Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:01:51 (2703)

1999-12-10 16:01:51# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir afar athyglisverða hugmynd sem hér kom fram í sambandi við námskrá í grunnskólum. Hann lagði til að í skólum landsins yrði sérstök fræðsla í peningamálum skulum við segja, hvort sem köllum það fræðslu í kapítalisma eða í vörnum við honum. Í sjálfu sér er það ágætishugmynd. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þm. um að þarft sé að fræða menn um margt í þeim efnum þannig að þeir kunni fótum sínum forráð. En veldur hver á heldur. Þar skiptir miklu máli hvert uppleggið verður ef fara á út í efnahagslegar hliðar mannlífsins og fræða börn um þær strax á unga aldri. Það væri náttúrlega fróðlegt að heyra frá hv. þm. út frá hvorum sjónarhólnum hv. þm. hugsar þetta, væntanlega sem einhvers konar lið eða viðbót við samfélagsfræðikennslu í skólum landsins. Mér þótti þetta nokkuð áhugavert og það er skaði að hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason skuli ekki vera hérna til að ræða um þessa merku tillögu.