Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:02:22 (2713)

1999-12-10 17:02:22# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er að verulegu leyti sammála þeirri lýsingu sem hv. þm. gaf á stöðu mála innan heilbrrn. Ég fagna því líka að hann sagði að gagnrýni á þá stöðu sem birst hefur hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar á rétt á sér. Hann treysti sér ekki til að mæla gegn því, sagði hv. þm., né heldur vildi hann það. Með öðrum orðum, hann er að taka undir þessa gagnrýni. Ég er honum sammála um að á þessu máli hefur verið losarabragur, ég vil nú kalla það miklu alvarlegri nöfnum en það, það skiptir ekki máli. Spurningin er hvað er hægt að gera til framtíðar til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig því eins og hv. þm. sagði duga vinsamleg tilmæli ekki ein og sér. Ég er honum hins vegar ekki sammála um að þau ráð sem bent er á í nál. meiri hlutans dugi. Það sem hann hengdi hatt sinn aðallega á var sú yfirlýsing ef að það kemur í ljós að stofnanir eru að fara fram úr, á að fella niður auknar fjárveitingar til þeirra á fjáraukalögum. Herra minn trúr, herra forseti, dettur nokkrum í hug að Alþingi mundi leggja í að gera það með þeim hætti? Telur hv. þm. að hann hafi kjark og félagar hans og þingið allt til að ákveða að vippa til baka fjárframlögum sem mundu leiða til þess að í einu vetfangi þyrfti að loka stofnununum? Ég held það ekki, herra forseti. Ég held að miklu frekar þurfi að setja skýrar viðmiðunarreglur um það hvernig eigi að haga fjárveitingum og hvernig stofnanirnar eigi að standa við það. Þessar reglur þurfum við að sjá í fjárln. Ég spyr hv. þm., telur hann ekki að það sé nauðsynlegt að við ræðum þetta milli 2. og 3. umr. í nefndinni til þess að hafa svart á hvít fyrir framan okkur, hvernig ráðuneytin tvö, sem bera ábyrgð á þessu, heilbr.- og fjmrn., ætla að bregðast við þessu? Ég spyr líka, herra forseti, ef hv. þm. telur nauðsynlegt að skerpa á ábyrgð forstöðumanna, telur hann þá ekki líka nauðsynlegt að skerpa á ábyrgð ráðherra? Það eru auðvitað ráðherrarnir sem eru ábyrgir þegar upp er staðið. Ef þeir eiga ekkert á hættu þá vitum við auðvitað hvernig fer, við höfum reynsluna í þessu máli, herra forseti.