Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:03:19 (2632)

1999-12-09 20:03:19# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nú m.a. vegna þess að það er tilgangslaust að spyrja þennan hæstv. iðnrh. Ég hef ekki orðið var við að það hafi nokkuð upp á sig að reyna að leggja málefnalegar spurningar fyrir þennan hæstv. ráðherra. Ef maður talar fyrir gagnstæðum sjónarmiðum og kemur eitthvað við kaunin á hæstv. ráðherra, þá kemur aldrei neitt til baka úr þeirri átt annað en skítkast og skætingur. Þetta er að mörgu leyti einhver ómerkilegasti ráðherra að eiga orðastað við og rökræður, a.m.k. sem ég hef búið við og hef ég þó rætt við þá marga í gegnum tíðina.

Málþófsásakanir hæstv. ráðherra eftir nokkurra klukkustunda umræður hér um þetta bankamál eru alveg lýsandi fyrir þetta. Hæstv. ráðherra er hér eftir nokkurra klukkutíma umræður kominn með ásakanir um málþóf. Hvað ætli hæstv. ráðherra sjálfur hafi oft haldið nokkurra klukkutíma ræður sem ekki var alltaf mjög mikið innihald í? Þótti það í sjálfu sér ekkert málþóf. Það væri gaman að fletta t.d. upp á því hvað ræður hæstv. ráðherra, m.a. um bankamál, á kjörtímabilinu 1991--1995 voru stundum langar. Ég held því, herra forseti, að hæstv. ráðherra sé bara eins og venjulega að sanna þá dóma sem eiga best við um hann.