Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 21:14:23 (2653)

1999-12-09 21:14:23# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[21:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað í dag hefur heldur betur leitt í ljós að það sem við þingmenn Frjálslynda flokksins vorum að mælast í þeirri þáltill. sem við dreifðum í morgun á fullan rétt á sér. Málflutningurinn í dag hefur heldur betur styrkt að sú þáltill. væri í raun og veru mál sem þingheimur ætti að samþykkja og taka sér smátíma í að hugleiða hver væri framtíð bankastofnana hér á landi og hvaða skref ætti þar að stíga.

Ég vék að því í fyrri ræðu minni að það væri meira en sjálfsagt að skoða þann möguleika fyrir hönd eiganda bankanna, íslensku þjóðarinnar, að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka og alla vega væri þá verið að horfa til þess að þjóðin fengi hámarksverð fyrir eign sína. Þetta er sú stefna sem var m.a. lýst af hæstv. forsrh. á síðasta sumri þegar rætt var um söluna á FBA. Mér finnst að umræðan í dag hafi leitt það í ljós að það væri virkilegt gæfuspor fyrir hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnina að staldra við, endurmeta hlutina og gefa sér tíma til þess að skoða hvað er best í málinu. Er það endilega víst að það séu bestu skref framtíðarinnar að leggja niður þá stefnu, sem hér hefur verið undanfarna áratugi, að ríkissjóður eigi banka?

[21:15]

Ég lýsti því í fyrri ræðu minni að það hefði einfaldlega verið þannig að oft og tíðum hefðu komið upp þær aðstæður í okkar þjóðfélagi að undirstöðuatvinnuvegur okkar hefur þurft á aðstoð að halda, t.d. niðursveiflur í sjávarútvegi sem menn höfðu ekki reiknað með, erfitt tíðarfar eða minnkandi aflabrögð. Sú aðstoð var hér á árum áður iðulega veitt í gegnum Fiskveiðasjóð sem var að stærstum hluta forveri núverandi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að því er eignir varðar þegar fjárfestingarsjóðirnir voru sameinaðir. Ég er enn þá á þeirri skoðun, og hún hefur styrkst hér við umræðuna í dag, að það sé eðlilegt, sjálfsagt og skynsamlegt að staldra við og meta hlutina upp á nýtt.

Því hefur verið haldið hér fram að eðlilegt væri miðað við það frv. sem hér hefur verið mælt fyrir að drífa þetta af. Ég held ég hafi heyrt það rétt að viðskrh. sagði eitthvað á þá leið að það væri ekki sjálfgefið að umræða eins og sú sem hér hefur farið fram eða slíkar hugleiðingar um það að einkavæða, þó eigi væri nema með því að selja hluta af bönkunum, ætti að standa lengi því að það gæti líka ruglað ýmislegt í hinu viðskiptalega umhverfi. Mér sýnist á fréttum og viðtölum við menn sem starfa í bankastofnunum og eru þar í fyrirsvari, stjórnarformenn og bankastjóra, að það sé einmitt það sem hafi gerst. Þess vegna held ég að það sé enn frekar tilefni til þess að staldra við og skoða hlutina betur, skoða það vandlega hvernig þjóðin fær sem mesta fjármuni fyrir eign sína ef það verður endanleg niðurstaða ríkisstjórnarinnar að selja hluta eða stefna að enn frekari einkavæðingu með því að selja bankana alfarið, sem ég reyndar lýsti hér í fyrri ræðu minni í dag að væri e.t.v. ekki góður kostur. Ég sagði að það væri e.t.v. ekki góður kostur ef hér væri enginn banki sem ríkið hefði yfirráð yfir að meiri hluta. Það hefur ekkert í umræðunni í dag dregið úr þeirri skoðun minni að skynsamlegt sé að staldra við, skynsamlegt að skoða málin upp á nýtt, skynsamlegt að semja reglur um það hvernig tryggja eigi dreifða eignaraðild og skynsamlegt sé að velta því yfirleitt fyrir sér hvort það sé hið mesta happaspor fyrir íslenska þjóð að ríkissjóður eigi ekki ráðandi hlut í bankastofnun, sem væri þó öflug.

Það hefur komið fram í umræðum í dag að þegar upp hafa komið mikil skakkaföll í atvinnurekstri og atvinnulífi annarra landa, t.d. Noregi, þá hefur ríkið þurft að hlaupa undir bagga með einkabönkum og taka á sig byrðar með því að tryggja að bankakerfið héldi velli og væri starfshæft. Mér er sem ég sjái þá stöðu sem kæmi upp í íslensku þjóðfélagi ef þannig áraði að loðnan brygðist t.d. í vetur, ofan í lélega síldarvertíð, ofan í lélega loðnuvertíð, ég tala nú ekki um ef það gengi eftir sem haft hefur verið eftir okkar bestu fiskimönnum í blöðum nýverið, að sennilega hafi þorskhrotan synt hjá. Ég sá það síðast í Morgunblaðinu í gær að þar var viðtal við skipstjórann á aflaskipinu Arnari frá Skagaströnd þar sem hann lýsti þeirri skoðun skipstjórnarmanna, margra hverra, að þorskhrotan væri synt hjá og að sá toppur sem menn hefðu verið að búast við að yrði hér áfram, virtist ekki vera til staðar. Það skyldi nú ekki vera að við værum hægt og rólega að lenda í niðursveiflu? Alla vega hefur forustumaður útgerðarmanna, Kristján Ragnarsson, séð ástæðu til þess að vara við því hvaða staða væri að koma upp hjá sumum útgerðaraðilum og fiskvinnsluaðilum, sérstaklega þeim sem hafa verið í uppsjávarfiski. Að mínu viti getur því margt orðið til þess að skynsamlegt sé að hafa eignarhald bankastofnana á hendi ríkisins.

Ég var reyndar þeirrar skoðunar, og er reyndar enn, að Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hefði ekki átt að einkavæða með þeim hætti sem gert var. Þar hefði í raun og veru átt að vera sá ventill sem hefði getað tekið við og hjálpað upp á eins og gert var í hinum gamla Fiskveiðasjóði þegar viðkomubrestur eða aflabrestur átti sér stað í fiskstofnum okkar og tekjur minnkuðu eða einstakir hlutar útgerðarinnar --- sem betur fer voru það nú sjaldnast allir í einu --- lentu í miklum skakkaföllum. En nú hefur hins vegar verið stigið það skref endanlega af hálfu ríkisins að einkavæða Fjárfestingarbankann svo þar verður nú varla aftur snúið í bráð, nema ef svo illa skyldi fara, sem ég ætla vissulega að vonast til að verði ekki, að við fengjum slíka niðursveiflu að ríkið neyddist til að koma að málum, eins og reyndar hefur gerst í öðrum löndum.

Þess vegna tel ég enn frekar að rétt sé að staldra við --- ég ítreka það enn og aftur --- og velta þeim möguleika fyrir sér hvort ekki sé rétt að meta málin algjörlega upp á nýtt --- ég endurtek það --- meta málin upp á nýtt, skoða raunverulega hvort ástæða er til þess að ganga fram með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Mér finnst líka algjörlega óeðlilegur sá flýtir sem ætlast er til að sé á þessu máli. Hér er komið inn með frv. fyrir örfáum dögum og það er ætlast til þess að það verði keyrt hér í gegn og afgreitt með ótrúlegum hraða. Þetta mál er þannig vaxið að hér eru menn að leggja upp með ákveðna stefnu og framkvæma ákveðna stefnu sem er hluti af einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og í þessu tiltekna máli, sölu bankanna, tel ég að menn ættu að flýta sér hægt, jafnvel þó að hér sé aðeins verið að tala um að selja 15% í hvorum banka.

Ég ætla ekki að teygja þessa umræðu neitt mjög lengi, en ég legg enn og aftur áherslu á að það sem ég hef heyrt hér á máli manna í dag hefur enn frekar styrkt þá skoðun mína að menn eigi að flýta sér hægt og staldra við. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni í dag, og beindi þeim orðum til forseta, hvort hugsanlegt væri að við flutningsmenn þáltill. um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta kanna hagkvæmni þess að sameina ríkisbankana áður en til sölu kemur og tryggja þjóðinni þar með hámarksafrakstur af eign sinni, fengjum að mæla fyrir þessari tillögu. Ég hef nú ekki heyrt nein viðbrögð við því en mér finnst þetta vera hluti af þessu máli. Það hefði verið eðlilegt að við fengjum að mæla fyrir tillögunni, sérstaklega ef það yrði nú fundur í efh.- og viðskn. áður en að það mál sem nú er til umræðu færi í 3. umr. og afgreiðslu. En tillagan er samt þannig vaxin og orðuð að hún heldur gildi sínu jafnvel þó að menn framkvæmi það sem hér er sóst eftir í frumvarpsformi, þ.e. að selja þessi 15%. Það er samt ekki búið að ráðstafa eignarhaldi ríkisins því að ríkið ræður báðum bönkunum og tillagan heldur gildi sínu eftir sem áður. Ég vonast til að menn staldri við, a.m.k. ef svo fer sem mestar líkur eru á, að menn afgreiði þetta mál með meiri hluta stjórnarflokkanna, að samt sem áður verði tekið vel í þá till. okkar til þál. að staldra við eftir að eignaraðild ríkisins er orðin 72% í bönkunum og skoða framtíðina. Þetta vildi ég ítreka hér.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær við fáum að mæla fyrir þessari þáltill. og kannski verður það ekki í þeim hasar og tímapressu sem virðist stefna í fyrir jól. En ég hef heyrt það á máli manna að sumir hv. þm. hafa tekið undir þessi sjónarmið okkar úr þessum ræðustól í dag, og vil þakka fyrir það. Ég held að þessi tillaga sé hógvær og skynsamleg og vonast til þess að þegar hún loksins kemur til umræðu þá verði henni vel tekið.

Ég ætla að ljúka þessu máli mínu nú með því að ítreka enn á ný að ég tel að sá flýtir sem er á þessu máli sé ekki neitt gæfuspor. Það væri að öllu leyti betra ef menn hefðu staldrað við og leyft málinu að hafa eðlilegan aðdraganda, að fá eðlilega málsmeðferð og ekki í þeirri tímapressu sem hér hefur verið sett upp við afgreiðslu þessa máls.