Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:01:01 (2630)

1999-12-09 20:01:01# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það liggur við að maður þyrfti að geta veitt andsvar við skætingi hæstv. viðskrh. í fjölmiðlunum. Ég heyrði ekki betur en hann væri að senda okkur kveðju í fréttaviðtali áðan, talandi um málþóf. En þetta á víst að vera andsvar við ræðu hæstv. ráðherra og því verður að ræða hitt við hann síðar.

Ég held að það sé jákvætt í sjálfu sér að hæstv. ráðherra viðurkennir að viss hætta er á því, eins og hann orðaði það, að minni fyrirtæki verði undir í samkeppni við þau stóru og vísaði hann þar til bankasameiningar. Hins vegar taldi hæstv. ráðherra að það gæti verið mjög skynsamlegt að bankar sameinuðust og veittu þjónustu sístækkandi fyrirtækjum. Varðandi þetta, herra forseti, þá er ljóst að hæstv. ráðherra er að ræða þessa hluti við afar sérkennilegar aðstæður þar sem fjölmiðlar flytja stanslaust fréttir af undirbúningi tiltekinnar bankasameiningar en samt svarar hæstv. ráðherra hér eins og véfrétt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann reikni ekki með því að geta gefið skýrari svör en hann hefur veitt hingað til, þrátt fyrir þá miklu umræðu sem nú fer fram um alveg tiltekinn kost í sameiningu banka hér á næstu mánuðum.