Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:16:26 (2644)

1999-12-09 20:16:26# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:16]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. þessi svör. Staðreyndin er sú að mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara spurningu minni um hver sé framtíðarsýn hans á bankakerfið á Íslandi. Mér fannst hann ekki svara þessu á annan veg en að segja að menn þyrftu að uppfylla skilyrði Verðbréfaþings. Það þyrftu menn að gera fyrir mitt næsta ár. Önnur svör fengum við ekki. Ég vildi hins vegar vita hver sýn hans væri á framtíð íslenska bankakerfisins. Þetta er hin brennandi spurning sem menn eru að velta fyrir sér í þjóðfélaginu öllu. Mér finnst það ekki ganga, og ég sagði það í ræðu minni, að hæstv. ráðherra svari þjóðinni eins og hann gerði á síðum Morgunblaðsins um síðustu helgi, að segja að hann gerði ekki annað en að hlusta á raddir markaðarins.