Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 18:51:04 (2733)

1999-12-10 18:51:04# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[18:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson hefur haft skilningarvitin í góðu lagi. Hann er ekki það mæddur af pólítískri elli að þau séu tekin að slævast. Skilur hann ekki hvað er að gerast í þessum sal? Skilur hann ekki sitt eigið nál.? Hvað hefur gerst?

Hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur í umræðu, sem hófst áður en við komum til þessarar, sagt að það stappaði nærri því að búið væri að taka hæstv. heilbrrh. í fjárhagslega gjörgæslu. Hann hefur komið hingað í dag og sagt að því væri ekki að neita að losarabragur væri á fjármálastjórn hæstv. heilbrrh. Hann hefur komið hingað og sagt að hann treysti sér ekki til þess að gagnrýna þá sem hafa farið hörðum orðum um fjárhagsstjórn hæstv. heilbrrh. Í nál. sem hv. formaður fjárln. hefur skrifað undir er það tekið fram að heilbrrh. hafi gert hitt og þetta og faghópur ráðherrans hafi komið að málinu.

Er hins vegar sagt frá því að hæstv. heilbrrh. kallaði eftir stuðningi fjmrh. varðandi útfærslu samninga? Er sagt frá því að í maí hafi hæstv. heilbrrh. gert fjmrh. viðvart um þessa stöðu? Er sagt frá því að menn frá báðum ráðuneytunum hafi komið saman og gert tillögur sem ekki héldu? Það er ekki sagt frá því, herra forseti. Hvernig stendur á því? Vegna þess að þingmenn Framsfl. í fjárln. eru kúgaðir af hv. þm. Sjálfstfl. sem koma hingað og draga síðan hæstv. heilbrrh. sundur og saman í háði og einan til ábyrgðar. Ég ítreka það, herra forseti, það er ekki mitt hlutverk og hefur ekki verið mitt hlutskipti í gegnum tíðina að verja hæstv. heilbrrh. en mér finnst ósanngjarnt hvernig að henni er vegið í þessu sambandi. Mér finnst að þingmenn Framsfl. ættu að sjá sóma sinn í að koma henni til varnar en láta það ekki vera hlutskipti mitt, sem hef ekki beinlínis verið pólitískt ástfanginn af henni til þessa.