Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:18:23 (2695)

1999-12-10 15:18:23# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að endurskoða þarf afstöðu okkar til tímasetningar fjáraukalaga og koma á enn betri samskiptum við framkvæmdarvaldið í því efni varðandi þær ákvarðanir sem teknar eru um að sækja um aukafjárveitingar. Hins vegar endurtek ég það varðandi reiknilíkönin og upplýsingagjöfina að við í fjárln. fáum til okkar miklar beiðnir utan úr samfélaginu til flókinna verkefna, til stórra stofnana og við þurfum að hafa sem gleggstar upplýsingar um hvaða þjónustu þessar stofnanir veita, hvaða samningar eru við þær og hvað það kosti sem þar er verið að vinna til þess að við getum reist okkar fjárveitingar á sem traustustum grunni. Um það er ég eingöngu að hugsa í þessu sambandi og það er mjög vel að þessi umræða er uppi um grundvallaratriði í okkar starfi. Ég virði hv. þm. fyrir að brjóta upp á þessu og taka um þetta málefnalega umræðu. Á því þurfum við auðvitað að halda að reyna að bæta aðferðir okkar við skiptingu hinna miklu fjármuna sem við útdeilum. Við útdeilum samkvæmt tillögum framkvæmdarvaldsins á stundum, en auðvitað er fjárveitingavaldið hjá Alþingi að lokum.