Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 18:57:01 (2736)

1999-12-10 18:57:01# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[18:57]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Enn sannast það sem ég sagði áðan, herra forseti, að mælskur er hv. þm. Össur Skarphéðinsson en fer ekki að sama skapi alltaf rétt með. (Gripið fram í: Og slægur.) Og slægur. Hann segir að hæstv. heilbrrh. sé ein og sér dregin til ábyrgðar. Ég vil rifja það upp fyrir honum að ég bað hæstv. heilbrrh. vægðar þegar hv. þm. hamaðist í umræðu um fjáraukalög síðast en það er önnur saga.

Ég vil hins vegar segja það að ef okkar ýtrustu og bestu ráð, leiðir og lausnir hæstv. ríkisstjórnar, fjárln. og þingsins duga ekki til þess að koma rekstri heilbrigðisstofnana í lag þá hlýtur eitthvað svo mikið að vera að að enginn ráði við nema nýir stjórnendur komi til skjalanna. Einhvers staðar hlýtur vandinn að vera.

Ég vil árétta það líka að ég hef engan áhuga á því að taka af höfuðleður þó að ég sé að missa hárið sjálfur. Aldrei hef ég reynt eða viljað plata vin minn hv. þm. Jón Kristjánsson.