Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:43:13 (2723)

1999-12-10 17:43:13# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég brann inni eftir framsöguræðu mína með eitt svar við spurningu sem hv. þm. Pétur Blöndal lagði fyrir mig. Spurningin var: Hvað gerist ef stofnanir fara fram úr fjárlögum og ekki er gerður samningur? Þetta er grundvallarspurning. Þar koma til margir þættir. Við höfum einsett okkur að láta gera reiknimódel fyrir stofnanir og reiða fram fjármuni eftir því. Til vara gerum við ráð fyrir að geta fellt niður framlög á fjáraukalögum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er mikil aðgerð og vona að til þess komi ekki.

Ég vona að á því ári komum við málum þannig fram að við getum reiknað út með hlutlægum aðferðum hvað stofnanir þurfi til að veita þá þjónustu sem við ætlum þeim að veita og gerður sé þjónustusamningur í samræmi við það. Honum verður síðan fylgt eftir. Ríkisendurskoðun á að fylgja þessu eftir og við höfum þann möguleika að kalla forustumenn þessara stofnana til okkar. Fjárln. fylgi því þannig einnig eftir og ég vona að sú eftirfylgni leiði til þess að stofnanir verði innan fjárlaga og við sköpum þeim þann ramma.