Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:11:09 (2639)

1999-12-09 20:11:09# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:11]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að íslensk fyrirtæki geta sótt út á erlendan bankamarkað og íslenskir bankar eru nú þegar í alþjóðlegri samkeppni á mjög mörgum sviðum. Það þýðir hins vegar ekki að menn þurfi ekki að huga að því að íslenskir bankar geti stækkað upp á það að geta verið og tekið þátt í þeirri samkeppni sem á þessum markaði ríkir og geta veitt íslenskum fyrirtækjum þjónustu í samræmi við stærð þeirra. Hins vegar er það svo að við getum ekki horft á íslenska markaðinn algjörlega einangraðan. Það er rétt að banki með 60--70% markaðshlutdeild á Íslandi væri auðvitað með yfirburðastöðu. Það væru allir sem væru með slíka markaðshlutdeild. Hins vegar verðum við að horfa á þennan markað í alþjóðlegu samhengi og það er nákvæmlega það sem hv. þm. byrjaði sína ræðu á að segja, þ.e. að markaðurinn er svo alþjóðlegur að íslensk fyrirtæki, og einstaklingar þess vegna, geta fengið sína þjónustu hjá erlendum bönkum á bestu kjörum sem hægt er að fá á hverjum stað fyrir sig og hverjum tíma fyrir sig.