Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:16:15 (2668)

1999-12-10 11:16:15# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki til þess að neinir slíkir samningar hafi verið gerðir. Ég ítreka það enn og aftur að sá sem fer með eignarhlut ríkisins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, fyrir hönd þjóðarinnar í þessu, hefur enga slíka samninga gert.

Og það var undirstrikað í fréttum í morgun af bankastjóra Landsbankans að engar slíkar viðræður séu í gangi. Það er hins vegar útilokað segja til um hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum efnum. Ég sagði það í gær að þegar Landsbankinn keypti Brunabótafélag Íslands, eignarhlut Brunabótafélags Íslands í Vátryggingafélaginu þá hafði ég sem viðskrh. ekki hugmynd um að slík kaup hefðu farið fram fyrr en þau voru gerð.

Það getur því vel verið að einhverjar slíkar viðræður, sem þó er neitað af hálfu þeirra aðila sem eiga að taka þátt í slíkum viðræðum, séu í gangi, en ég hef ekki trú á því vegna þess að því hefur verið neitað. Og ég hef sagt að ríkisstjórnin ætlar ekki að hafa frumkvæði að slíkum viðræðum. En við munum skoða, og það undirstirka ég, alla kosti þar og kannski fer það svo að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson eigum kannski alveg samleið þegar upp er staðið í því að sameina Búnaðarbankann og Landsbankann. Það kann vel að vera að svo fari.

En ég vil skoða alla þætti í þeirri hagræðingu sem þar er fram undan. Ég er tilbúinn til að skoða hagræðinguna sem gæti hlotist af sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka. En ríkisstjórnin sem slík ætlar ekki að draga upp og knýja á gagnvart þessum aðilum að eitthvað slíkt gerist. Þau svör eiga að koma frá markaðnum eins og ég hef margoft ítrekað hér.