Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 21:28:59 (2654)

1999-12-09 21:28:59# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[21:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, sérstaklega hvað varðar meðferð á þeirri þáltill. sem þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt fram. Ég held að það sé ljóst að öll efni standa til þess að hún fái hér einhverja meðhöndlun í tengslum við þetta mál. Æskilegast hefði að sjálfsögðu verið að hægt hefði verið að mæla fyrir henni og ræða hana og hún hefði mátt vera hér til umfjöllunar samhliða þessu máli, ganga til efh.- og viðskn. og vera hluti af þeim pakka sem þessu tengist. En þar bíður jú eitt frv. afgreiðslu sem auðvitað hefði átt að vera til afgreiðslu út úr þinginu á undan þessu máli en ekki á eftir. Það er bagalegt að Alþingi fær ekki kost á því að taka efnislega afstöðu til þessara hluta áður en heimildir eru veittar til sölu á frekari eignarhlut í ríkisbönkunum eða fyrrverandi ríkisbönkum að nokkru leyti.

[21:30]

Ég bendi hv. þm. á að einn möguleikinn, sem að mörgu leyti væri eðlilegur, væri að tillagan fengi að koma til efnislegrar umfjöllunar hér með einhverjum hætti. Hana mætti t.d. bera fram sem brtt. við frv. ríkisstjórnarinnar við 3. umr. og þá þannig að heimildin yrði skilyrt, söluheimildin yrði skilyrt við að á undan hefði farið vönduð úttekt á þeim kosti að sameina ríkisviðskiptabankana áður en til sölu kemur. Út á það gengur tillagan jú, að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta kanna hagkvæmni þess að sameina ríkisbankana áður en til sölu þeirra kemur eins og frv. viðskrh. gerir ráð fyrir.

Vilji Alþingi láta skoða þennan kost málsins að óbreyttum aðstæðum þá þarf að ákveða það nú. Þá þarf að mæla fyrir um það og setja ríkisstjórninni það fyrir verkum. Það er auðvitað einn möguleikinn af nokkrum til að knýja fram viðhorf alþingismanna til þessa, fáist efh.- og viðskn. ekki til þess að funda milli umræðna og taka málið fyrir. Mér er að vísu kunnugt um að það mun vera fundur í efh.- og viðskn. í fyrramálið. Þá væri einn möguleikinn sá að nefndin tæki þessa hluti til umfjöllunar og skoðaði þann kost að afgreiða þessi mál að einhverju leyti samsíða.

Það er að vísu ekki góður svipur á því, herra forseti, að menn mismuni svo augljóslega sem hér á að fara að gera, þingmálum eftir því hvernig þau eru ættuð. Þó er það hér á ferðinni, a.m.k. hvað það varðar að efh.- og viðskn. hefur ekki fengist til að afgreiða frv. sem við höfum flutt, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, um dreifða eignaraðild að fjármálastofnunum. Nefndin hefur þó haft til þess allmargar vikur og um skeið, að ég hygg, allar upplýsingar sem til hefði þurft.

Herra forseti. Ég hef áhuga á að ræða aðeins frekar nokkur atriði. Það fyrsta varðar þetta skringilega mál sem hefur að vísu verið leitt til lykta með því að efh.- og viðskn. hefur tekið af skarið. Spurningin var um hvernig ætti að meðhöndla þessar tvær ólíku heimildir, annars vegar 35% heimild til hlutafjáraukningar og hins vegar 15% heimild sem nú er verið að afla til beinnar sölu á sambærilegum hlut af eign ríkisins í bönkunum. Ég gerði þetta að umtalsefni við 1. umr. og spurði hæstv. ráðherra um þetta með beinni spurningu. Orðaskipti okkar voru að vísu kannski ekki að öllu leyti til þess fallin að upplýsa um málin af yfirvegun. Ég spurði þó hæstv. ráðherra þeirrar spurningar alveg beint og hygg að ég hafi í ræðu minni fyrstur manna vakið athygli á þessum hluta málsins: Hvernig ber að túlka þessa viðbótarheimild sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að sækja, þessi 15%? Ber að líta svo á að hún komi til viðbótar 35% heimildinni um hlutafjárútboð sem fyrir er þannig að ef þetta legðist saman gæti um helmingur af bönkunum orðið í eigu annarra en ríkisins? Ef minni mitt svíkur ekki, upp á því má fletta þegar umræðan liggur öll fyrir, þá staðfesti hæstv. ráðherra að í raun legði hann þann skilning í málið. Ég hygg þó að hæstv. ráðherra hafi sagt síðar í umræðunni eða í andsvari að þetta væri eitthvað sem hv. efh.- og viðskn. ætti að skoða. Gott og vel. Ég ætla ekki að reyna að hengja menn á þessu en þetta er þó, herra forseti, ákaflega skýr vísbending um hversu hálfköruð og hrá málin voru þegar þau komu hér inn. Þetta atriði lá ekki fyrir og var ekki á hreinu. Það munar nú um minna en það hvort þarna ætti að vera tilhlaup upp á heil 15% í eignarhlut ríkisins. Það er verulegur munur á því að ríkið láti frá sér allt að 35% hlut, sem er að vísu stór og nokkuð umtalsverður ef hann væri í höndum eins eða fárra aðila, eða hinu, að ríkið sleppi þarna frá sér helmingi og sé á þröskuldi þess að lenda í minni hluta í bönkunum.

Efh.- og viðskn. hefur sem sagt útkljáð þetta eins og formaðurinn var svo vingjarnlegur að benda mér á í umræðunni í dag. Því miður, sökum þess hversu framsöguræða formannsins var knöpp í morgun, þá skýrði hann þetta mál ekki, ekki frekar en mörg önnur sem mér hefði fundist að hv. þm., formaður nefndarinnar og frsm. hefði mátt gera. (VE: Ég færi nú ekki að tefja framgang stjórnarfrv.) En þetta liggur sem sagt fyrir í nál. og er út af fyrir sig mikilsvert að sé á hreinu. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Við meðferð málsins í nefndinni spunnust nokkrar umræður um ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Kemur þar fram að viðskiptaráðherra getur heimilað útboð á nýju hlutafé, en þó megi samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum banka fyrir sig. Telur meiri hlutinn ljóst að þar er átt við 35% af heildarfjárhæð hlutafjár á hverjum tíma.``

Með öðrum orðum ber að draga það frá sem selt verður í beinni sölu og þakið er 35% eignarhlutur af heildarhlutafé í bankanum á hverjum tíma. Gott og vel, málið er skýrt og sögunni lokið þar með. Að þessu leyti a.m.k. hefur efh.- og viðskn. greinilega unnið heimavinnuna sína.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég segja nokkur orð um hið fyrirhugaða útboð. Eins og venjulega smíðar hæstv. ríkisstjórn sér nýjar vinnureglur í þetta sinn eins og endranær þegar krukka á í eignarhlut ríkisins í bönkum eða fjármálastofnunum. Nú er formúlan sú ef ég hef náð að nema þetta rétt, sem að nokkru leyti hefur verið að skýrast í umfjöllun fjölmiðla, að nokkru leyti hér í frammíkalli hæstv. viðskrh. við ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur við 1. umr. og að nokkru leyti í vinnu efh.- og viðskn. eins og fram kemur í nál., að selja á þessi 15% þannig að tveir þriðju verða seldir í áskrift og einn þriðji með svonefndu útboði. Þá hafa menn eðlilega spurt: Hvernig verða reglurnar í þessum efnum, á hvaða gengi verður selt o.s.frv.?

Þá kemur til kasta, herra forseti, svonefndrar framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Það er afar sérstakur félagsskapur hér í bænum sem verið hefur undir forustu Hreins nokkurs Loftssonar lögmanns, sem mun innan skamms taka við stjórnarformennsku í samsteypunni Baugi ef ég hef tekið rétt eftir. Þessi framkvæmdanefnd er afar hátt skrifuð enda skipuð af engum öðrum en sjálfum hæstv. forsrh. Hún á örugglega eftir að verða á spjöldum sögunnar sem ein hin allra merkilegasta nefnd sem lengi hefur uppi verið. En þessi nefnd hefur komist niður á það að leggja til við viðskrh. að bréfin verði seld á undirverði, að þetta verði allt selt á undirverði (JóhS: 400 milljónir gefa þeir.) og munar nú um minna því hér eru stórar tölur á ferð. Já, það er rétt sem hér fram kemur. Ef það gengi eftir að gengið yrði ákveðið 7% undir meðalgengi í bönkunum síðustu sjö daga og 9% lægra en meðalgengi bréfanna síðustu 30 daga þá gæti farið svo að 15% eignarhlutur ríkisins, 15% af eign almennings í landinu í þessum bönkum yrði seld 350--400 millj. kr. undir markaðsverði, ef ekki meir því verðið er væntanlega á uppleið vegna væntinganna sem æstar eru upp í kringum þetta mál.

Ég verð að segja, herra forseti, að þetta finnst mér alveg kostuleg niðurstaða hjá hinni göfugu einkavæðingarnefnd. Hvaða skilaboð eru þetta og til hvers eiga þessar aðferðir að leiða? Jú, að sjálfsögðu er verið að ýta undir þá hugsun að þetta sé öruggur gróði, fyrir fram gefinn hagnaður og í startinu fái menn þetta á undirverði svo nemi fleiri hundruðum milljóna kr. Rökin fyrir því að selja eign ríkisins á þessu undirverði --- ég kem ekki auga á þau. Mér skilst helst að fram hafi komið hjá einhverjum að þetta væri vegna þess að svo mikil óvissa ríkti um hvernig ætti að fara með málin í framhaldinu. Það er alveg hárrétt. Kannski er þetta út af fyrir sig sanngirnissjónarmið vegna þess að ríkisstjórnin, sem ræður auðvitað þessu máli í gegnum eignarhaldið á bönkunum, fæst ekki til þess að segja nokkurn hlut um það hvað fram undan er. Þá er auðvitað ákveðin óvissa í kringum það hvers virði þessir hlutir verða á komandi missirum.

Ég held t.d. að í tilviki Búnaðarbankans, ef það á að skilja hann eftir hálfgert uppi á flæðiskeri eins og hæstv. landbrh. hefur áhyggjur af, sé fullkomin ástæða til að hafa áhyggjur af því að þar gætu menn verið að kaupa hlut sem færi niður á við á markaðnum á næstu vikum og mánuðum, vegna þess hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa að þessu.

En það er afar sérkennilegt að leggja til að selja þetta á undirverði strax í byrjun. Í ljósi þess að yfir vötnunum svífur sá andi að þetta muni skrúfast upp eins og áður hefur gerst í slíkum tilvikum þá er það enn skrýtnara. Hvernig líta menn út eftir nokkrar vikur ef gengið hækkar svo um 10--15% í framhaldi af þessum aðgerðum, standi þeir frammi fyrir því að hafa selt þetta á margra prósenta undirverði? Mér finnst þetta með ólíkindum, herra forseti, svo ekki sé meira sagt.

Skilmálar og fleira í þeim dúr er auðvitað algjörlega skrifað í skýin. Þingmönnum er ekki ætlað að hafa neitt fast í hendi þegar þeir afgreiða þessar heimildir blankó, eins og áður hefur verið gert, til hæstv. ríkisstjórnar. Svo sjóða menn saman, svona eftir því hvernig hrossakaupin gerast á eyrinni, einhverjar vinnureglur í hvert einstakt skipti. Að þessu stendur hæstv. landbrh. m.a. og er náttúrlega yfirgengilegt að svo vænn drengur skuli láta hafa sig til slíkra verka, sjálfur hagsmunagæslumaður og opinber verndari Búnaðarbankans samanber blaðafréttir. Hann lætur þetta yfir sig ganga, hæstv. landbrh.

Herra forseti. Auðvitað átti að fara þannig í þessi verk að menn settu niður vinnureglur, mótuðu stefnu og hefðu ákveðin markmið í þessum efnum. Þau hefðu þurft að liggja fyrir svo með þau væri ekki hringlað þannig að markmiðin lægju skýr fyrir öllum málsaðilum, almenningi í landinu og hinum heilaga markaði, sem hæstv. ráðherra hefur tekið trú á. Að vísu held ég að hann sé enn þá í þjóðkirkjunni en það er alveg ljóst hvert hans trú stendur. Hún stendur í átt til hins heilaga markaðar og að lúta leiðsögn hans. Ég ætla að hlusta á raddir markaðarins, sagði hæstv. ráðherra fyrr í umræðum um þessi mál og var lotning í röddinni.

Auðvitað eiga sem skýrastar línur að liggja fyrir í þessum efnum. Það er hlálegt fyrir sjálfa markaðssinnana að leggja málin fyrir og fá í einkunn m.a. frá verðbréfafyrirtækjunum að óvissan sem stefnuleysi ríkisstjórnarinnar skapar sé kannski svona 7--9% mínus þegar kemur að því að fara að selja eignarhlut í bönkunum. Það eru rökin fyrir því að láta þetta vaða á svona 350--400 millj. kr. undirverði. Er það hugsjón landbrh. að selja svo að lokum Búnaðarbankann sinn á undirverði? Það er aldeilis reisn yfir því hjá hæstv. landbrh. og fyrrverandi formanni bankaráðs Búnaðarbankans. Mikil ósköp.

Það er að vísu ljótt, herra forseti, að tala svona til hæstv. landbrh. á þessum degi þegar hann hefur skrifað undir samninginn um hrossamiðstöðina sína. Ég veit það. Þar er örugglega glaðst með glöðum af því tilefni. En þetta er dapur dagur í sögu hæstv. landbrh. sem verndara Búnaðarbankans, það er ljóst. Honum er lítill sómi í þeirri frammistöðu allri saman ef eftir gengur. Þá bætir lítið úr fyrir honum forsíðuviðtalið sem hann lét Dag taka við sig í morgun, þar sem hann gengur fram á völlinn sem hinn opinberi verndari Búnaðarbankans. Hygg ég, herra forseti, að þessi dagur muni þó festa á spjöldum sögunnar a.m.k. tvær nafngiftir í þessu bankamáli öllu. Í öðru lagi verndaranafngift hæstv. landbrh. þegar í hlut á Búnaðarbankinn og svo að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hér hefur verið tilnefndur ,,vinnumaður ársins`` vegna verka sinna fyrir hæstv. ríkisstjórn við að moka málum í gegnum efh.- og viðskn. Dugnaður hans á því sviði hefur löngum verið alkunnur. (Gripið fram í: Þetta er sæmdarheiti.) Og er ekkert smásæmdarheiti að vera vinnumaður ríkisstjórnarinnar númer eitt.

[21:45]

Herra forseti. Í þriðja lagi ætlaði ég að minnast á það við hv. þm. Vilhjálm Egilsson að við vonumst til að dugnaður verkamannsins í víngarðinum verði sambærilegur þegar kemur að því að afgreiða frv. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um dreifða eignaraðild að fjármálastofnunum. Og úr því að hv. þm. gat mokað frv. ríkisstjórnarinnar í gegnum nefndina á tveimur, þremur sólarhringum þá ætti ekki að vefjast fyrir honum að afgreiða mál sem nefndin hefur haft margar vikur til að ræða um.

Herra forseti. Mig langar að koma aðeins inn á nokkuð sem ég minntist ekki á í fyrra erindi mínu hér, spurninguna um ráðstöfun söluandvirðis bankanna. Ég hef alltaf gaman af því, herra forseti, þegar menn koma með það sem mikla speki að nú eigi að selja þetta eða hitt, leggja á þennan eða hinn skattinn og svo eigi að ráðstafa því á einn veg eða annan. Menn hafa gengið hér um völlinn og þar á meðal framsóknarmenn, gott ef ekki hæstv. landbrh. hafi látið að þessu liggja á einstökum stöðum á fundum t.d. úti á landi, og sagt að hluta af söluandvirði ríkisbankanna eða annarra ríkisfyrirtækja eigi að ráðstafa sérstaklega í að efla byggð í landinu og landbúnað jafnvel, gera vel við sauðfjárbændur. Er nú mál til komið því að þeir eru að svelta í hel undir hæstv. ríkisstjórn. Hvaða speki er nú þetta? Hvers konar bókhald og hagfræði er nú þetta? Hvað eru sex milljarðar sem fást fyrir sölu á 15% í ríkisviðskiptabönkunum? Jú, fyrir utan að vera 6 þúsund milljónir þá eru það tekjur í ríkissjóð, peningar sem koma í kassann, rúlla inn í kassann uppi á Arnarhóli, nákvæmlega eins og aðrir milljarðar króna sem koma í þann sama kassa. Ég er viss um það að fjmrh. hefur ekki yfirsýn yfir það að halda seðlunum aðgreindum. Hann þekkir ekki í sundur þúsundkallana sem komu inn úr uppgjöri virðisaukaskatts um síðustu eða þarsíðustu mánaðamót, af tekjuskattinum eða sölunni af Fjárfestingarbankanum. Hann getur ekki greint þá frá þúsundköllunum sem eiga að koma inn fyrir áramótin vegna sölunnar á ríkisbönkunum. Mér er ekki kunnugt um að það eigi að fara að deildaskipta ríkissjóði til þess að halda þessum tekjum aðgreindum.

Auðvitað er þetta bara bull, herra forseti, og ekkert annað. Það er verið að rugla fólk í ríminu með svona æfingum. Jú, gott og vel, það koma viðbótartekjur inn í ríkissjóð en þær eru eins og nákvæmlega allar aðrar tekjur þegar þær eru komnar inn í kassann. (JóhS: Seðlabankinn á að gera þetta.) Seðlabankinn? Nú. Er það eitthvað önnur fjárvarsla og á að halda sérstaklega utan um þessa peninga? Á að merkja seðlana? Ég hef aldrei heyrt annað eins. Menn geta auðvitað rætt um að fjárhagur ríkissjóðs blómgist sem þessu nemur en þetta eru bara tekjur í ríkissjóð rétt eins og hvað annað. Það eru engin sérstök efni til að eyrnamerkja eina pólitíska ráðstöfun af þessu fé annarri fremur ef út í það er farið. Þá er verið að drepa hlutunum á dreif.

Ef menn telja ríkissjóð hafa afkomu til að gera betur í byggðamálum, við sauðfjárbændur eða í eitthvað annað þá skulum við líta til heildartekna sem ríkissjóður hefur. Mér er ekki kunnugt um að tekjunum sé haldið þannig flokkuðum þegar í kassann er komið að menn geti bara farið í hann, þekkt í sundur seðlana og sagt: Jú heyrðu, þessi kom inn fyrir Landsbankann, bíddu, þá má setja hann í þetta. Heyrðu, þessi kom inn úr virðisaukaskattinum, þá verðum við að borga laun fyrir hann o.s.frv. Ósköplega er þetta nú barnaleg umræða, herra forseti. Ég held að spurningin sé einfaldlega um það hvaða pólitískur áherslur menn vilja leggja. Ætla menn að selja þessar eignir ríkisins á eina hlið? Af því koma tekjur. Hvernig ætla menn almennt að verja tekjum ríkissjóðs á næsta ári o.s.frv.?

Hitt er svo annað mál að ef menn eru lofandi út um dal og hól, milljarði hér og milljarði þar, þá eiga menn náttúrlega að standa við það. Nema menn eigi sér þá sérstöku hugsjón að gera sjálfa sig að ómerkingum endalaust og ítrekað. Það er athyglisvert, herra forseti, ég hef tekið eftir því og væntanlega fleiri, að það er einhvern veginn þannig með Framsfl. að það er eins og þeir kunni enga tölu nema töluna milljarð. Hún hrýtur ævinlega út úr þeim ef þeir ætla að lofa einhverju fyrir kosningar, þá er það ævinlega milljarður. Það er alveg sama í hvað það er, fíkniefnavarnir, byggðamál eða eitthvað því um líkt, atvinnuuppbygging á landsbyggðinni, milljarður í það. Nú eru menn farnir að spyrja: Hvað varð um þennan eða hinn milljarðinn? Af hverju hefur hann ekki skilað sér? Það hafa orðið miklar rökræður um hvort tiltekinn milljarður í atvinnusköpun á landsbyggðinni hefði skilað sér rétt í gegnum Byggðastofnun eða ekki. Formaður stjórnar Byggðastofnunar lýsti í blaðaviðtölum nú í vikunni eftir hinum dularfulla milljarði sem þar hefði verið lofað.

Herra forseti. Rétt undir lokin væri rétt að minnast á þetta með þensluna og að þessi sala slái á þenslu. Það er ein spekin og önnur meginröksemdin sem ríkisstjórnin smíðaði sér í þessu máli til að selja mönnum það tóbak að þetta yrði að rjúka hér í gegnum þingið, helst í gær, þannig að hægt væri að auglýsa og láta menn skila inn tilboðum 15.--17. desember eins og ég heyrði í kvöldfréttunum að væri búið að ákveða. Þannig er þetta nú, herra forseti. Ríkisstjórnin er búin að gefa það út að þetta verði auglýst og menn geti skilað inn tilboðum dagana 15.--17. desember. Hvað gerðist nú ef þingið tæki sig til og stoppaði málið eða felldi það? Það er greinilega ekki gert ráð fyrir því.

Gjörsamlega án nokkurs minnsta tillits til þess að að nafninu til eigi að heita svo að löggjafarvaldið sé í höndum Alþingis þá er blygðunarlaust sagt: Ríkisstjórnin er búin að ákveða hvernig þetta verður, hvenær málið verður afgreitt, hvenær verður auglýst og hvenær selt og það er ekki til umræðu annað en að það gangi eftir. Gott og vel. Segjum sem svo að þetta gangi nú eftir og segjum að menn selji á undirverði. Það er búið að gylla það alveg sérstaklega fyrir almenningi að þetta eigi að verða jólagjöf og menn eigi að geta glaðst yfir gjöfinni sem þeir fá í viðbót frá ríkisstjórninni, skattfrádrættinum. Svo kemur gjöf númer tvö, að þetta verði bara selt á undirverði. Nokkuð líklegt er að menn hugsi dæmið sem svo: Þetta er bara alveg öruggur gróði, bara gulltryggt og pottþétt. Menn hugsa til fordæmanna frá fyrri útboðum, Búnaðarbanka og Landsbanka og Fjárfestingarbanka og það er ýtt undir það með öllum tiltækum ráðum að þetta sé alveg borðleggjandi, beinn og breiður vegur til gróða að kaupa þessi bréf. Er þá ekki mögulegt að einn og einn maður fari og slái lán? Hugsi sem svo: Nú, ég tek bara lán fyrir þessu. Ég þarf ekki að eiga þetta nema bara í nokkra daga, jafnvel nokkrar vikur. Það er m.a.s. hugsanlegt að menn hreinlega semji við einhvern um að gera þetta fyrir sig, láni þeim kennitölu sína, eins og sagt hefur verið. Þá fer nú að koma smárispa á þessa glansmynd með að slá á þensluna. Þá gæti nefnilega allt í einu komið upp sú hlið að þetta yrði frekar, ef eitthvað er, til að ýta undir útlánaþensluna í landinu. Talsvert fé yrði tekið að láni til þess að kaupa þessa pappíra og þeir yrðu svo keyptir á þessu margfræga undirverði.

Segjum svo að gengið fari upp, a.m.k. í öðrum bankanum, þeim sem miklar væntingar eru um að renni inn í stórsameiningu á næstu dögum. Þá mun það freista margra, og ekki síst þeira sem tóku lán eða þurftu að þjarma að sér til að eiga fyrir útborguninni, að innleysa hagnaðinn strax. Hvenær gæti það gerst? Það gæti t.d. gerst, herra forseti, þegar krítarkortatímabilinu yfir jólin lýkur. Þá mun stundum lækka í pyngjunni á allmörgum íslenskum heimilum þar sem fjárráðin eru kannski ekkert óskapleg, hjá þrautpíndum meðaljóninum sem er að borga einhverja skatta og hefur á sér tekjutengingarnar á fullu o.s.frv. Sá reynir kannski að harka af sér að taka þátt í veislunni af því að það er búið að auglýsa tvöfalda gjöf í fjölmiðlum, skattfrádrátt og undirverð. Svo fær hann VISA-reikningana í hausinn í febrúar og þá innleysir hann hagnaðinn sem kannski er svolítill. Hefur fé þá verið tekið úr umferð? Nei. Fé í umferð hefur verið aukið. Kannski hefur eitthvert fé horfið úr umferð rétt yfir blááramótin en svo er það komið í umferð á nýjan leik og jafnvel aukið fé í umferð strax á nýju ári.

Herra forseti. Ég held að það verði að vara mjög við öllum þessum æfingum. Það er verið að ala upp þann hugsunarhátt í landinu að þetta sé sjálfvirk leið til hagnaðar. Það að kaupa hlutafé sé bara sjálfvirk gróðaaðferð og tiltölulega örugg. Af hverju er þetta ekki gott, herra forseti? Jú, það er ekki gott vegna þess að þetta mun ekki ganga svona endalaust. Það er eins víst og tvisvar tveir eru fjórir í þessu efni að það sem fer upp vill koma niður aftur. Það er augljóst að það munu ekki allir alltaf græða sem veðja á að kaupa hlutabréf á Íslandi. Það hefur hvergi gerst í sögunni, þvert á móti sýnir sagan að mörg stór frávik eru frá því og ýmsir hafa tapað aleigunni og jafnvel heil þjóðfélög farið illa út úr því að veðja á þá hluti.

Í raun, herra forseti, líkja margir hagfræðingar, ekki bara hér á Íslandi þar sem sú umræða hefur nú verið lítil enn þá, en hagfræðingar á alþjóðavettvangi líkja ástandinu núna við blöðru. Það eru skrifaðar lærðar greinar í tímaritum um efnahagsmál og blöðum, sem ræðumaður af undarlegum áhuga á þeim efnum les stundum, um blöðruáhrifin á hlutabréfamarkaðnum, t.d. í Bandaríkjunum. Flestir málsmetandi hagfræðingar eru þar sammála um að í raun og veru séu gengishækkanirnar á undanförnum missirum algjörlega óraunhæfar. Menn greinir á um hvort yfirverðið á bandarískum hlutabréfamarkaði sé 10%, 15--20% eða jafnvel upp í 40% eins og sprenglærðir hagfræðingar og jafnvel nóbelsverðlaunahafar í hagfræði frá fyrri tíð hafa haldið fram.

Þeir sem fylgst hafa með umræðum um þessi mál vita að t.d. þegar efnahagskreppan gekk yfir Asíu varð mikill óróleiki í kauphöllum vestanhafs og í Evrópu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að allir vita að ástandið er í raun mjög óstöðugt. Þar gera menn sér grein fyrir því að ef gengi fer langt fram úr því sem raunverulegar innstæðar eru fyrir á þessum mörkuðum þá endar það illa. Spurningin er bara hvenær, hvenær skellurinn kemur, hvenær svörtu dagarnir koma. Þeir hafa af undarlegum ástæðum oft haft tilhneigingu til að koma á haustin, mjög oft í október. Við erum að vísu sloppin í gegnum október á Íslandi. Ég, herra forseti, ætla ekki að fara að halda hér úti miklum hræðsluáróðri. Það er ekki heppilegt að stjórnmálamenn geri það. Ef eitthvað er á hlutverk manna að vera að reyna að róa menn en hitt, er mér sagt. Ég get þó ekki annað sagt en að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sýni mörg einkenni þess að hann sé orðinn býsna uppspenntur og það sé hluti af þenslunni, af ofhituninni í hagkerfinu.

Það er býsna sérkennilegt, herra forseti, að ráðherrar sem sýsla með efnahagsmál og viðskipti skuli ganga í verkin þannig að það ýti frekar undir en hitt, en það gera þessar kúnstir í kringum brunaútsöluna á eignarhlut ríkisins í bönkunum, það að rjúka til og gefa sér í það nokkra sólarhringa að fíra út eignarhlut upp á 6 eða 7 milljarða kr., segja fyrir fram að hann verði látinn fara á undirverði og tengja það beint við skattafsláttinn til að reyna að lokka fleiri til kaupanna. Hér er beinlínis verið gera út á að ríkið borgi með þessu í formi skattafsláttar. Þetta ætlar ríkisstjórnin að gera í stað þess að reyna, ætli menn að selja þennan hluta, að losa hann í rólegheitum, t.d. á fyrri hluta næsta árs, og uppfylla þó hin merku skilyrði Verðbréfaþingsins sem menn eru nú svona óskaplega bundnir af, að 25% verði í eigu annarra en ríkisins fyrir mitt næsta ár.

Herra forseti. Ég náði mér í gamalkunnuga bók svona rétt til þess að rifja pínulítið upp í henni og blaða aðeins í henni. Ég kunni bókina sæmilega á sinni tíð og fór nokkuð vel í gegnum hana. Það er skýrsla samkepnnisráðs um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Þetta er ekki mjög gamalt rit, skýrslan kom á borð manna í desember 1994. Ég held að fróðlegt væri fyrir menn að fara aðeins yfir hana og rifja upp, t.d. það sem þar var sagt um fákeppniseinkennin í íslensku efnahags- og atvinnulífi, um stjórnunar- og eignatengsl, um markaðsleiðsögn eða fákeppni sem væru algengar markaðsaðgerðir. Hér væru eitt til fjögur fyrirtæki iðulega leiðandi á markaði.

[22:00]

Nú stefnir greinilega í að fjármálamarkaðurinn, bankaheimurinn verði eitt af þessum sviðum. Auðvitað verða þar stórar breytingar á ef stærðarhlutföll raskast og hlutir gerast eins og boðað er jafnvel að verði með sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka innan skamms. Og skyldi nú blaðamaður Morgunblaðsins reynast sannspár, sá sem í blaðagrein og úttekt um helgina spáði því að kaupin mundu gerast þannig á eyrinni að þetta yrði sameining Landsbanka og Íslandsbanka, að æfingarnar m.a. núna séu til þess að drífa niður eignarhlut ríkisins þannig að það verði frá byrjun minnihlutaaðili í hinum stóra sameinaða Íslands--Landsbanka, og að til þess að skilja Búnaðarbankann ekki alveg eftir á flæðiskeri þá fái hann VÍS? Skyldi þetta eiga eftir að reynast rétt? Glöggur er hann þá þessi blaðamaður ef hann sér þetta fyrir áður en ríkisstjórninni hefur dottið nokkuð í hug í þessum efnum sjálfri, því eins og kunnugt er getur hæstv. viðskrh. ekki frætt okkur hér um nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Hann veit ekki neitt því að hann á eftir að leggjast á jörðina og hlusta á raddir markaðarins, svona eins og indjánarnir hlustuðu eftir hófatakinu forðum með því að hlera bylgjuhreyfingar jarðarinnar. Það yrði nú gaman að fá að vera vitni að því þegar hæstv. viðskrh. lýtur að jörðu til að hlera raddir markaðarins eins og þær berast honum eftir jörðinni.

Herra forseti. Það verður fróðlegt að sjá ef þetta gengur allt saman eftir. Og það verður líka fróðlegt að sjá og fylgjast með því hvernig landslagið verður í þessum efnum innan kannski tveggja til fjögurra ára. Verður viðskiptasviðið --- sem hingað til hefur að vísu verið undir sterkum áhrifum ríkisins og þar af leiðandi kannski dálítið sérstakt í samkeppnislegu tilliti séð --- orðið að dæmigerðu fákeppnissviði þar sem tvær eða þrjár blokkir fjármagnsafla og fyrirtækjahópa skipta kökunni með sér? Verður það orðið fákeppnis-markaðsleiðsagnarumhverfi sambærilegt við það sem Samkeppnisstofnun var að rýna inn í á árinu 1994 þar sem menn deila kökunni einhvern veginn þannig?

Herra forseti. Við skulum bíða og sjá. En eitt er víst og það er að ég hef ekki sérstakan áhuga á því að selja heimildir af þessu tagi í hendur hæstv. núv. ríkisstjórnar og hæstv. viðskrh. eins og með þá hluti hefur verið farið að undanförnu. Ég styð þar af leiðandi að sjálfsögðu þá frávísunartillögu sem fram kemur í nál. 2. minni hluta og mun leggjast gegn þessu frv. komi það til efnislegrar afgreiðslu.