Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 22:38:31 (2660)

1999-12-09 22:38:31# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[22:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði talið heppilegra að þetta frv. hefði ekki komið hér til efnislegar afgreiðslu og Alþingi hefði fengið meiri tíma til þess að skoða þessi mál og önnur frumvörp og tillögur sem hér liggja fyrir þinginu og eru þessu máli tengdar. Það er í sjálfu sér mjög slæm afgreiðsla og röð á hlutunum að efnislegar tillögur sem ættu að koma til afgreiðslu á undan þeirri heimild sem hér á að fara fram á handa ríkisstjórninni til að selja hlut í bönkunum skuli ekki fá hér umfjöllun og afgreiðslu fyrst.

En úr því að á það er knúið að þetta komi til afgreiðslu þá er mér ekkert að vanbúnaði að greiða atkvæði gegn því. Ég er ósamþykkur því að hæstv. ríkisstjórn fái þessa heimild til að ráðskast með eignarhlut almennings í bönkunum. Henni er ekki treystandi fyrir því og það liggur þvert á móti í farvatninu að þessum hlutum verði ekki skynsamlega ráðstafað af hæstv. ríkisstjórn. Ég er því málinu andvígur, herra forseti.