Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 10:50:58 (2662)

1999-12-10 10:50:58# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[10:50]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. gerði nokkuð úr því sem stendur í því lagafrv. sem var lagt fyrir varðandi þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf þegar staðið var fyrst að formbreytingu ríkisviðskiptabankanna. Þar kemur skýrt fram að fyrstu fjögur rekstrarárin standi ekki til að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum. En jafnframt voru ákvæði um að viðskrh. hafi heimild til að auka hlutafé í bönkunum sem næmi allt að 35% þannig að 35% væru í eigu annarra en ríkisins.

Þessi fyrirheit tóku til tveggja meginþátta enda er skrifað mjög skýrt inn í greinargerðina með frv. sem varð síðan að lögum. Í fyrsta lagi tók það til þess að við töldum rétt að gefa báðum bönkunum tíma og tækifæri til þess að fóta sig á markaði í breyttu rekstrarumhverfi. Hitt atriðið var að það var ótti hjá starfsmönnum beggja fyrirtækjanna við þessa formbreytingu og nú skulum við fara yfir þessi tvö atriði.

Í fyrsta lagi varðandi það að bankarnir þurfi lengri tíma til að fóta sig á markaði við breyttar aðstæður þegar ríkisábyrgð hefur verið tekin af þeim. Ekki leið nema eitt ár þegar Landsbankinn tók lán erlendis og niðurstaðan varð sú að hann fékk hagstæðari kjör á lántöku sinni erlendis eftir að ríkisábyrgðin var tekin af bankanum en áður. Með öðrum orðum, það kom í ljós að bankinn þurfti ekki þann tíma sem talið var í upphafi til að fóta sig á markaðnum við breyttar aðstæður. Eða öllu heldur, hann var betur settur án ríkisábyrgðarinnar en með ríkisábyrgðinni. Þetta veit ég að hv. þm. veit vegna þess að þetta hefur komið fram, m.a. í efh.- og viðskn. þingsins.

Hitt atriðið snýr að starfsfólkinu. Það er alveg rétt að þar var ákveðinn ótti. Það kom margoft fram og birtist m.a. í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur í gær þegar hún ræddi um starfsmenn bankanna sem komu á fund nefndarinnar, fulltrúar Sambands ísl. bankamanna og ég held að með þeim hafi verið formenn starfsmannafélaga beggja bankanna. Það kom fram á fundi efh.- og viðskn. um þetta mál að einstaklega gott samráð og samstarf hefði verið haft við starfsmannafélögin við formbreytinguna og fyrir það hefur sérstaklega verið þakkað með bréfum til viðskrn. Það hefur því verið farið að óskum starfsmannanna við þessa framkvæmd. Þegar það lá fyrir að við stóðum frammi fyrir því að uppfylla það skilyrði sem við gáfum varðandi Verðbréfaþingið að við ætluðum að vera með eignarhlut ríkisins minni en 85%, að eignarhlutur annarra en ríkisins yrði 25% fyrir 1. júní á þessu ári þá stóðu menn frammi fyrir tveimur leiðum. Í fyrsta lagi að halda áfram að auka hlutafé sem hægt var að gefa án þess að bera það neitt fyrir þingið. Það töldum við óskynsamlega leið í ljósi þess að hér var þensla á markaði. Það hefði gefið bönkunum tækifæri til að stækka, auka efnahag sinn og þurfa að fara í aukna útlánastarfsemi, hefði klárt verið til þess að auka á þensluna. Þess vegna veljum við þá leið að selja eignarhlutinn. Niðurstaðan er sú sama þegar upp er staðið. En á móti því kemur og hefur verið bent á hér að það voru fyrirheit í frv. Þess vegna hafði ég samband við alla þá aðila sem fyrirheitin voru gefin gagnvart, bankana, starfsmenn beggja starfsmannafélaganna, stjórnir þeirra og líka Samband ísl. bankamanna og fór yfir þessa stöðu, gerði þeim grein fyrir hverju menn stæðu frammi fyrir. Niðurstaðan er sú að starfsmenn þessara fyrirtækja gera ekki athugasemdir við þessa breytingu þannig að ég lít svo á að um þetta sé samkomulag milli aðila. Þeir segja og sögðu hiklaust á þeim fundum sem ég átti með þeim: Þetta er skynsamlegri leið í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífinu. Með öðrum orðum: Starfsmenn þessara fyrirtækja hafa betri skilning á þessum hlutum en en þeir þingmenn sem harðast tala gegn þessu. Ég hygg að gerðar hafi verið margar tilraunir til að æsa þennan hóp upp gegn þeirri leið sem hér er farin. Það hefur sem betur fer ekki tekist.

Eftir stendur að fyrirheitin voru gefin en náðst hefur samkomulag við þá aðila um þessa framkvæmd sem hér er með því að þeir segja: Við gerum ekki athugasemdir við þetta eins og þetta er lagt fyrir. Svo geta hv. þingmenn vinstri sósíalista á þingi gert eins mikið úr þessu máli og reynt að gera eins mikið úr því og tortryggilegt og nokkur kostur er. (SJS: Það er auðvelt verk.) Það er auðvelt verk þegar menn fara ekki með rétt mál, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, herra forseti, hefur tamið sér í gegnum tíðina.

Í öðru lagi er rætt um þær stóru einingar sem verða til á þessum markaði og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði mikið úr svari mínu í gær sem birtist í útvarpsfréttum í morgun. Það liggur alveg fyrir og hefur alltaf legið fyrir að það þarf ekki neitt ráðuneyti til til að benda Samkeppnisstofnun á að það sé að verða og ef það gerist að það verði til stórar einingar á þessum markaði, að það þurfi að skoða hvaða áhrif það hafi á samkeppni. Þetta gerist á matvörumarkaðnum, þetta gerist á öllum sviðum atvinnulífsins þannig að ég sagði, og ég vona að hv. þm. geti lesið ræðu mína frá því í gær um það og ef það hefur ekki verið nógu skýrt í henni vil ég undirstrika það hér, ég tel að það sé alveg sama hvort komi til að Búnaðarbankinn og Landsbankinn verði sameinaðir eins og ég heyri að hv. þm. Ögmundur Jónasson mælir fyrir um eða hvort Íslandsbanki og Landsbankinn yrðu sameinaðir eða Íslandsbanki og Búnaðarbanki, þá yrði um svo stóra sameiningu að ræða á fjármálamarkaðnum að það væri útilokað annað en Samkeppnisstofnun léti það til sín taka með því að skoða hvaða áhrif það hefði á markaðinn.

Niðurstaðan er sú sama og það heyri ég að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, herra forseti, erum sammála um að nauðsynlegt sé að fara út í hagræðingaraðgerðir á þessum markaði. Hagræðingaraðgerðirnar munu m.a. leiða til þess að menn leita leiða til að spara í rekstri. Það getur þýtt þegar fram líða stundir að það verði einhver fækkun starfsmanna. Það getur þýtt að það verði einhver fækkun útibúa. Ég hygg hins vegar að sú fækkun útibúa verði fyrst og fremst á þessu svæði alveg sama af hvaða sameiningu verður, hvort sem það verður Íslandsbanki og Landsbanki, Búnaðarbanki og Landsbanki eða Íslandsbanki og Búnaðarbanki. Þetta mun leiða til þess. En ég heyri að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson erum sammála um að þessu þarf að ná fram.

Við þurfum þá líka að bera ábyrgð á því til hvers það muni leiða m.a. Það er alveg sama hvaða sameining mun eiga sér stað í þessu tilfelli. Niðurstaðan verður sú að leitað verður hagræðingar. En sú hagræðing skilar sér í því að fólk og fyrirtæki í landinu munu fá ódýrari fjármálaþjónustu en menn búa við í dag og það hlýtur að vera aðalmarkmiðið að keppa að. En ég undirstrika að það er alveg sama hver af þessum stóru sameiningum er, sem hefur verið stillt upp, ef hún kæmi einhvern tíma til skoðunar og yrði einhvern tíma að veruleika, mundi það leiða til þess að það yrði að skoða hvaða áhrif það hefði á markaðinn. En menn geta hins vegar ekki skoðað það bara í því ljósi hvaða áhrif það hefur á íslenska markaðinn eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti mjög rækilega á í gær. Við búum í alþjóðlegu umhverfi hvað þetta snertir. Við búum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði þannig að það þarf að horfa aðeins út fyrir landsteinana í þeim efnum hvernig fólk og fyrirtæki í landinu munu geta aflað sér fjármálaþjónustu og með hvaða kjörum þannig að það verður að skoða það í alþjóðlegu samhengi hver áhrifin yrðu af slíkri sameiningu.

Tveir hv. þm. eða öllu heldur allir hv. þm. Frjálslynda flokksins sem sitja á þingi nú, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og hv. þm. Gunnar Ingi Gunnarsson, hafa lagt fram till. til þál., ekki lagafrv. og það er munur á því, til skoðunar á því að metið verði hvaða áhrif það muni hafa og hvaða hagkvæmni það muni leiða af sér að fara út í sameiningu þessara fyrirtækja. Ég tek undir tillöguna. Mér finnst hún vera mjög skynsamleg. Það er hins vegar farið að vinna að slíkri tillögugerð og slíkri skýrslugerð í viðskrn. og hefur staðið í langan tíma, allt frá því að hlutafélagavæðing bankanna fór fram. Í fljótu bragði er niðurstaðan sú, án þess að það sé búið, að mönnum sýnist að af öllum slíkum stórum sameiningum muni hljótast mikil hagræðing sem leiði til þess sem við viljum keppa að, lægri vaxta fyrir fólkið í landinu.

[11:00]

Hins vegar hlýst af þessu mismunandi mikil hagræðing og ég tel sjálfsagt að það verði skoðað ofan í kjölinn eins og tillaga hv. þingmanna Frjálslynda flokksins gengur út á. Ég ætla hins vegar ekki að beita mér með boði að ofan fyrir einhverri ákveðinni sameiningu. Ég vil skoða það og þá þarf að meta marga hluti saman eins og fram kom hér í gær, þ.e. hagkvæmnina, áhrif á markaði til lengri tíma litið, áhrif á neytendur og áhrif á íslenskan fjármagnsmarkað, þá í alþjóðlegu samhengi. Þessa hluti þarf alla að skoða og síðast en ekki síst þarf að skoða hvaða áhrif slík sameining, hver sem hún yrði, hefði á starfsmenn viðkomandi fyrirtækja.

Rétt er að ég tel að Íslandsbanka hafi tekist afskaplega vel að leiða sameiningu þriggja banka á sínum tíma, ekki síst með það í huga að gætt var mjög vel að hagsmunum starfsmanna við þá sameiningu. Komi einhvern tímann til þess að farið verði í sameiningu af því tagi sem hér hafa verið dregnar upp myndir af þá tel ég að menn þurfi, hver sem hún yrði, að hafa að leiðarljósi að starfsmenn njóti þar sérstakrar athygli. Ég veit að um það erum við hv. þm. Ögmundur Jónasson nákvæmleg sammála. Við þekkjum báðar tillögurnar sem hér hafa verið kynntar og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lýst sérstökum stuðningi við aðra þeirra, þ.e. sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka. Ég hef ekki gert það. Hv. þm. hefur gert það. Hann verður líka að vita til hvers það muni leiða og hvaða áhrif það muni hafa á starfsmennina ef þeir bankar væru sameinaðir. Ég legg áherslu á að sérstaklega verði gætt að hagsmunum starfsfólksins.

Könnun á slíkri hagkvæmni er í gangi. Hún er í gangi og í fullu samræmi við tillögu hv. þingmanna Frjálslyndra flokksins. Ég tel eðlilegt að hún verði tekin hér til skoðunar.

Í gær var mjög deilt á hve mikill afsláttur væri gefinn af bréfum, þ.e. afsláttinn frá meðalgengi bréfanna í síðasta mánuði í báðum bönkunum til þess skráða gengis í útboðinu sem einkavæðingarnefndin gerði tillögur um og ég hef fallist á. Menn sögðu að verið væri að gefa allt of mikinn afslátt. Ég á von á því að hv. þm. hafi hlustað á fréttirnar í morgun klukkan átta. Hvað kom fram þar? Eitt stærsta verðbréfafyrirtækið í landinu treysti sér því miður ekki til að mæla með kaupum í bönkunum af því afslátturinn væri ekki nógu mikill. (JóhS: Þeir vilja græða meira.) Þeir vilja ekki græða meira. Þeir vilja að fólkið sem ætlar að kaupa í þessum fyrirtækjum geti fengið meiri ábata af þessum kaupum.

Með því að veita afsláttinn og byggja þetta upp með áskriftarfyrirkomulagi erum við að hvetja alla þjóðina til að vera þátttakandi í þessum hlutabréfakaupum. Við erum að hvetja þjóðina til að vera þátttakandi í því með langtímafjárfestingu í þessum fjármálafyrirtækjum sem hún á. (ÖJ: En öll þjóðin á þau núna.) Öll þjóðin á þau hlutabréf sem viðskrh. fer með. (ÖJ: Þú ættir að passa upp á hennar hagsmuni.) Það er einmitt það sem er verið að gera, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að passa upp á að þjóðin fái sannvirði fyrir þessar eignir. (ÖJ: Hún er að selja sjálfri sér þær, eða hluta hennar, efnafólkinu.)

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði síðan um hver framtíðin væri í þessu. Ég er margoft búinn að svara því úr þessum ræðustól. Fyrsta skrefið í þessu er sú aðgerð sem við erum hér með í gangi, að uppfylla skilyrði sem menn hafa undirgengist varðandi reglur Verðbréfaþingsins. Síðan hef ég sagt: Ég tel að það liggi ekkert á frekari sölu. Ég hef margoft sagt að ekkert liggi á frekari sölu hlutabréfa eða frekari einkavæðingu þessara eignarhluta ríkisins. (ÖJ: Það er þetta sem hefur verið rifjað upp.) Þetta hefur verið rifjað upp. Hv. þm. hefur kannski ekki heyrt það fyrr en nú en ég tel að það liggi ekkert á. (ÖJ: Við höfum heyrt þetta áður.)

Forgangsverkefnið er að mínu viti er fara út í hagræðingaraðgerðir á þessum markaði. Ég tel það vera forgangsverkefnið og það eigi menn að skoða sérstaklega, ekki síst í ljósi þeirra miklu umræðna sem núna eru í gangi. Þar eigum við að skoða alla kosti. Þar eigum við ekki að gefa okkur fyrir fram að neinn einn kostur sé betri en annar, eins og hv. þm. hefur gert. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur, og eftir því sem ég veit best þá gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon það hér líka á sínum tíma, mælt með sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka. Hvorugur þessara tveggja þingmanna lét fylgja tillögur um sérstaka könnun á því hvaða hagkvæmni væri falin í slíku. Það átti bara að gera blindandi án þess að þar ætti fara fram eitthvert mat.

En ég spyr þessa tvo ágætu hv. þm.: Hvernig á að tryggja hagsmuni starfsmanna í slíkri sameiningu?

Aðalatriðið er að við verðum að ná fram hagræðingu á markaðnum í þeim megintilgangi að lækka kostnað við fjármálaþjónustu á Íslandi þannig að fólkið í landinu njóti þess ábata.