Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 17:11:34 (2625)

1999-12-09 17:11:34# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom kannski ekki nægilega skýrt fram hjá mér hér áðan að ég var að velta því fyrir mér að ef á að selja meira en það sem hér er til umræðu þá hlyti það að þurfa að koma fram í nýju þingmáli og þá hlytu að fara fram nýjar umræður um það mál. Ég hefði talið að sú stefnumörkun sem hv. þm. var að ræða um ætti að koma fram við slíkt þingmál. Það sem er hér á ferðinni er fyrst og fremst hluti af þeirri ákvörðun að ríkissjóður fari með allt niður í 65% hlut í bankanum, en að einkaaðilar geti farið með allt að 35%. Það sem hér er á ferðinni væri í rauninni þess vegna ekki endilega nýtt mál.

Það sem ég var að velta fyrir mér í tilefni af orðum hv. þm. var hvort við gætum í rauninni í umfjöllun um þetta mál tæmt umræðuna um hið væntanlega þingmál um að selja helst allan hlut ríkissjóðs í þessum bönkum sem ég, eins og hv. þm. sjálfsagt veit, mundi gjarnan vilja fá inn í þingið á morgun. En ég tel að hv. þm. mundi nú tæplega vilja afsala sér umræðufrelsi með einhverju heiðursmannasamkomulagi þegar það þingmál kæmi fram, um að selja allan hlut ríkissjóðs í bönkunum, þ.e. umræða verður um heildarstefnumörkunina varðandi sameiningar- og samkeppnisþáttinn og dreifða eignaraðild og það hver eigi að sameinast hverjum.