Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:12:36 (2666)

1999-12-10 11:12:36# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Aldrei varð ég var við að starfsmenn beggja þessara fyrirtækja gengju ófúsir til samstarfsins. Strax í upphafi þegar undirbúningur þessa máls hófst átti ég fundi með fulltrúum beggja starfsmannafélaga bankanna, með fulltrúum Sambands ísl. bankamanna. Á þeim fundum lagði ég áherslu á að ég vildi eiga gott samstarf. Ég sagði hins vegar: Það gæti vel farið svo að á einhverjum stigum málsins skildu leiðir, að menn gætu einfaldlega ekki starfað saman vegna þess að það næðist ekki sátt um hagsmuni og viðhorf annars vegar starfsmannanna og hins vegar ríkisins sem ætti þessi fyrirtæki, en hagsmunir ríkisins væru meiri en hagsmunir starfsmannanna. (ÖJ: Og þjóðarinnar.)

Niðurstaðan er sú að leiðir hafa aldrei skilið. Þetta ítrekaði ég á fundi hér á mánudaginn fyrir um tíu dögum síðan þegar ég kynnti þessa breytingu fyrir starfsmönnunum. Niðurstaðan er sú að leiðir hafa aldrei skilið, hagsmunirnir hafa farið saman og við höfum lagt á það áherslu.

Það er ekki að ástæðulausu að formaður Sambands ísl. bankamanna undirstrikar í mæltu og rituðu máli og á fundum efh.- og viðskn. hversu gott þetta samstarf hafi verið. Ég tek undir það að samstarfið hefur verið einstaklega gott og málefnalegt af hálfu Sambands ísl. bankamanna og starfsmannafélaga beggja bankanna. Starfsfólkið og Samband ísl. bankamanna hefur séð að hagsmunum starfsfólksins er betur fyrir komið með þessu en áður og það er meginniðurstaðan. (ÖJ: Þetta er rangt.)

Það kann vel að vera, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að starfsmönnunum finnist hag sínum betur fyrir komið ef bankarnir verði að fullu einkabankar fremur en þeir séu í ríkisrekstri. Það kann vel að vera að svo sé.