Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 17:09:24 (2624)

1999-12-09 17:09:24# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú brá svo við að ég skildi ekki alveg hvert hv. þm. var að fara. Hann er þó skýr og setur hluti sína yfirleitt þannig fram að það er auðvelt.

Ég er þeirrar skoðunar, já, að það sé alveg nauðsynlegt að sem allra skýrastar línur liggi fyrir hvað varðar framtíðarmarkmið stjórnvalda sem fara með þessa eign þjóðarinnar í bönkunum og hverjar hugmyndir manna eru um þá uppstokkun á bankamarkaðnum. Og það er ekki bara vegna þess að okkur alþingismönnum þurfi að vera slíkt ljóst og að við eigum heimtingu á því að ganga út frá eins skýrum aðstæðum í þessum efnum og kostur er, það er líka nauðsynlegt gagnvart markaðnum og gagnvart þeim sem eru að hugleiða kaup í þessum bönkum er það auðvitað nauðsynlegt að geta sagt mönnum eins mikið og hægt er um hvað fram undan er.

Véfréttarleg svör af því tagi að menn ætli að hlusta á skilaboð markaðarins þegar vísbendingar eru uppi um að í gangi séu tilteknir hlutir, nægja náttúrlega ekki. Það er eftir slíkri stefnumörkun sem ég lýsi og ég bind nokkrar vonir við að efh.- og viðskn. geti verið tæki til þess að draga slíka hluti nokkuð skýrar fram. Alþingi getur auðvitað líka gripið í taumana og markað þessum málum farveg ef það svo kýs. Að nafninu til a.m.k. hefur Alþingi það vald að ganga þannig frá heimildum, skilyrða þær eða ekki veita þær, að valdið liggi áfram hér.

En það, herra forseti, mun ekki þýða að ég afsali mér fyrir fram réttinum til þess að ræða einhver framtíðarskref sem ríkisstjórninni kunni að detta í hug í þessum efnum þó að efh.- og viðskn. mundi vinna sitt starf vel og draga einhverjar nýjar upplýsingar að landi.