Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:22:54 (2742)

1999-12-10 20:22:54# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:22]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði ekki um endastöð heldur endimörk á vexti þorskstofnsins á Íslandsmiðum. Að áliti fiskifræðinga getur ekki þrifist hér sjálfbær stofn stærri en svo að hann gefi af sér 350 þús. tonn í veiði. Eftir að þeim mörkum er náð eykst veiðin ekki meira á Íslandsmiðum.

Ég á við að við gætum hugsanlega bætt þetta upp með eldi á þorski. Við erum með marga djúpa og góða firði sem geta tekið við eldi. Þetta hefur verið reynt en mér finnst því allt of lítill gaumur gefinn að þessi möguleiki sé til staðar. Þetta þarf allt tíma. Við verðum næstu 10 árin að ná veiðinni upp í 350 þúsund tonn. Ég vona að það takist fyrr en við eigum a.m.k. að geta gert það á þeim tíma.

Til þess að geta bætt við þá eigum við að fara út í meiri rannsóknir og tilraunastarfsemi í eldi.