Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:09:11 (2664)

1999-12-10 11:09:11# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:09]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er snillingur í að hagræða málum þannig að sannleikurinn komi ekki alltaf í ljós. Auðvitað veit hv. þm. það að fyrirheitin sneru að tveimur þáttum. Það kom reyndar mjög skýrt fram, annars vegar sneru þau að bönkunum og hins vegar að starfsfólki bankanna.

Ef hv. þm. hefði tekist að æsa upp mikla andstöðu við þetta mál í samfélaginu og fá starfsmennina í háværar mótmælagöngur gegn þessu frv. þá hefði þetta fyrirheit ekki snúið að þjóðinni eins og hv. þm. er að túlka nú. Það hefði beinlínis snúið að starfsmönnunum. Hins vegar hefur ekki tekist að æsa menn upp vegna þess að menn eru tilbúnir að sætta sig við þetta. Fullt samráð var haft við starfsmennina og stofnanirnar, við þá sem fengu þessi fyrirheit. Það var undirstrikað af þeim sem mættu til fundar við efh.- og viðskn. hversu gott samráð og samstarf hafi alla tíð verið milli viðskrn. og þessara hópa við alla framkvæmd málsins. Þar hefur engum verið stillt upp við vegg. Það eru hrein ósannindi.