Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 17:07:43 (2623)

1999-12-09 17:07:43# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. hlý orð í minn garð í upphafi ræðu sinnar. Þau lýstu miklum drengskap frá honum í minn garð. Ég átti nú reyndar ekki von á öðru frá honum.

Það sem fékk mig til þess að standa hér upp og spyrja hv. þm. að var það sem hann gerði að umfjöllunarefni síðast í ræðu sinni. Mér skilst að málið snúist um það núna að selja 15% af hlut ríkissjóðs í bönkunum. Hann ræddi hins vegar um að þörf væri á því að ræða í nefndinni ýmis atriði sem tengdust væntanlegri sameiningu banka, væntanlegri sölu á því sem eftir væri og atriðum sem tengdust síðan dreifðri eignaraðild og þáltill. hinna ágætu hv. þm. Frjálslynda flokksins. Ég er að velta því fyrir mér hvort hann telji að með því að efh.- og viðskn. hittist milli 2. og 3. umræðu og taki þetta mál sérstaklega til skoðunar, þá þurfi ekkert að ræða það sérstaklega meira ef nýtt þingmál kæmi fram frá ríkisstjórninni um að selja meira en það sem er hér í boði.