðrir eru vegna persónulegrar fjárhagsstöðu ekki í færum til að kaupa, jafnvel þó þeir borgi einhvern skatt. Það er blekking að stilla dæminu þannig upp að allir standi jafnt að vígi gagnvart þessu. Það er ekki svo.

Þá væri gáfulegra, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur haft uppi bæði í þessu samhengi og öðru, að senda frekar öllum landsmönnum sín hlutabréf, sinn hlut og leyfa þeim að ráðstafa. Þá fengju þó allir jafnan hlut af eign sinni í þessum banka. Þá væru menn ekki að kaupa bankann af sjálfum sér eins og kallinn í skopmyndinni hjá Sigmund. Þá fengju menn bara sinn hlut sendan heim. Þetta er ekki þannig ráðstöfun.

Þetta er ráðstöfun sem hátekjufólk sem borgar tekjuskatt og er í færum til að kaupa hlutabréf nýtir sér. Sala á hlutabréfum í þessum banka gagnast ekki nema hluta samfélagsþegnanna. Ég gef því ekki mjög mikið fyrir, herra forseti, að af þeim ástæðum sé sérstök tímanauð í þessu máli. Auk þess er mér ekki kunnugt um að neinn sérstakur hörgull sé á hlutabréfum.

Ég var að velta því fyrir mér, herra forseti, hvort hægt væri að koma með leslampa inn í salinn og færa hæstv. viðskrh. svo honum gangi betur við lesturinn. Ég sé það að hann hefur snúið sér við til þess að birtan falli betur á blaðið sem hann er að lesa. Ég veit nú ekki hvort þetta er Samúel eða hvað það er sem hæstv. ráðherra er að lesa en mér er annt um sjón hæstv. ráðherra og það er slæmt að hann sé að lesa í lélegu ljósi. Ég beini því í allri vinsemd til forseta að hann hugi að því að færa ráðherrum leslampa þegar þeim er farin að daprast sýn síðdegis og birtan í salnum er fulllítil. (Gripið fram í: Sérstaklega orkumálaráðherra.) Og er það náttúrlega einstaklega neyðarlegt að hæstv. orkumálaráðherra skuli þurfi að lesa nánast við kertatírur og rýna í plöggin sem hann er með á hnjánum. (Gripið fram í: Enn ein rökin fyrir virkjun.) Já, það eru mörg rökin fyrir virkjunum og væri allt í góðu lagi með að virkja til að fullnægja öllum þörfum landsmanna, væri það gert á skynsamlegan, umhverfisvænan hátt. Ræðumaður er eindreginn talsmaður þess.

Auðvitað er til skammar, úr því að menn vilja fara að ræða hér virkjunarmál, að Landsvirkjun skuli standa þannig að málum að stórfelldur skortur er á orku í landinu og verður þennan veturinn. Þau iðnfyrirtæki sem fyrir eru í landinu fá því ekki nóg rafmagn. Ætli það séu ekki um 10% af afkastagetu álversins í Straumsvík sem eru nú ónýtt vegna þess að Landsvirkjun getur ekki skaffað þeim rafmagn. Svo upptekin er hún af því að virkja fyrir ókominn atvinnurekstur að hún sinnir ekki þeim sem fyrir er í landinu, hrekur innlenda notendur yfir í olíu og allt það.

Herra forseti. Ég gerði að umtalsefni hugleiðingar um hina almennu stjórnunarhætti hæstv. ríkisstjórnar. Í raun er þá eitt eftir af þeim atriðum sem ég ætlaði að fjalla um í ræðu minni, sem kann að verða fyrri ræða mín í þessari umræðu. Það er í raun grundvallarspurningin, þ.e. afstaðan til spurningarinnar um dreift eignarhald fjármálastofnana. Það er enn af hinu sérkennilega við málið að fyrir þinginu í hv. efh.- og viðskn. liggur fyrir frv. flutt af mér og hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að, að svo miklu leyti sem mikilvægar fjármálastofnanir eru á markaði og hlutir þar ganga kaupum og sölum, það skuli gert innan ramma ákveðinnar almennrar lagasetningar sem tryggi dreifingu á þeim eignarhlutum þannig að hætturnar séu alla vega minni en ella á því að einhverjir fáir eða einn aðili nái þar ráðandi undirtökum. Í raun þarf ekki að rökstyðja nauðsyn þess, það hefur oft og iðulega verið gert.

Við 1. umr. þessa frv. tók hæstv. forsrh. til máls og lýsti sig býsna jákvæðan í garð þess að þetta frv. fengi vandaða skoðun og eftir atvikum afgreiðslu ef svo bæri undir. Hæstv. forsrh. hvatti til að efh.- og viðskn. skoðaði málið mjög vandlega. Nú hefur hv. efh.- og viðskn. haft til þess nokkurn tíma, herra forseti, líklega einar fjórar til sex vikur. Mér er nær að halda að umsagnir hafi þegar borist um þetta þingmál. Þar af leiðandi ætti efh.- og viðskn. ekki að vera að vanbúnaði að afgreiða það.

Við þær aðstæður kemur þessi sending utan úr bæ með skilaboðum um að hún skuli afgreidd með hraði. Því miður virðist meiri hluti nefndarinnar ekki hafa orkað eða haft kjark til að ljúka umfjöllun sinni um hitt málið þannig að við þingmenn gætum fengið að sjá hér í formi nál. hvernig línurnar liggja hvað það varðar að setja slík ákvæði í lög. Hafi verið ástæða til að flytja það frv. í haust, í ljósi umræðna sem þá voru uppi um bankamál og dreifingu á eignarhaldi, þá eru þær náttúrlega enn ærnari nú. Nú á að fara að selja talsverðan hluta af ríkisviðskiptabönkunum sjálfum. Á allra næstu missirum eða aldrei verða menn að taka afstöðu til þess hvort þeir vilji setja slíkar reglur í lög.

Það er harla sérkennilegt, herra forseti, að efh.- og viðskn. eða meiri hluti hennar, eftir að hafa fengið tilmæli um það frá hæstv. forsrh. og að sjálfsögðu er slíkt einnig vilji okkar flm., skuli hér ekki gera einhverja grein hér stöðu þess máls. Samhengið er augljóst hverjum manni. Það skiptir máli í sambandi við afgreiðslu þessarar heimildar til ríkisstjórnarinnar til að selja 15% af hlutafé í Búnaðarbanka og Landsbanka hver afdrif umrædds frv. verða.

Hér er mikið vitnað í Morgunblaðið sem ætla mætti að væri orðið eini fjölmiðillinn í landinu því það er endalaust verið í vitna í það og leiðara þess. Það er náttúrlega af því að Morgunblaðið kemur víða við og lætur sig ýmislegt varða og skrifar um ýmis þjóðþrifamál í leiðurum sínum. (Gripið fram í: Og hefur komið lengi út.) Já, hefur komið lengi út og er hinn merkasti pappír að ýmsu leyti. Ræðumaður er iðulega ósammála því sem þar kemur fram en hitt er út af fyrir sig staðreynd að þetta er áhrifamikill fjölmiðill sem setur sjónarmið sín oftast málefnalega fram. Maður getur þar af leiðandi eftir atvikum tekið undir þau, verið ósammála þeim eða rökrætt þau.

[17:00]

Morgunblaðið gekk í lið með okkur flm. þessa frv. fyrir nokkru og benti á það í leiðara að það væri alveg augljóst, ég man svo sem ekki hvort nákvæmlega það orð var notað, en það var a.m.k. nokkuð sterkt orð, að að sjálfsögðu ætti að fá niðurstöðu í það mál, stjórnarflokkarnir yrðu að útkljá það sín í milli og Alþingi yrði að fá niðurstöðu um það hvort menn ætli að setja í lög ákvæði sem tryggja dreift eignarhald í fjármálasstofnunum. Tíminn til þess væri núna og það ætti að fást niðurstaða í það áður en menn færu af stað með sölu á eignarhlut í ríkisviðskiptabönkunum. Þetta sagði Morgunblaðið.

Hvað segir þá hv. formaður efh.- og viðskn.? Hvar er skilagreinin um frv. sem liggur inni í nefndinni um lagabreytingar til að tryggja dreift eignarhald? Hefur hv. þingmanni og mönnum hans í efh.- og viðskn. ekki unnist sem skyldi í því máli þrátt fyrir hvatningar til þess af hálfu forsrh., leiðarahöfunda Morgunblaðsins, flutningsmanna málsins að sjálfsögðu og fleiri, að það þurfi endilega að fást niðurstaða í það mál áður en menn taka hinar endanlegu ákvarðanir um t.d. sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum svo ekki sé nú talað um t.d. stærri æfingar eins og þær að hefja stórfellda bankasameiningu.

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., komist ekki undan því að gera okkur hér grein fyrir stöðu málsins og hvenær hann hyggur að nefndin geti afgreitt frá sér frumvarpið þannig að við vitum hvar við stöndum í þeim efnum. Auðvitað hefði það átt að liggja fyrir nú, þó ekki væri nema í formi nál., hvernig aðstæður væru og vindar blésu í nefndinni um þetta mál. (VE: Við spáum í þetta eftir jólin.) (Gripið fram í: Er forsrh. ekki ...)

Nú veit ég ekki um nýjustu hugrenningar hæstv. forsrh. í þessum efnum. (Gripið fram í.) Spurning er náttúrlega sú hvort það eigi hér við að mestu máli skipti hver kaupi og að þörfin fyrir slíka löggjöf sé mismunandi eftir því hvernig vindarnir blása á markaðnum og hver á hverju sinni. Ekki vil ég nú gera því skóna. (Gripið fram í.) Ég sakna þess hins vegar að nefndin skuli ekki hafa unnið þetta mál vegna þess að það var augljóst að allar aðstæður sem uppi voru kölluðu á að menn ynnu að þessu nokkuð röggsamlega. Ég sætti mig nú svona heldur illa við það að nefndin hafi ekki haft tíma til þess á undanförnum fjórum, sex vikum að drífa þetta mál frá úr því hún er svo afburða vösk að hún getur afgreitt smámál eins og sölu á drjúgum eignarhlut í ríkisviðskiptabönkunum á tveim sólarhringum. Þegar maður veltir fyrir sér hlutföllum í þessu tímalega séð þá leita á mann áleitnar spurningar. Njóta málin ekki jafnræðis þarna inni? (VE: Það er eðlilegt að þú spyrjir þig að því.) Já, það er eðlileg spurning. Ég sé að formaðurinn viðurkennir það. Það er eðlilegt.

En látum það nú liggja á milli hluta hver flytur og hver hefur sagt hvað. Horfum heldur á efni málsins og veltum því fyrir okkur hvort nokkur geti borið á móti því að æskilegt væri að hafa fengið botn í þetta mál áður en hafin verður stórfelld sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum eða teknar ákvarðanir um stórfellda sameiningu banka og það útkljáð hvernig það umhverfi verði á næstu árum sem markaðurinn og aðrir aðilar eiga að ganga út frá hvað varðar m.a. lagasetningu af því tagi. Ég veit að það hvarflar ekki að jafnmiklum markaðssinna og hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að reyna að andæfa því eða andmæla að ekki sé æskilegt að slíkir hlutir liggi fyrir. (LB: Er ræðumaður talsmaður þessa ...?) Já, ræðumaður getur verið það ef það er skynsamlega gert og út úr því kemur heilbrigt og gott umhverfi á þessu sviði viðskipta í landinu. Ég hef ítrekað lýst þeim sjónarmiðum mínum, sem eru ekki ný, að æskilegt hefði verið og væri að skoða sem fyrsta kost í þessum efnum kosti og galla við sameiningu ríkisviðskiptabankanna í einn banka. Ég hef þó þá fyrirvara gagnvart því að bæði þarf það að takast vel hvað starfsfólk snertir og það þarf líka að huga að samkeppnisumhverfinu í bankaheiminum því að vissulega yrði slíkur banki stór og fyrirferðarmikill á markaðnum þó hann yrði ekki eins risavaxinn og sameinaður Landsbanki og Íslandsbanki.

Herra forseti. Ég held ég láti þessa stuttu ræðu duga að sinni. Það er margt fleira sem ég hefði haft áhuga á að koma hér inn á því að málið er víðfeðmt og að mjög mörgu að hyggja í þessum efnum. Ég treysti því að menn taki sér a.m.k. þann tíma mældan í sólarhringum sem nauðsynlegur er til þess að fara rækilega yfir málið eftir því sem kostur er. Ég tel í raun sjálfgefið og óumflýjanlegt að efh.- og viðskn. taki málið aftur til sín milli 2. og 3. umr. og fari þar yfir m.a. þær nýju aðstæður sem hafa verið að koma upp í málinu og yfirlýsingar áhrifamikilla aðila eins og formanns bankaráðs Íslandsbanka, sem ég hygg að hafi komið fram eftir að nefndin fjallaði um málið. Hún fékk þann ágæta mann til sín sem gest. Fleira hefur síðan bæst við. Ég minni á viðtal við hæstv. landbrh. sem dregur stöðu Búnaðarbankans sérstaklega fram inn í þetta samhengi og fleira kemur til sem mér sýnist einboðið að geri það að verkum að efh.- og viðskn. þurfi að fjalla um málið milli umræðna.

Ég óska eftir því að á þeim fundi eða fundum sem nefndin heldur þá verði farið yfir það á nýjan leik hvort kostur er á því að afgreiða frv. okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar um dreifða eignaraðild eða a.m.k. að formaður nefndarinnar geti sagt okkur einhverjar fréttir af því hvað líði afgreiðslu á því máli. Það væri með öllu ólíðandi ef það mál ætti ofan í þessa atburði að svæfa í nefnd. Ég trúi ekki öðru en að með einum eða öðrum hætti fái þingið að taka afstöðu til þess máls áður en langt um líður í öllu falli. Sama gildir um þáltill. hv. þm. Frjálslynda flokksins, Guðjóns A. Kristjánssonar og Gunnars Inga Gunnarssonar. Sú tillaga felur í sér efnisatriði sem eðlilegt væri að Alþingi tæki afstöðu til áður en það sleppir frá sér heimildinni til þess að selja eignarhlutinn í bönkunum. Í raun ætti það mál því að taka fyrir, ræða og útkljá t.d. á milli 2. og 3. umræðu um þetta frv. þannig að þingið geti útkljáð slík grundvallarspursmál í umhverfi þessara mála áður en ríkisstjórnin fær heimild til sölunnar, því að yfirlýstur vilji ríkisstjórnarinnar er að selja þetta með góðu eða illu fyrir áramót. Það er sami gamli útsöluhugsunarhátturinn, þetta skal drifið út hvað sem tautar og raular og þess þá meiri ástæða er til þess, herra forseti, að fara rækilega yfir allar forsendur í málinu.