Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 14:13:47 (2689)

1999-12-10 14:13:47# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi grundvallarspurninguna þá vildi ég spyrja hv. þm. hvort ekki væri eðlilegra að ráðuneytin töluðu við allt þetta fólk og kæmu með ramma til fjárln. sem færi yfir hann og samþykkti svo eða hafnaði.

Í öðru lagi varðandi hrossin. Nú er það svo að maður hefur heyrt að ekki sé allt talið fram til skatts í þeirri grein. Er ekki eðlilegt að menn fari þá telja fram til skatts öll þessi hross þegar á að fara að styrkja þau svona? Og er gert ráð fyrir stórauknum tekjum í fjárlagafrv. vegna þess?

Herra forseti. Hér stendur að framlag verði veitt með því skilyrði að stjórnendur stofananna --- þetta er varðandi sjúkrastofnanir --- geri samning við heilbrrn. um að rekstur þeirra verði innan fjárheimilda o.s.frv. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir því að fjárveitingin verði felld niður.

Hvað gerist ef menn gera hvorugt, ef þeir fara fram úr og gera engan samning eins og hingað til, hvað þá? Fæ ég að heyra að það eigi að reka viðkomandi? (Gripið fram í: Ráðherrann.) Eða viðkomandi yfirmann stofnunar.

Herra forseti. Og út af þessu smotteríi þá langar mig endilega til að lesa eina smágrein. Hún er um hund. Þetta er í greinargerð með brtt. á hinu háa Alþingi.

,,Unnt verður að nota hundinn til sérstakra verkefna hjá mismunandi embættum en ríkislögreglustjóri skipuleggur notkun fíkniefnaleitarhunda.``

Húrra.