Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:48:36 (2681)

1999-12-10 11:48:36# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Myndin er að skýrast hvernig helmingaskiptaflokkarnir ætla að möndla með verðmætan eignarhlut og einstakar eignir þjóðarinnar í bönkunum og skiptast á þeim eins og leikföngum núna fyrir jólin. Allur umbúnaður þessa máls af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, skortur á upplýsingum og fleira í þeim dúr er mjög ámælisverður.

Mig undrar satt best að segja, herra forseti, að ekki skuli hafa komið fram meiri andstaða við þetta mál, t.d. frá þeim hv. þm. Sjálfstfl. sem alltaf eru með munninn fullan af tali um frjálsa samkeppni. Það eru einnig vonbrigði að mikill meiri hluti þingmanna Samfylkingarinnar, ég hygg reyndar allir nema tveir eða þrír þingmenn, þar sem eru nefndarmenn Samfylkingarinnar í hv. efh.- og viðskn. og kannski einn til, skuli styðja þetta mál. Reynist þetta undanfari þeirra hrossakaupa í bankaheiminum, sem margt bendir til, þá vil ég a.m.k. ekki bera ábyrgð á því. Ég er andvígur þessu máli og ég segi nei.