Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:29:21 (2748)

1999-12-10 20:29:21# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:29]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef verið kallaður lygari hér í stólnum. Ég bjóst ekki við því frá mínum gamla og góða skipstjóra. En ég vil bara segja, herra forseti, að þær tölur sem ég fer með eru frá forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Ég er ekki að segja að þetta sé nákvæmlega upp á tonn. Samkvæmt þeim upplýsingum eru þetta nokkurn veginn 350 þús. tonn. Þegar rætt er um að miklu meira hafi verið veitt hér áður fyrr þá voru t.d. frá árunum 1920--1960, önnur skilyrði í sjónum. Þá kom mikið af fiski frá Grænlandi og bætti upp veiðina. Auk þess veit hv. þm. mætavel að á árunum 1975--1990 veiddum við miklu meira en stofninn þoldi. Við ofveiddum þorskinn og það kom niður á okkur á þessum áratug. Við þurftum að fara niður í 150 þús. tonn í veiði og þetta ætti hv. þm. að vita áður en hann heldur því fram að menn segi ósatt í þessum ræðustól.