Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:41:33 (2676)

1999-12-10 11:41:33# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel að umræðan sem hér hefur farið fram um sölu á hlutafé í Búnaðarbanka og Landsbanka hafi greinilega leitt í ljós að við erum að flýta okkur um of í viðamiklu máli. Ég tel að sú tillaga sem við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt fram, um að málið verði kannað betur, sé mjög rökrétt í þeirri stöðu sem uppi er og ég hef tekið eftir því að hæstv. viðskrh. hefur tekið undir hana sem skynsamlega tillögu þó svo að málið um að selja 15% í hvorum bankanum um sig verði afgreitt.

Ég vona hins vegar að þau orð sem höfð hafa verið uppi um tillögu okkar verði til þess að menn fallist á hana þegar hún verður borin upp og að slík könnun fari fram og að hagsmunir fólksins í landinu, sem á þessar bankastofnanir, og starfsmanna þeirra verði hafðir að leiðarljósi.