Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:42:31 (2700)

1999-12-10 15:42:31# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af því ég sé prest sitja notalega hér út í sal, þá liggur við að ég taki mér í munn þessi orð ,,mikil er trú þín kona``. Skerpa lög, kalla eftir upplýsingum, fá Ríkisendurskoðun í lið --- og hvað svo? Hvað á svo að gera? Höfum við ekki fengið Ríkisendurskoðun í lið, höfum við ekki fengið upplýsingar, höfum við ekki líka skerpt lög um ábyrgð forstöðumanna stofnana með fjárreiðulögunum frá 1997?

Herra forseti. Staðreyndin er sú að upplýsingarnar lágu fyrir, þær lágu fyrir í maí. Það hefur komið fram á fundi sem ég og hv. þm. sátum með hæstv. heilbrrh. Hún vissi til þess í maí að hátt í hundrað heilbrigðisstofnanir voru að keyra langt fram úr fjárlögum eins og hæstv. ráðherra sagði á þeim tíma. Allt þetta lá fyrir. Ég óttast, herra forseti, að við séum ekki að taka nægilega fast á þessu máli. Hér er um að ræða vanda sem er ekkert prívatvandi fjárln., þetta er vandi okkar allra. Okkur er treyst til að fara með fé skattborgaranna og við eigum að gera það vel. Þetta er versti gallinn á þeim frv. um fjárlög ríkisins sem hérna liggja fyrir og við getum ekki skilið við þetta mál nema við vitum nákvæmlega hvað á að grípa til bragðs. Stefnan er auðvitað mörkuð af meiri hlutanum eins og vera ber. En mér finnst að þarna skorti talsvert upp á hana. Ég spyr hv. þm. hvort hún telji til að mynda að það sé ekki nauðsynlegt áður en við skiljumst endanlega við fjárlögin við lok 3. umr., að þetta mál verði rætt frekar innan fjárln. og við fáum það hreinlega fram hjá ráðuneytunum með ítarlegum tillögum hvernig grípa eigi inn í þetta mál. Ef nauðsynlegt er að skerpa lög þá þurfum við að vita það fyrir 3. umr. Ég vek athygli hv. þm. á því að ef setja á einhverjar sérstakar aukareglur um ábyrgð forstöðumanna stofnana, hvers vegna þá ekki þeirra ráðherra sem bera ábyrgð á þessu. Þeir verða jú að axla ábyrgð, við sem stöndum í þessu getum ekki varpað henni út til starfsmanna ríkisins.