Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 18:54:47 (2735)

1999-12-10 18:54:47# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[18:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sá kristilega þenkjandi þingmaður sem hér talaði síðast hefði nú af meðlíðan með þjáningarbróður sínum látið vera að nudda salti í sárið eins og hann gerði með því að halda því fram að hann lyti forustu hv. þm. Jóns Kristjánssonar.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson er auðvitað höfundur að þessu bixi sem fram kemur í áliti meiri hluta fjárln. þar sem hæstv. heilbrrh. er einn dreginn til ábyrgðar. (SJS: Skáldið sjálft.) Skáldið sjálft, hv. þm. Það sem skiptir auðvitað máli er að þingmenn Sjálfstfl. hafa talað um það í þessu máli að draga menn til ábyrgðar. Hv. þm. Hjálmar Jónsson var einn af þeim. Í umræðum um daginn talaði hann nokkuð digurbarkalega um það að forstöðumenn stofnana yrðu auðvitað að standa undir ábyrgð sinni, hana þyrfti að skerpa og ljóst væri að menn þyrftu að sæta ábyrgð. Hvað felst í slíku orðalagi, herra forseti? Í því felst auðvitað ekkert annað en hótun, að vísu dulbúnari en fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, um að ef forstöðumennirnir stæðu sig ekki í stykkinu yrðu þeir reknir. Hv. þm. Pétur Blöndal sem hér er hreinskilnastur manna kom hins vegar og nefndi töluna. En hv. þm. Hjálmar Jónsson getur ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð að hann kallaði líka eftir því að einhver höfuðleður yrðu tekin.

Herra forseti. Ég segi þess vegna: Ef hv. þm. Hjálmar Jónsson telur að það eigi, eins og hann taldi þá þó hann sé búinn að skipta um skoðun núna, með einhverjum hætti að draga forstöðumennina til ábyrgðar, af hverju ekki ráðherrana líka? Hvernig stendur á því að hv. þm. bendir fingri sínum á hæstv. heilbrrh. en lætur félaga sinn, hæstv. ráðherra Geir H. Haarde sleppa? Ég óska hins vegar hv. þm. til hamingju með kænskuna. Það er langt síðan ég hef séð jafnsnilldarlega leikið og af jafnmikilli slægð og þegar hv. þm. Hjálmar Jónsson plataði félaga sinn, hv. þm. Jón Kristjánsson, til þess að senda frá sér nál. þar sem engin vörn er færð fyrir hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh., sem er auðvitað einn af þeim sem hlýtur að axla ábyrgð, sleppur algerlega. Heill þér, hv. þm.