Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 18:44:51 (2730)

1999-12-10 18:44:51# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Össur Skarphéðinsson, leitaði að sökudólgum eins og fleiri hafa gert í dag. Hann vildi koma sökinni á ráðherra fjármála og heilbrigðismála. Ég tel að aðalatriðið í þessu máli sé ekki að leita að sökudólgum, hvorki í forstöðumönnum stofnana né ráðherrum. Við stöndum frammi fyrir því verkefni að ná utan um rekstur heilbrigðisstofnana og ég vil rifja upp örfá atriði sem gerðust á síðasta ári.

Heilbrigðismál heyra undir heilbrrn. að sjálfsögðu. Kjarasamningar heyra undir fjmrn. Heilbrrn. vakti athygli á umframfjárþörf heilbrigðisstofnana í maí. Hæstv. heilbrrh. og fjmrh. settust niður á haustdögum og ákváðu að setja 1,4 milljarða í heilbrigðiskerfið og fá Ríkisendurskoðun til að gera úttekt á fjárþörf heilbrigðisstofnana. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu og í þeirri skýrslu stendur m.a., sem ekki hefur komið fram í þessari umræðu, að Ríkisendurskoðun telji að auk annars þurfi að endurmeta þær aðferðir sem notaðar eru við kjarasamninga. Það er eitt þeirra mála sem skoða þyrfti í því sambandi, þ.e. hvað þar hefur farið úrskeiðis og hvernig hægt er að hafa betri tök á þessum málum í framtíðinni.