Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 17:16:36 (2627)

1999-12-09 17:16:36# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið nokkuð fróðleg umræða á að hlýða eins og reyndar umræðurnar sem hafa verið í efh.- og viðskn. á undanförnum dögum um það stóra mál sem verið er að ræða, sölu á 15% hlutafé í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

Það sem hefur kannski komið hvað mest á óvart og þó ekki er að töluvert af þeim rökum sem lögð eru fram í frv., þ.e. í þeim athugasemdum við lagafrv. sem birtast í frv., hafa verið að engu gerðar í umfjöllun þeirra sem komið hafa á fund nefndarinnar. Þar vil ég fyrst nefna að í athugasemdum við lagafrv. segir í fyrsta lagi, með leyfi forseti:

,,Hagstætt árferði á hlutabréfamarkaði gerir það að verkum að ástæða er til að tryggja framangreinda dreifingu hlutafjárins nú þegar. Með dreifðri sölu til almennings í hlutafélagabönkunum tveimur er hvatt til aukins sparnaðar heimilanna, hlutabréfamarkaður efldur og verðmyndun hlutabréfa í bönkunum treyst.``

Miðað við þau álit sem efh.- og viðskn. fékk frá þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar eða sendu frá sér umsagnir verður að segja alveg hreint eins og er að þau rök sem þarna eru færð fram eru afar hæpin. Það er smámöguleiki á því að þessi rök verði að veruleika ef rétt er á málum haldið af hálfu stjórnvalda og þeirra sem kaupa bréfin sem engin trygging er fyrir þar sem ekki liggja fyrir þær upplýsingar sem við þyrftum að fá frá hæstv. ráðherra, m.a. hvernig ætti að fara með söluandvirði bréfanna.

Jafnframt er þess getið í texta með frv. að lögð verði áhersla á dreifða eignaraðild. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum um hvernig standa á að sölunni er ekkert í þeim reglum þar sem kveðið er á um dreifða eignaraðild, ekki einu sinni hvað varðar dótturfyrirtæki eða tengd fyrirtæki að takmarka möguleikana á kaupum á hlutabréfum. Kom það þó fram hjá flestum umsagnaraðilum að nauðsynlegt væri að eitthvert slíkt ákvæði kæmi fram í lýsingu á því hvernig standa ætti að sölunni.

Eins og kemur fram í nál. meiri hlutans fékk efh.- og viðskn. á fund sinn fjölda einstaklinga, fulltrúa stofnana og fyrirtækja, bæði frá ríki og eins frá einkageiranum og mætti því ætla að við hefðum fengið þar mikinn fróðleik sem vissulega var. En ég er sannfærð um að hann hefði orðið meiri ef ekki hefði þurft að hafa þann háttinn á að hrúga inn á nefndarfundi saman fulltrúum fjölda stofnana þannig að ekki gafst færi á að spyrja hvern fyrir sig þeirra spurninga sem við þurftum að fá svör við. Má ætla að menn hefðu talað öðruvísi í þeim hópi sem þeir voru settir í en ef þeir hefðu verið einir þegar þeir komu á fund nefndarinnar. Á þetta kannski fyrst og fremst við um þá fulltrúa sem komu frá bönkunum enda sýnist mér á þeim viðtölum sem hafa verið birt í blöðum að undanförnu að þar hafi komið fram allt önnur sjónarmið fulltrúa bankanna en komu fram í viðtölum í nefndinni.

Við í hv. efh.- og viðskn. höfum haft afar stuttan tíma til að fjalla um þetta frv. Ég býst við að draga megi í efa að það geti gerst hjá nokkru öðru vestrænu ríki að á tæpum mánuði sé undirbúið, lagt fram, rætt, afgreitt frv. um sölu á stórum hluta í tveimur öflugum ríkisbönkum, salan fari fram og allt þetta gerist á innan við mánaðartíma. Ég stórefa að þetta sé framkvæmanlegt í öðru vestrænu ríki eða hjá öðrum þjóðþingum og er út af fyrir sig vissulega gott að hafa sveigjanleika og möguleika til að beita löggjöfinni og vera snögg í vinnu. Hins vegar er þetta þannig mál að við hefðum þurft miklu lengri tíma til undirbúnings og umfjöllunar um einstök atriði eins og kemur rækilega fram í nál. 1. minni hluta sem við undirritum, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.

En ég vil samt, virðulegi forseti, geta þess alveg sérstaklega að með nefndinni hefur starfað þessa daga og sjálfsagt þurft að sinna vinnu sinni líka um nætur fulltrúi frá viðskrn., Benedikt Árnason, þar sem hann hefur lagt sig sérstaklega fram um að svara öllum þeim spurningum sem nefndarmenn hafa komið fram með og þá kannski fyrst og fremst við í minni hluta efh.- og viðskn., hv. þingmenn í minni hluta, þar sem lítið hefur verið um spurningar frá öðrum fulltrúum. Ég vil sérstaklega þakka þessum fulltrúa frá viðskrn. fyrir samstarfið í nefndinni um þetta mikilvæga mál og alla þá vinnu sem hann hefur innt af hendi fyrir nefndarmenn til að gera okkur kleift að vinna þetta mál svo hratt sem við höfum gert. Mér finnst sjálfsagt að það komi fram í ræðustól á Alþingi að það eru fleiri en þingmenn sem leggja mikið á sig þessa dagana til þess að þetta mál geti öðlast afgreiðslu eða fengið afgreiðslu þingsins á svo stuttum tíma.

Ég vil einnig geta þess sérstaklega að á fund nefndarinnar komu fulltrúar starfsmanna ríkisbankanna tveggja, Búnaðarbanka og Landsbanka, og einnig formaður Landssambands bankamanna. Í samtölum við þá kom fram að starfsmenn bankanna eru almennt ánægðir hvernig staðið var upphaflega að hlutafjárvæðingu bankanna. Þá var haft samráð við starfsfólk og það fylgdist með málinu stig af stigi og þess vegna hafi þetta tekist afar vel, ekki bara hlutafjárvæðingin sjálf heldur einnig öll endurskipulagning innan bankans sem gerð var í samstarfi við starfsfólkið.

Þá hafi hins vegar verið gefið loforð um það, eins og kom reyndar fram hjá hæstv. viðskrh. við 1. umr. málins, að frekari breytingar yrðu ekki næstu fjögur ár þar sem bankarnir fengju aðlögunartíma í fjögur ár og ekki yrði um frekari breytingar að ræða. Við það var hins vegar ekki staðið og hlutafjáraukning varð strax á síðasta ári og síðan núna þegar á að fara að selja hlutafé í bankanum hafi starfsmenn í raun ekki fengið frekar en aðrir neinn tíma til að ræða þetta og treystu starfsmannafélögin sér ekki til að gefa okkur skriflega umsögn um málið þar sem þeim hafði ekki unnist tími til að skoða það vel eða kynna sér á þessum tíma.

Ekki fór hjá því að heilmikið var rætt í nefndinni um hugsanlega sameiningu bankanna og sameiningu á bankamarkaði og hvaða áhrif það hefði á eignamyndun í bankanum eða verð bankanna. Á síðasta ári má segja að verð hafi tvöfaldast, t.d. hjá Landsbankanum sem er alveg með ólíkindum, og hlýtur að vekja ákveðna ánægju en um leið ákveðinn ugg í brjóstum fólks þegar hugsað er til þess að þetta gerist á svo stuttum tíma, og að hluti af þessari verðmyndun verður til vegna væntinga um samruna bankanna, sem sagt þeirrar spár að hugsanlega verði um að ræða samruna á bankamarkaði og þá er fyrst og fremst talað um Landsbanka og Íslandsbanka. Þess hefur einnig gætt í verðmyndun hjá Búnaðarbanka þar sem menn hafa einnig væntingar um að þar verði um einhvern samruna að ræða sem eykur verðgildi bankanna svo mikið.

Auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur hver þróunin verður áfram á þessu ári. Fjármagnsmarkaðurinn á Íslandi er afar ungur og lítt þróaður og ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að eftir að hafa setið undir umræðunni hlýtur maður að velta fyrir sér hvenær við náum því stigi að öll umræða um fjármálastofnanir okkar fari fram á frekar vægum, málefnalegum nótum þannig að a.m.k. bankastarfsemin og starfsemi fjármálastofnana hljóti ekki skaða af. Við þekkjum það af umfjöllun um erlendar fjármálastofnanir að þegar ráðamenn innan fjármálastofnana, þeir sem sitja í stjórnum sem eiga stóran hlut í fjármálastofnunum eða stofnunum sem eru á hlutabréfamarkaði og þingmenn tala af einhverri óvarkárni um þessar stofnanir getur það haft veruleg áhrif á verðmyndun hlutabréfa í viðkomandi stofnun.

Kannski má segja miðað við umræðuna í dag og á undanförnum dögum að sem betur fer höfum við ekki enn náð því stigi í þroska fjármagnsmarkaðar okkar vegna þess að ég held að fyllilega sé kominn tími til að a.m.k. þeir sem sitja í stjórnum slíkra fyrirtækja eða í stjórnum fyrirtækja sem eiga stóra hluti í fjármálastofnunum okkar, setji sér ákveðnar siðareglur og temji sér að tala varlega um fjármálastofnanir, framtíð þeirra og þróun.

En eins og ég nefndi hefur hluti af þessari öru verðmyndun orðið vegna þess að menn eru með væntingar um samruna bankanna. Þess vegna var mjög fróðlegt að hlusta á Kristján Ragnarsson, formann LÍÚ og stjórnarformann Íslandsbanka, þegar hann fagnaði því mjög í kvöldfréttatíma sjónvarps að Íslandsbanki færi brátt að yfirtaka Landsbankann en öðruvísi var vart hægt að skilja orð hans. Ef þessi sala færi í gegn eins og áætlun væri um, gætu Íslandsbankamenn í krafti stærðar eftir sameiningu farið þar með öll völd. Þetta er svolítið annar tónn en hefur áður komið frá Íslandsbankanum varðandi það hvernig staðið skuli að eignarhaldi í bankakerfinu. Þegar Íslandsbanki varð til settu þeir sér ákveðnar reglur um dreifða eignaraðild og þeir hafa verið ákaflega stoltir af hvernig hefur til tekist með framkvæmdina á undanförnum árum.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ýmsar umsagnir hafa borist varðandi frv. hv. þingmanna vinstri grænna um dreifða eignaraðild. Í umsögnum sem okkur bárust, m.a. frá Fjármálaeftirlitinu, er vitnað til umsagnar sem þeir hafa sent um frv. um dreifða eignaraðild. En það hefur Íslandsbanki einnig gert og þar fjallar hann sérstaklega um dreifða eignaraðild og þar segir, með leyfi forseta:

[17:30]

,,Auk takmarkandi lagaákvæða er ekki óalgengt að stjórnvöld áskilji sér rétt til að hafna eða samþykkja yfirtökutilboð í banka. Þannig er málum t.d. háttað í Noregi.``

Jafnframt segir, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi,`` --- þ.e. þegar Íslandsbanki varð til --- ,,var ákveðið að viðhafa stjórnarkjör með öðrum og opnari hætti en tíðkast hjá hlutafélögum. Hver og einn getur gefið kost á sér með tilskildum fyrirvara og komi til stjórnarkjörs skal það ætíð fara fram með margfeldisfyrirkomulagi. Þannig er hlutur minnihluta best tryggður.

Í öðru lagi`` --- og þarna er verið að fjalla um hvernig þeir standa að því að tryggja dreifða eignaraðild og dreifð völd í bankanum --- ,,var sett nýtt ákvæði í samþykktirnar sem segir að eignist einhver aðili þriðjungshlut eða meira í bankanum geta aðrir hluthafar krafið viðkomandi aðila um innlausn á sínum hlut.

Eignarhaldið í Íslandsbanka hefur síðan þróast farsællega. Enginn hluthafi á meira en 10% og stærstu hluthafar eru stofnana- og fagfjárfestar, sem sýna ábyrgð og festu í meðferð hlutafjáreignar sinnar.``

Einnig segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Eins og áður hefur komið fram töldu forráðamenn og hluthafar í Íslandsbanka þegar í upphafi að til frambúðar væri farsælast fyrir bankann að eignaraðild væri dreifð. Slíkt skapaði bankanum traust og stöðugleika. Reynslan hefur staðfest að þetta sjónarmið var rétt. Erlendir lánardrottnar bankans og matsfyrirtæki kanna reglubundið eignarhaldið og í þeirra huga skiptir máli fyrir lánstraust hans að eignarhald sé dreift og að viss stöðugleiki ríki í hluthafahópnum. Dreifður hluthafahópur í Íslandsbanka er því styrkur fyrir bankann.``

Síðan vekja þeir sérstaklega athygli á því að núgildandi lög hvað varðar eignarhluta og heimildir ráðherra séu gölluð og ástæða til að endurskoða, og vilja í því sambandi nefna, með leyfi forseta:

,,1. Ákvæði laga nr. 113/1996 um virkan eignarhlut og heimild ráðherra til að synja aðilum um kaup á þeim grundvelli eru um margt óljós. Í raun er ráðherranum falið að taka geðþóttaákvörðun. Heppilegra væri að hafa skýrari reglur um það hvaða atriði ráðherrann þarf að taka tillit til eða fela öðrum aðilum þetta mat. Þá mætti markmið um dreifða eignaraðild vera einn þeirra þátta sem til mats kæmu.

2. Í lögum um aðrar lánastofnanir nr. 123/1993 er ekki að finna sams konar ákvæði um virkan eignarhlut. Eðlilegt er að samræma þessi lög að þessu leyti. Fyrirliggjandi frumvarp, [þ.e. frv. sem liggur fyrir Alþingi um dreifða eignaraðild] bendir einmitt á þennan galla.``

Þetta var álit Íslandsbankamanna um dreifða eignaraðild og það skýtur nokkuð skökku við þegar hlustað er á núv. formann bankaráðs Íslandsbanka þar sem ekki er hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að Íslandsbanki hyggist yfirtaka Landsbankann í krafti þess að þeirra styrkur sé öllu meiri.

Fleiri umsagnir eru sem varða þetta frv. um dreifða eignaraðild sem bent er á í umsögnum um það frv. sem hér er til umræðu og ég kem að þeim seinna.

Í nál. frá okkur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kemur mjög skýrt fram að þingflokkur Samfylkingarinnar er hlynntur því að fram fari sala á 15% hlut í hvorum ríkisbankanum, þ.e. Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og teljum það spor í rétta átt. Hins vegar teljum við að vinnubrögðin, hvernig staðið er að þessari sölu, séu ámælisverð og þá fyrst og fremst sá tími sem er til undirbúnings þessa máls og að ekki er hægt á svo stuttum tíma að svara öllum þeim álitamálum sem upp komu við skoðun nefndarinnar á frv.

Í fyrsta lagi höfum við bent á efnahagsleg áhrif sölunnar þar sem álit Seðlabanka Íslands og einnig Þjóðhagsstofnunar er að mínu mati mjög skýrt, að það sé rangt, sem fram hafi komið hjá hæstv. viðskrh., að salan með því fyrirkomulagi sem hugsað er sé hagstjórnartæki, hún sé í raun og veru ekki til þess fallin að slá á þenslu. Menn hafa bent á það að þarna sé um tvær leiðir að velja, annars vegar þá leið að auka hlutafé, eins og gert var fyrir ári síðan, og hins vegar þá leið að selja hluti úr bankanum þar sem sannarlega önnur aðgerðin er þensluhvetjandi en hin getur, ef rétt er haldið á málum, verið þensluletjandi.

En upplýsingar vantar við svo mörgum spurningum um hvernig staðið verði að þessu og þá kannski fyrst og fremst hvernig menn ætla að ráðstafa söluhagnaðinum til að hægt sé að fullyrða að aðgerðir stjórnvalda virki á þensluna þannig að þær séu frekar til að slá á hana heldur en hitt. En það skiptir líka máli hvernig kaupendur haga sér og erfiðara er að tryggja það, nema með því að setja eins skýrar reglur og mögulegt er varðandi sölu á báðum þessum hlutum.

En það er fráleitt að segja að það hafi verið um þessa tvo valkosti að ræða. Reynslunni af hlutafjáraukningu á síðasta ári hefur af þó nokkuð mörgum af sérfræðingum okkar í efnahagsmálum verið líkt við hagstjórnarslys. Mér fannst þó sérstaklega í máli og umsögn Seðlabankans koma fram að ekki væri rétt að kynna þetta mál sérstaklega sem hagstjórnartæki til þess að draga úr þenslu og þeir hefðu fullan fyrirvara á þeirri túlkun sem hefði komið fram. Við vitum af reynslunni af aukningu hlutafjár á síðasta ári að þar var um þensluhvetjandi aðgerð að ræða. Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að hæstv. ríkisstjórn hafi á nokkrum tímapunkti hugsað sér að endurtaka það þar sem tímafresturinn sem settur er á breytingu á hlutafjáreign í Landsbanka og Búnaðarbanka er 1. júní, að menn hafi hugsað sér að fara í útboð, að auka hlutafé í hvorugum þessum banka miðað við þá reynslu sem fékkst fyrir ári síðan. Þess vegna var þetta ekkert val.

Við hefðum viljað, eins og við höfum lagt áherslu á, að við hefðum haft lengri tíma til að skoða þetta mál. Ég skil þau rök að þetta er besti tíminn til sölu hlutabréfa eðli máls samkvæmt þar sem sú regla hefur komist á að veittur er skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa og þá hafa fjárfestar og þeir sem hyggjast kaupa hlutabréf farið í þá verslun sérstaklega í desember. Desember hefur komið út sem sérstakur sölumánuður hlutabréfa eins og reyndar ýmissar annarrar vöru og vegna þess að salan á FBA tókst nokkuð vel er hægt að fara í þessa aðgerð. Menn hljóta að hafa þurft að bíða eftir reynslunni af sölunni í FBA til að ákveða hvernig yrði staðið að þessari sölu. Ef ætlunin var allan tímann að ljúka þessu fyrir áramót þá hefði líklega ekki verið nema um eina viku að ræða í viðbót, ef farið hefði verið í þetta strax og reynslan var fengin af sölunni af FBA. En þá er spurningin sú hvort við metum meira að markaðurinn er opinn fyrir bréfin núna og bréf vantar á markaðinn, þetta er rétti tíminn til sölu, eða hvort við viljum vanda vinnubrögðin og nýta þann tímafrest sem við raunverulega höfum sem er til 1. júní. Það hlýtur alltaf að vera álitamál.

Í sjálfu sér var enginn sem vildi taka afgerandi afstöðu til þess nema fulltrúarnir sem komu frá verðbréfafyrirtækjunum, söluaðilunum sjálfum sem töldu þetta vera mjög góða tímasetningu og með tilliti til þess að rétt verð fengist. Hins vegar kom fram hjá öðrum að ekki hefði unnist sá tími sem þurfti til að vanda undirbúninginn eins og við hefðum viljað sjá hann. Og fyrst og fremst --- þeir umsagnaraðilar sem ég kýs fyrst og fremst að vitna í eru Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn --- er það óvissan um ráðstöfun á söluandvirðinu sem kemur fram í umsögnum þeirra sem og annarra og hefðu þurft að liggja fyrir mjög skýr svör frá hæstv. ráðherra hvernig söluandvirðinu yrði ráðstafað.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra við 1. umr. að annaðhvort yrði um sparnað að ræða eða fjárfestingu. Hjá þeim stofnunum sem til okkar komu var mjög eindregið varað við fjárfestingu af hálfu ríkisins. En auðvitað er til önnur fjárfesting en sú að fara í fjárfestingu í mannvirkjagerð eða stofnun nýrra fyrirtækja. Það er líka til nokkuð sem heitir fjárfesting í menntun. Það er því hægt að nýta þetta fé án þess að það sé beinlínis verðbólgu- eða þensluhvetjandi. Auðvitað eru til nokkrar leiðir í því og má velta fyrir sér hvort hæstv. ráðherra hafi nokkuð skoðað þann möguleika vegna þess ástands sem ríkir t.d. á Austfjörðum í atvinnumálum, að hluti af þessu fjármagni færi þangað til atvinnuuppbyggingar til þess að hægt sé að sinna ýmsum þeim verkefnum sem Austfirðingar hafa lagt fram hugmyndir um, og þá sérstaklega sem lýtur að ferðamennsku og til að sporna við þeirri þróun sem þar er í byggðamálum. Væri það mjög skynsamleg ráðstöfun af hálfu hæstv. ráðherra að skoða það vel hvort einhverju af þessu fjármagni yrði ráðstafað á þann hátt til þeirra byggðarlaga sem standa afar höllum fæti í dag.

Síðan kom fram hjá flestum þeim aðilum sem á fund nefndarinnar komu að áætlanir vantaði um framtíðarþróun á fjármálamarkaði. Og sérstaklega kom fram sú eðlilega krafa hjá starfsmönnum þeirra banka sem þarna eiga hlut að máli, þ.e. Búnaðarbanka Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf., að þeir vissu eitthvað meira um framtíðina en það að áætlað væri af ríkisstjórninni að selja bankana eða einkavæða að fullu á kjörtímabilinu. Það þyrftu að liggja fyrir einhverjar tímaáætlanir og hvernig að þessu yrði staðið. Menn eru vissulega uggandi hvað varðar atvinnuöryggi, og þá kannski ekki síst af því þetta er nú allt saman gert í ljósi hagræðingar. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að hagræðingin er fólgin í því að fækka m.a. útibúum, fyrst og fremst á landsbyggðinni þar sem fáir íbúar eru, og draga úr þjónustunni. Enda er í frv. og í umsögnum sem bárust frá ráðuneytinu sjálfu til nefndarinnar ekki lögð áhersla á að veita þjónustu um allt landið heldur fyrst og fremst að þjónustan verði ódýrari. Þjónustan verður hugsanlega ódýrari á höfuðborgarsvæðinu þar sem massinn af bankastarfseminni er en hún er ekki ódýrari þegar fólk þarf að sækja um langan veg í bankakerfið.

Við höfum orðið áþreifanlega vör við það úti á landi á síðustu árum að dregið hefur verulega úr þjónustunni sem hefur ekki endilega þýtt að þjónustan hafi um leið orðið ódýrari. Það hefur dregið úr henni en aftur á móti hefur verðlagning þjónustunnar verið sú sama eða heldur meiri. Og það er dálítið merkilegt þegar það er skoðað að sá banki sem er einkarekinn, Íslandsbanki, er með einna hæstu þjónustugjöldin. Það fer því ekki alltaf saman að veita góða þjónustu og hagræða og vera með hana ódýrari og þaðan af síður að vera með hana dreifða um landsbyggðina. Eðlilega er rekstur Íslandsbanka heldur auðveldari en þeirra tveggja banka sem hér eiga í hlut vegna þess að hlutverk þeirra hefur í marga áratugi verið að veita landsbyggðinni góða þjónustu. Íslandsbanki hefur ekki verið bundinn sömu skyldum og Landsbankinn og Búnaðarbakinn hvað það varðar.

[17:45]

Við í Samfylkingunni leggjum mjög mikla áherslu á að skýrar áætlanir liggi fyrir um framtíðarþróun á fjármálamarkaði. Við þurfum að setja miklu skýrari reglur en í gildi eru um fjármálamarkaðinn og þá fyrst og fremst varðandi samkeppnislög og fjármálaeftirlit.

Það er umhugsunarvert, virðulegi forseti, að í efh.- og viðskn. erum við með frv. til laga um breytingu á starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Þar er um að ræða frv. frá hæstv. ráðherra en einnig frá þingflokki Samfylkingarinnar. Það hefði verið mjög æskilegt að það frv. hefði verið afgreitt samhliða þessu frv. þannig að heimildir Fjármálaeftirlitsins væru auknar frá því sem nú er til að hafa þá möguleika til eftirlits sem þurfa að vera til staðar eins og margoft hefur komið fram í umræðu hér á Alþingi. Ég hef ekki séð, virðulegi forseti, í störfum nefndarinnar eða í umræðum á Alþingi að vilja hafi skort innan efh.- og viðskn. til að afgreiða það frv. Ég held að hann sé til staðar. Þess vegna hefði ég viljað að við hefðum afgreitt frv. samhliða þessu.

Einnig liggur þar fyrir frv. um Samkeppnisstofnun frá Samfylkingunni þar sem 1. flm. er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Þar er um afar vandað frv. að ræða sem búið er að leggja mjög mikla vinnu í og kalla til aðstoðar marga sérfræðinga á sviði samkeppnismála. Í tengslum við það voru m.a. skoðaðar þær reglur sem gilda í Evrópulöndunum hér næst okkur. Ég hefði einnig talið sjálfsagt að það frv. væri afgreitt fyrir jól sem og þáltill. sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir er 1. flm. að, um að móta samskiptareglur á fjármálamarkaði. Það er sannarlega þörf fyrir slíkar reglur.

Ég nefndi áðan ábyrgð þeirra sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækja, í stjórnum þeirra sjóða og stofnana þar sem höndlað er með verðbréf til almennings, stofnana og fyrirtækja. Þeir bera ábyrgð og eru skyldugir til þess að tala varlega. Ég nefni bara lífeyrissjóðina sem dæmi. Þar er um eignir upp á tugi og hundruð milljóna að ræða sem m.a. hafa verið notaðar til fjárfestinga í fjármálastofnunum. Það hlýtur að þurfa að gera kröfur til þeirra sem þar sitja í stjórn sem og hjá öðrum fjármálastofnunum að fjalla um málefni þessara stofnana yfirvegað og málefnalega þannig að engin hætta sé á því að stofnanirnar beri skaða af. Þegar maður lest viðtöl, t.d. við formann bankaráðs Íslandsbanka, finnst manni stundum afar ógætilega talað. Það er sannarlega tími til kominn að við venjum okkur á að fara varlegar með þessi mál og ekki síður þeir sem stjórna fjármálafyrirtækjum.

Í umræðunni hér á hv. Alþingi hefur komið fram að rekstur þessara stofnana mundi breytast mjög ef þær væru einkavæddar að fullu, þ.e. Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands. Það er talið skipta öllu máli varðandi reksturinn og skila sér í miklu betri rekstrartölum ef bankarnir yrðu einkavæddir að fullu. Það hefur sýnt sig að báðir þessir bankar skiluðu mjög góðri afkomu á síðasta ári. Ég sé það ekki, virðulegi forseti, að Halldór Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, banka sem er í meirihlutaeign ríkisins, verði betri stjórnandi ef bankinn yrði einkavæddur, að hann yrði betri stjórnandi ef hann starfaði fyrir einkaaðila en ekki ríkið. Þar er auðvitað fyrst og fremst um það að ræða að staðið sé faglega að ráðningu þeirra sem sjá eiga um rekstur þessara stofnana. Það tel ég að hafi verið gert og hafi tekist afar vel þegar bankastjóri Landsbankans var valinn á sínum tíma. Nákvæmlega sama gildir um bankastjóra Búnaðarbankans. Þeir verða hvorki betri né verri stjórnendur við það að bankinn sé alfarið í einkaeign.

Þarna skiptir öllu máli að staðið sé faglega að ráðningu og nú stendur fyrir dyrum að auglýsa, eftir því sem sagt er, bankastjórastöðu sem skiptir nú ekki hvað minnstu máli í stjórn efnahagsmála Íslendinga, hjá Seðlabankanum sjálfum. Það verður auðvitað fróðlegt að fylgjast með því hvernig staðið verður að ráðningu þar. Farsælast er að bæði þeir sem ráðnir eru sem stjórnendur og veljast inn í stjórnir viðkomandi stofnana séu þar á faglegum forsendum. Það er mikilvægt að umsóknir umsækjenda séu metnar út frá faglegum en ekki pólitískum forsendum. Það hefur úrslitaáhrif í rekstrinum.

Við leggjum áherslu á að í framtíðinni verði komið í veg fyrir valdasamþjöppun og fákeppni á markaðnum. Við hugsanlega sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka væri kominn banki sem hefði ótvíræða yfirburði á markaðnum. Og m.a. vegna þess að þessi umræða hefur farið í gang, virðulegi forseti, hækkar Landsbanki Íslands verulega í verði. Þó er varla nokkur maður sem kannast við að hafa tekið þátt í þeim viðræðum milli bankanna.

Það er mikil nauðsyn á því að Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun verði styrkt. Á þeim tíma sem við höfum fram að jólahléi hljótum við í Samfylkingunni, virðulegi forseti, að leggja áherslu á að þau mál sem eru í nefndum um Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið verði afgreidd. Hafi hv. þm. verið tilbúnir til þess að leggja nótt við dag til að greiða fyrir afgreiðslu og umræðu þess máls sem hér er þori ég að fullyrða að ekki muni standa á því að við verðum tilbúin að mæta á nefndarfundi til að greiða fyrir afgreiðslu þeirra frv. sem ég nefndi í efh.- og viðskn. fyrir jólahlé. Það mun örugglega ekki standa á okkur í þeirri vinnu, alla vega ekki hv. þm. Samfylkingarinnar.

Eins og ég gat um áðan komu fram verulegar athugasemdir um tímasetningu sölunnar, álitaefni varðandi útboðslýsinguna og hvernig eigi að standa að henni, þ.e. þau áform hæstv. ráðherra að selja þessa hluti á undirverði. Hjá fulltrúum Seðlabankans, Þjóðhagsstofnunar og fulltrúum starfsmanna bankanna kom fram að þar þyrfti að fara varlega og óeðlilegt ef um mikinn mun væri að ræða. Menn nefndu þar ekki fastar tölu. Hins vegar má reikna með að allt undir 4% frávikum gæti hamlað því markmiði m.a. að slá á þensluna.

Virðulegi forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar hljótum að leggja megináherslu á að í þeim reglum sem settar verða verði skilgreind ákvæði er varða um skyldleika og tengsl aðila, þá fyrst og fremst varðandi dótturfyrirtæki eða fyrirtæki skyld þeim sem koma til með að kaupa hlutabréf í bönkunum. Það skiptir miklu máli og ekki síst í ljósi þess að samkeppnislöggjöf okkar er veik. Við þurfum að laga hana og styrkja Fjármálaeftirlitið. Verði þær breytingar sem við höfum lagt til ekki afgreiddar fyrir jól þá skiptir miklu hvaða reglur hæstv. ráðherra ákveður að skuli gilda við söluna.

Niðurstaða okkar er sú, eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni í dag og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór mjög rækilega yfir í morgun, að við erum jákvæð gagnvart því að selja þennan 15% hlut í báðum þessum bönkum. Við teljum hins vegar að vinnubrögðin séu fyrir neðan allar hellur þó að embættismenn, starfsmenn ríkisstofnana og þó kannski fyrst og fremst starfsmenn viðskrn. hafi gert það sem í þeirra valdi stóð til að gera málið eins ljóst og mögulegt er á þessum stutta tíma. Engu að síður standa eftir það veigamikil vafaatriði að við hljótum að átelja vinnubrögðin við undirbúning málsins. Það er ekki sæmandi Alþingi að afgreiða svo stór mál frá þinginu meðan veigamiklum spurningum er ósvarað.

Virðulegi forseti. Hér hafa verið haldnar langar og miklar ræður. Farið hefur verið yfir öll þau atriði sem lúta að þessu máli. Ég hef nefnt þau sem ég tel að skoða þurfi sérstaklega áður en málið verður afgreitt. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að tímafresturinn er að renna út ætli menn að setja bréfin á sölu fyrir áramót. Aðvaranir okkar varðandi þau atriði sem við teljum að betur hefðu mátt fara koma fram í nál. okkar. Við söluna sjálfa, þ.e. það markmið að selja 15% hlut í þessum bönkum höfum við ekkert að athuga.