Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:06:37 (2706)

1999-12-10 16:06:37# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir mjög hlý orð í minn garð. Við þekkjumst frá fornu fari eins og kom hér fram. Ég veit því að hann á sínar góðu hliðar enda sprottinn úr góðum og gegnum bændajarðvegi. Hv. þm. sagðist ófeiminn við að láta skoðanir sínar í ljós. Það er alveg rétt en þessi ágæta ræða hans minnir mig á ágætan mann vestur á fjörðum sem var dálítill ambögumaður og átti til að missa út úr sér sérkennileg orðatiltæki. Hver veit nema að þegar upp verður staðið sjáum við, þegar við minnumst hv. þm. fyrir mótstöðu hans í mörgum málum á þessu missiri, að hann hafi verið á undan sinni framtíð eins og karlinn fyrir vestan.