Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:40:39 (2722)

1999-12-10 17:40:39# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Kjarninn í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals var sá að honum blöskar þetta fjárlagafrv. Mér blöskrar það líka. Ég held við eigum aldrei eftir að standa frammi fyrir fjárlagafrv. af þessu tagi aftur. Ég held að við munum ekki sjá það aftur að allar varnir bresti og allt flæði inn.

Hv. þm. gerði sérstaklega að umtalsefni hrossakaupin sem birtast í því að í þessu fjárlagafrv. er að finna fjárveitingar sem dreift er á fjögur ráðuneyti til að efla hrossarækt í landinu með einum eða öðrum hætti. Ég er honum alveg hjartanlega sammála. Hrossakaupin sem í þessu birtast sýna nefnilega í hnotskurn það virðingarleysi sem framkvæmdarvaldið sýnir stundum löggjafarsamkundunni. Allir sem koma nálægt þessum málum vita hvernig þetta varð til. Á borði ríkisstjórnarinnar, í hrossakaupum milli ráðherra, voru þessar tillögur reknar í gegnum fjárln. án nokkurrar sérstakrar skýringar. Við stöndum frammi fyrir því að binda skattborganana með samningum til næstu fjögurra eða fimm ára sem þegar upp er staðið munu kosta 250 millj.

Það eru engar sérstakar skýringar eða frekari grein gerð fyrir þörfinni, herra forseti, á að leggja fjármagn til þessa merka máls af liðum menntmrn., samgrn., iðnrn. og auk þess að sjálfsögðu landbrn. Við vitum það eitt að þessa dagana er riðið út í öllum þessum ráðuneytum. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Sömuleiðis vil ég líka segja, herra forseti, að ég er honum sammála um það, sér í lagi út frá umræðum sem hér hafa orðið um heilbrigðismálin, að Alþingi verður að gæta sín á því að verða ekki of samofið framkvæmdarvaldinu. Ég held nefnilega að það sé viðleitni hjá framkvæmdarvaldinu í erfiðum málum, eins og heilbrigðismálunum, að þætta Alþingi með einhverjum hætti inn í ákvarðanatöku. Mér sýnist að menn séu að gera slíkt með því eftirliti sem á að setja upp með handónýtu heilbrn. Ég óttast að við séum þar með gerð samábyrg og getum ekki sinnt eftirlitshlutverki okkar.