Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:45:26 (2724)

1999-12-10 17:45:26# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:45]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að framfylgja lögum þegar þeim er ekki fylgt og engin refsiákvæði og ekkert til að fara eftir. Ég geri mér grein fyrir vanda hv. fjárln. í þessu dæmi og ég er ekki viss eftir svar hv. formanns fjárln., Jóns Kristjánssonar, að við stöndum nokkuð betur. Vandamálið er að of lítill agi er í öllu stjórnkerfinu. Það er of lítill agi Alþingis með ráðherrum. Það er of lítill agi ráðherra með stofnunum og það er of lítill agi forstöðumanna stofnana með starfsmönnum. Þetta er vandamálið. Ég sé það ekki breytast. Menn þurfa þá gefa mjög ákveðin merki til stofnananna um að þetta skuli breytast frá 1. jan. árið 2000 og lofa sjálfum sér og öðrum því að þeir muni standa við það. Þetta er mikil breyting. Við erum búin að setja lög í landinu aftur og aftur um að fjárveitingar skuli vera svona og svona og þessi lög eru þverbrotin. Menn hafa tekið sér fjárveitingavald út um allan bæ sem er andstætt stjórnarskránni og ekkert hefur gerst, ekki enn þá. Ef eitthvað mikið á að fara að gerast núna allt í einu, þá verður það að koma mjög skýrt í ljós þannig að forstöðumenn stofnana og ráðherrar viti hvað gerist.