Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:00:11 (2738)

1999-12-10 20:00:11# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Fjárlagafrv. ársins 2000 markar tímamót í fjármálum ríkisins og tekjuafgangur er meiri en áður hefur sést í langan tíma eða um 15 milljarðar kr. Skuldir ríkisins munu lækka umtalsvert að sama skapi og leiðir það til lægri útgjalda vegna vaxta sem nemur um 1,6 milljörðum kr. Þetta eru góð og mikilvæg skilaboð inn í nýja öld og nýtt árþúsund þar sem mun reyna meir og meir á hæfileika landsmanna til að stíga þau skref sem styrkja þjóðarvitundina og auka velferð og afl lítillar þjóðar til að halda sjálfstæði sínu.

Það sjálfstæði markast ekki hvað síst af framsýni og áræði í vaxandi samstarfi þjóða og samruna í minnkandi heimi. Atvinna fyrir alla, ráðdeild í fjármálum ríkis og heimila og byggð í öllu landinu er forsenda þess að okkar fagra land þróist og þroskist á eigin forsendum inn í þessa nýju tíma.

Herra forseti. Nýting auðlinda þjóðarinnar og stjórn á þeim er grunnur þess að vel takist til, en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur jafnt og þétt verið að styrkja þessar stoðir ríkisins með góðum árangri. Þar ber fyrst að nefna að stjórn fiskveiða hefur á sl. tíu árum verið snúið úr hruni þorskstofnsins í meiri uppsveiflu en áður hefur þekkst. Framtíðin mun mótast af þessu í ríkum mæli og er ekki ólíklegt að á næstu tíu árum muni þorskveiði geta aukist um 100 þús. tonn á ári eða í um 350 þús. tonn. Aflaaukningin mun á núvirði auka þjóðarframleiðsluna um allt að 15 milljarða kr. eða 2% af landsframleiðslu. Sjálfbær þorskveiði á Íslandsmiðum er um 350 þús. tonn, en þegar hún fór hærra á árum áður, eða í um 400--500 þús. tonn, var það vegna þess að aðstæður í hafinu voru mjög góðar og göngur frá Grænlandi stór hluti aflans. Ljóst er því að hámark þorskaflans sem reikna má með af Íslandsmiðum verða þessi 350 þús. tonn og verður ekki reiknað með meira verðmæti úr þessum sterka og verðmæta fiskstofni Íslendinga.

Hlutur sjávarútvegs í útflutningsverðmæti þjóðarinnar er um 55% í dag og gæti aukist um 2% með þessum 100 þús. tonnum af þorski til viðbótar sem er endastöð veiðinnar. Aukinn hagvöxtur framtíðarinnar verður því ekki borinn uppi af auknum þorskafla eftir að þessu marki verður náð.

Fiskeldi við strendur landsins hefur ekki gengið sem skyldi. Að mínu áliti er full ástæða til þess að skoða þann þátt í meira mæli af hálfu fjárveitingavaldsins og ríkisstjórnarinnar en gert hefur verið á liðnum árum. Tækniframfarir á þessu sviði eru miklar og margar þjóðir, eins og Norðmenn, hafa náð hreint ótrúlegum árangri í fiskeldi. Fiskeldi á þeim stöðum sem náð hafa lengst í Noregi hafa getað skapað allt upp í 200 og yfir 200 þús. tonn af laxi á einu ári til útflutnings sem er gríðarlegt magn. Ný sókn á þessu sviði er spennandi kostur.

Herra forseti. Eðlileg nýting fallvatna í sátt við umhverfið er annar mikilvægur þáttur og ljóst er að ná þarf sátt um hvernig það er gert. Ekki verður sæst á annað en að orkan sem býr í fallvötnunum og í iðrum jarðar verði virkjuð með eðlilegum hætti til atvinnuuppbyggingar, enda um að ræða endurnýjanlega orku framleidda á mengunarlausan hátt. Uppbygging fjölbreytts atvinnulífs er forsenda áframhaldandi hagvaxtar og góðæris í landinu sem verður ekki slitið í sundur frá uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni.

Hvert 120 þús. tonna álver eykur útflutningstekjur um 13 milljarða kr. árlega og landsframleiðsluna um 0,5% svo dæmi sé tekið. Ekki ætla ég að spá í það hve mörg slík verða reist hér eða ígildi þeirra á næstu tíu árum. En ljóst er að það sem skapar í vaxandi mæli aukinn hagvöxt framtíðarinnar er iðnaður, ferðamennska og hugbúnaðargeirinn.

Mikilvægi landsbyggðarinnar í þessum þáttum er mjög mikið að mínu áliti og ljóst að án öflugrar landsbyggðar hlýtur þjóðmenningin og styrkur okkar sem þjóðar að bíða hnekki.

Herra forseti. Það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir tekur mið af þessu og er áfangi í því að styrkja stöðu landsbyggðarinnar sem og höfuðborgarsvæðisins um leið. Þar má nefna m.a. aukið fjármagn til Ferðamálasamtaka landshlutanna til upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn, en Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa síðustu tvö ár fengið 3 millj. kr. til reksturs ferðamálamiðstöðvar í Leifsstöð. En nú er úthlutað sérstaklega til allra kjördæma til slíkrar starfsemi.

Það þarf ekki að hafa langt mál um mikilvægi upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn sem í vaxandi mæli ferðast eftir áætlunum sem byggðar eru á markaðssetningu frá landsbyggðinni sjálfri. Má nefna í því sambandi að ferðamálaaðilar á Húsavík hafa flutt sína erlendu viðskiptavini beint frá Keflavíkurflugvelli til Húsavíkur. Þetta hefur mælst vel fyrir og bætir nýtingu gistirýma og eflir umsvif og kynningu á öllu landinu.

Byggðastofnun hefur veitt verulegt fjármagn til að styrkja stöðu bænda í ferðaþjónustu og hefur á síðustu fimm árum orðið hrein bylting á því sviði. Tekjur af erlendum ferðamönnum nema um 13% af útflutningstekjum þjóðarinnar og hafa vaxið um 2% á sl. tveimur árum. Fátt getur aukið útflutningstekjurnar meira með tiltölulega litlum kostnaði en bætt nýting ferðaþjónustunnar. Á vegum markaðsráðs ferðaþjónustunnar er samkvæmt stjórnarsáttmálanum unnið að vöruþróun á landsbyggðinni. Með markvissari uppbyggingu á þessu sviði má ná miklu betri árangri en náðst hefur. Það má benda á svæði á landinu sem hafa náð verulega góðum árangri með markvissu starfi, þ.e. í Hafnarfirði. Þar hefur sveitarstjórnin tekið verulega sterkt á þessum málaflokki og þar hefur náðst árangur sem ég tel að aðrir geti lært af.

Talið er að ferðamennskan geti tvöfaldast á næstu tíu árum þannig að erlendir ferðamenn yrðu 500 þúsund á ári dreift um landið. Endimörk ferðamennskunnar á landinu eru nokkuð hærra að mati sérfræðinga.

Herra forseti. Ég hef í fyrri hluta ræðu minnar reynt að skyggnast lítillega inn í framtíðina því þar eru möguleikarnir. Í störfum fjárln. kemur einnig fljótt í ljós að það er nauðsynlegt. Störf fjárln. eru fjölbreytt og veita mjög góða sýn inn í það sem brennur á landsmönnum vítt og breitt um landið. Að því leyti nær starf fjárln. um allt sviðið sem veitir nefndarmönnum skilning á fjölbreytileika mannlífsins umfram það sem hægt er að gera í fagráðuneytum sem eru einskorðuð við ákveðna málaflokka. Þessi tenging Alþingis við landið er að mínu áliti mjög mikilvæg og mikilvægt að ekki verði dregið úr þessu jarðsambandi sem okkur þingmönnum er svo nauðsynlegt. Fjölbreytileikinn birtist ekki hvað síst í heimsóknum landsbyggðarfólks til fjárln. sem endurnýjar þann grunn sem við höfum sem aldir erum þar upp.

Herra forseti. Mjög er áberandi sá aukni áhugi sem er um allt land í dag á vísindastörfum, söguskoðun og náttúruskoðun og endurspeglast það í fjárveitingum fjárln. Sem dæmi um það vil ég taka að náttúrustofur eru nú í hverju kjördæmi. Fræðasetur er í Sandgerði, náttúrugripasafn í Vestmannaeyjum, sögusetur á Hvolsvelli og vesturfarasetur á Hofsósi. Vaxandi áhugi er einnig á skógrækt fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar að því máli og er það fyrirferðamikið í ár og er fjöldi verkefna þar á ferðinni. Má þar nefna Héraðsskóga, Suðurlandsskóga, Skjólskóga, Vesturlandsskóga og Norðurlandsskóga þar sem um 60 millj. kr. er bætt við fjárveitingar ársins.

Menntun í gegnum netið er einnig í mikilli sókn og með atbeina fjárln. hefur verulegt átak verið gert í samráði við menntmrn. í að auka kennslukvótann í fjarkennslu Kennaraháskólans. Fátt gefur landsbyggðarfólki eins mikla möguleika til að afla sér menntunar við hæfi í bestu skólum landsins og netið, og má tala um byltingu að þessu leyti.

Tenging skólastarfsins við sjóinn er einnig eitt af þeim verkefnum sem okkur ber skylda til þess að sinna. Með samningi sjútvrn. við Hafrannsóknastofnun Íslands hefur náðst góð tenging milli vísinda, sjómennsku og skólanna með ferðum bátsins Drafnar sem er rannsóknarskip frá Hafrannsóknastofnun og fer með skólafólk í kynnisferðir út á sjó. Mikill áhugi er á þessum ferðum og nauðsynlegt að þar verði framhald á. Hér er þó um tilraunaverkefni að ræða sem ætlunin er að verði í framtíðinni hluti skólastarfsins og því verkefni sveitarfélaganna. Það er því mikilvægt að sveitarfélögin komi inn í þetta verkefni á næsta ári svo þessi tenging þéttbýlisbarnanna við sjóinn haldist.

Skólabáturinn Haftindur fær 3 millj. kr. til að halda úti starfi í samvinnu við félagsmálastofnanir á höfuðborgarsvæðinu með unglinga sem eru í vanda. Þetta frumkvöðlastarf hefur verið erfitt vegna þess að aflaheimildir eru dýrar og skip sem gerð eru út með þessum hætti þurfa að kaupa til sín aflaheimildir, en það þarf skólaskipið Dröfn ekki að gera. Rekstrarskostnaður verður því óheyrilegur og miklu meiri en gera má ráð fyrir. Mikilvægt er að styrkja þetta verðuga framtak í framtíðinni.

Að styrkja ímynd sjómennskunnar og efla Sjómannaskólann er annað verkefni sem hefur orðið út undan að mínu áliti. Sjómannaskólinn hefur grotnað niður, bæði starfið og húsakynnin. Ég vona að það standi til bóta en mikið þarf að koma til svo að ástandið batni. Endurbætur á húsnæði eru þó hafnar en hvernig reisa á starfið til fyrri vegs og virðingar er óleyst. Þar er verk að vinna, herra forseti.

Sá þáttur sem oft fær einna mestu umræðuna og miklar tilfinningar eru tengdar eru harmleikir vegna vímuefnanotkunar ungs fólks og ofbeldis í þjóðfélaginu. Þessi þáttur er því mikið á borði okkar fjárlaganefndarmanna sem sést í fjárveitingum, m.a. til Krýsuvíkursamtakanna, til Krossgatna, Byrgisins, Kvennaathvarfsins og Stígamóta. Forvarnir í þessum málaflokki eru einnig mjög fyrirferðarmiklar og eru nú vímuvarnafulltrúar lögreglunnar víða um land, en slík staða var upphaflega samþykkt við embættið í Keflavík í samvinnuverkefni við Reykjanesbæ og hefur gefist mjög vel.

Lögreglan á Keflavíkurflugvelli fær fjárveitingar til þess að fjölga hundum til fíkniefnaleitar. Með samstarfi Schengen-landanna opnast fleiri möguleikar til þess að stöðva ólöglegan innflutning að þessu leyti. Á fjárlögum er gert ráð fyrir fjölgun í lögreglunni vegna herts landamæraeftirlits og verða ráðnir 11 lögreglumenn til þessa starfs. Stækkun flugstöðvarinnar tengist þessu nýja hlutverki okkar.

Herra forseti. Miklar áhyggjur landsbyggðarmanna vegna sérleyfanna og áætlunarferða BSÍ hafa verið áberandi og er ljóst að þessi sérleyfi munu ekki bera uppi eðlilegan rekstur með þeim farþegafjölda sem nú er og fer minnkandi ár frá ári. Auðvitað er það hlutverk ríkisvaldsins að hlúa að þessari starfsemi eins og kostur er og beina til þeirra verkefnum. Þar er þó við ramman reip að draga þegar marka á línuna milli samkeppnissjónarmiða og EES-reglna eins og dæmin sanna. Mér sýnist ljóst að samstarf þurfi að takast um hlutverk þessara sérleyfa milli ríkisins og sveitarfélaganna. Tenging milli sérleyfa og almenningssamgangna er hluti af hugsanlegu samstarfi og tengingu. Reykjanesbær hefur á undanförnum árum eflt sínar almenningssamgöngur og tengt við sérleyfi til Reykjavíkur. Ljóst er þó að þetta er erfiður rekstur og nauðsynlegt að fjárveitingavaldið hafi frekari afskipti af þróun mála á þessu sviði ef möguleiki á að vera að styrkja þessa þjónustu.

Herra forseti. Ég hef reynt að gera grein fyrir ýmsum málum sem ég tel tengjast stöðu þjóðarbúsins til framtíðar og einstökum verkefnum sem þarf að leysa í samtímanum og brenna á fólki. Sem betur fer er staða ríkissjóðs slík í dag að hægt er að mæta mörgum vandanum með auknum framlögum. Rekstur ríkissjóðs hefur þó ekki gengið eins og eðlilegt má telja þegar litið er til þess að hér er höndlað með fjármuni skattborgaranna. Það er í raun stóralvarlegt mál að flestar stofnanir ríkisins fara langt fram úr fjárlögum og grípa þarf til aukafjárveitinga sem nema um 9 milljörðum kr. á ári, eða í ár, sem eru 5% til viðbótar við útgjöld ríkissjóðs á árinu. Í verðbólgulausu þjóðfélagi er þetta óásættanlegt.

Af einstökum ráðuneytum tekur heilbrrn. til sín um 33% af fjárlögum ársins 1999 en af aukafjárveitingum ársins tekur það sama ráðuneyti um 67% eða 6 milljarða kr. Framúrkeyrsla sjúkrastofnana er ein helsta meinsemd í fjármálum ríkisins og ljóst er að slíkt getur ekki gengið öllu lengur. Komið hefur fram að ráðuneytið taldi sig ekki nægjanlega undirbúið til að leiðbeina við gerð aðlögunarsamninga og framgangssamninga hjúkrunarfræðinga. Það er ekki svo að stofnanir heilbrrn. séu einu stofnanirnar sem fara fram úr. Því fer fjarri því sjálfur ríkisendurskoðandi fór fram úr fjárlögum. Ýmislegt verður þó augljóslega að leiðrétta strax. Það verður til að mynda að taka á því, herra forseti, að margar sjúkrastofnanir eru reknar með yfirdráttarheimildum í bönkum sem er með öllu óheimilt og brot á lögum. Einnig eru dæmi um að ríkisstofnanir skili ekki vörslusköttum sem er mjög alvarlegt brot. Þó svo að aukafjárveitingar vegna yfirstandandi árs dugi í flestum tilfellum til að mæta halla ársins og bæta hala frá síðasta ári, þá er ekki augljóst að fjárlög standist eitthvað betur á næsta ári en verið hefur á yfirstandandi ári.

[20:15]

Hjá sjúkra- og heilbrigðisstofnunum er vitað að framgangssamningar hjúkrunarfræðinga eru ekki frágengnir nema hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Stórir hópar launþega hjá heilbrigðisstofnunum hafa litlar hækkanir fengið. Þar má nefna sjúkraliða og ASÍ-launþega sem eru um 30% starfsmanna. Þó ber að taka fram að þessir starfsmenn eru með samninga til loka ársins 2000 og sú von er látin í ljós að þeir samningar haldi en tíminn verði notaður til að samningar geti gengið hratt og örugglega fyrir sig næsta haust.

Eitt mál, herra forseti, langar mig til þess að minnast á en það er Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sem veitir styrki til þess að fólk geti keypt sér heyrnartæki. Stofnunin hefur einkaleyfi á því að flytja inn heyrnartæki og fær ákveðið fjármagn á fjárlögum til að greiða niður hvert einasta heyrnartæki sem selt er. Það er ljóst að þessi stofnun er barn síns tíma og hlýtur að vera komið að því að endurskoða starfsemi stöðvarinnar þannig að þessi hluti heilbrigðiskerfisins verði gefinn frjáls nákvæmlega eins og gleraugnasalar geta selt nánast hvaða gleraugu sem þeir vilja ef þeir hafa menntun til þess. Heyrnar- og talmeinafræðingar eru margir á landinu og geta sinnt þessu hlutverki með sama hætti og þeir sem eru í störfum hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Ég vil því, herra forseti, taka fram að mér finnst tímabært að ríkisvaldið og þeir ráðherrar sem hafa með málið að gera breyti þessu í frjálsræðisátt.

Herra forseti. Það er grundvallaratriði fyrir framtíð okkar í samstarfi þjóðanna að sýna festu og ábyrgð í stjórn ríkisins. Á því byggir framtíðin. Án ábyrgðar fer verðbólgan af stað og í kjölfar hennar fylgja gjaldþrot og uppgjöf sem við þekkjum frá síðasta áratug. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tókst að stöðva fólksflóttann frá landinu. Nú flytja fleiri til landsins en frá því. Flóttinn frá landsbyggðinni er þó mjög mikill og öllum áhyggjuefni. Þær rætur sem slitna við þessa flutninga liggja oft djúpt, rætur sem tengja okkur við landið sterkum böndum. Þegar rótin slitnar slævist þjóðarvitundin. Það er eins og máltækið segir: Römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til. Fyrir okkar unga og vel menntaða fólk eru skrefin auðveldari úr landi en fyrir okkur sem komin eru á miðjan aldur. Evrópa togar og undirliggjandi er sú hreyfing sem gengur yfir alla Evrópu, að vera hluti af Evrópusambandinu. Ábyrgð okkar er því mikil.

Herra forseti. Fjárln. hefur ákveðið að eftirlit með fjárreiðum ríkisins verði mun meira en hingað til hefur tíðkast og þáttur Ríkisendurskoðunar efldur. Af hálfu ráðuneytanna er fullur vilji til að taka á þessum málum. Ég trúi því að okkur takist mun betur við ríkisreksturinn á næsta ári en á því sem nú er að líða.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka formanni fjárln. fyrir fumlausa og góða leiðsögn við stjórn fjárln. á þessu ári. Sömuleiðis vil ég þakka samnefndarmönnum mínum öllum ánægjulega samvinnu og starfsmönnum fjárln. fyrir vel unnin störf.