Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 17:58:37 (2628)

1999-12-09 17:58:37# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, LB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. er lýtur að sölu á 15% hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka Íslands. Salan á þessum hlut er vitaskuld angi þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað á íslenskum fjármagnsmarkaði undanfarin ár, einkanlega eftir að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Það olli líklega meiri straumhvörfum á íslenskum fjármagnsmarkaði en nokkur önnur einstök aðgerð í áratugi.

Ég vil, virðulegi forseti, í upphafi máls míns segja að almennt er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki sérstakt hlutverk ríkisins að standa að rekstri viðskiptabanka. Ég held að ríkið ætti að einbeita sér að öðrum hlutum sem það skilar betur. Það breytir ekki því að þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði í áratugi og út úr því erum við að vinna okkur.

[18:00]

Það er alveg ljóst að undanfarin ár hefur arðsemi af eigin fé í þeim bönkum, sem við ræðum hér, verið mun meiri eða allt frá árinu 1995 var arðsemi eigin fjár í Búnaðarbanka 5,7% en á árinu 1998 14,6% og að mínu viti eru það tvö meginatriði sem skipta þar miklu máli. Í fyrsta lagi er það að formbreyting átti sér stað á bankanum árið 1997 og hins vegar hefur verið verulegur hagvöxtur í samfélaginu allt frá árinu 1995.

Ég segi það, virðulegi forseti, að ég er í hjarta mínu sammála því að nauðsynlegt sé að ríkið losi sig út úr þessu með einhverjum hætti en það verður að gerast á mjög skynsamlegan hátt og þannig að það valdi ekki fjármagnsmarkaðnum meira uppnámi en nauðsyn krefur.

Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram nokkur þingmál þar sem við höfum lagt á það áherslu að fjármagnsmarkaðurinn og leikreglur hans séu skýrar. Við höfum lagt fram þáltill. og frumvörp um viðskiptasiðferði, breytingar á samkeppnisreglum, Fjármálaeftirliti, kauphöllum, Verbréfaþingi o.s.frv. Allt miðar þetta að því að hlutverk ríkisins á þessum markaði sé fyrst og fremst að hafa eftirlit með því að farið sé eftir réttum leikreglum. Því má velta fyrir sér, virðulegi forseti, eins og fram hefur komið, m.a. í nál. 1. minni hluta, hvort ekki sé æskilegra að reyna að afgreiða og skýra þessar leikreglur sem best áður en lengra er haldið á þessari braut því að það er mikilvægt að þessir bankar og fjármagnsstofnanir vinni eftir eins skýrum leikreglum og kostur er.

Í öðru lagi vildi ég nefna það aðeins, virðulegi forseti, að menn hljóta að velta fyrir sér tímasetningunni á þessari sölu. Eitt af því sem hefur verið nefnt er það að þessi aðferð muni ekki skapa þenslu í samfélaginu. Vissulega er umdeilanlegt og ef það fer þannig að einstaklingar noti eigið fé til þess að kaupa hlutabréf í þessum bönkum og ríkissjóður noti það síðan í að greiða upp skuldir þá mun það að sjálfsögðu slá á þensluna. Ef það gerist hins vegar að þeir sem kaupa bréf í þessum bönkum geri það með lánsfé og ríkissjóður síðan noti það til fjárfestinga mun það virka akkúrat öfugt. Það skiptir því öllu hvernig verður farið með þetta fé, hvort þessi sala muni auka á þensluna eða ekki.

Virðulegi forseti. Þá vil ég einnig nefna það varðandi tímasetningu á þessari sölu, að þessi ,,jólasala`` á hlutabréfum, ef svo má að orði komast, mun koma mjög mörgum illa sem ætluðu sér að fara í hlutabréfasölu á þessum tímapunkti þannig að ríkið er með ákveðnum hætti að koma inn með hlutabréf í þessum bönkum á þeim tíma þar salan er mest. Kannski má orða það þannig að ríkið sé að hluta til að skekkja stöðu einkaaðila sem eru fyrir á markaði hvað varðar möguleika þeirra á að selja hlutabréf á þessum tíma því að mjög margir kaupa hlutabréf á þessum tíma, m.a. í því skyni að tryggja sér skattafslátt.

Virðulegi forseti. Spurningin er á hvaða vegferð ríkisstjórnin er og það skiptir mestu máli í þessu öllu saman að mínu viti. Er hún með sölu á þessum hlut að tryggja ef verði af samruna Landsbanka og Íslandsbanka að þá verði hlutur ríkisins í slíkum sameiginlegum banka undir 50%? Var nauðsynlegt að selja þessi bréf svo að það verði tryggt að komi til þessa samruna þá verði hlutur ríkissjóðs í sameiginlegum banka vel undir 50%? Það held ég að sé nauðsynlegt að fáist skýrt hér, virðulegi forseti, hvort það sé ástæðan fyrir því að þessi bréf eru seld.

Virðulegi forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort viðskrh. eða ríkisstjórnin geti eftir þessa sölu --- og ég gef mér þá forsendu að fyrirhugaður sé samruni Íslandsbanka og Landsbanka --- þar sem hlutur ríkissjóðs yrði sennilega undir 50% í slíkum sameiginlegum banka, hvort fyrir liggi að ríkisstjórnin gæti sameinað þessa banka án þess að koma með málið fyrir Alþingi? Ég held að það sé grundvallaratriði að þetta liggi fyrir í umræðunni þegar við ræðum þetta. Ef markmiðið með þessari sölu --- þetta mál kemur inn í þingið með svo miklum hraða að það er eins og eitthvað hafi gerst sem geri það að verkum að menn hafa orðið að keyra þetta í gegn, keyra sig inn í samkeppnina um sölu á hlutabréfum í aðdraganda jóla o.s.frv., ef það er þá eru vitaskuld komnar allt aðrar forsendur fyrir því að styðja málið. Ef það liggur fyrir að markmiðið með sölunni er að tryggja að við slíkan samruna verði hlutur ríkissjóðs undir 50%, enn fremur ef til þess kæmi gæti ríkisstjórnin sameinað Landsbanka og Íslandsbanka án þess að koma með þetta mál inn í þingið. Ég held það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta liggi fyrir.

Í umræðunni í dag, sem hefur um margt verið fróðleg, hafa menn farið mjög víða yfir þetta mál í löngum og miklum ræðum og því kannski litlu við það að bæta því að frv. sem hér er rætt er í sjálfu sér mjög stutt. Ég held að það sé tvær og hálf lína. Þó að það hafi gefið ýmsum þingmönnum tilefni til langrar umræðu er það fyrst og fremst markmið mitt með því að koma inn í umræðuna að reyna að fá upplýst hvort hlutur ríkissjóðs í hugsanlega sameinuðum banka yrði u.þ.b. 40% sem mér sýnist vera mjög nærri lagi eftir sölu á þessum 15%, og hitt hvort ríkisstjórnin geti, án þess að koma með mál fyrir Alþingi, sameinað Íslandsbanka og Landsbanka eða, ef af hugsanlega slíkum samruna yrði, hvort Alþingi stæði þá frammi fyrir gerningi sem væri einungis háður því skilyrði að Alþingi samþykkti hann eða hvernig hæstv. viðskrh. hefði hugsað sér að vinna það mál.