Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:30:39 (2749)

1999-12-10 20:30:39# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:30]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara að nefna nokkrar tölur. Meðalveiðin á þorski síðustu 50 árin er 371 þús. tonn. Það vantar sem sagt 121 þús. tonn upp á að við getum veitt þann afla sem við höfum veitt í hálfa öld. Ef það er ekki besti sannleikurinn sem við getum stuðst við, þá veit ég ekki hvað við ættum að styðjast við ef við getum ekki stuðst við söguna.

Við höfum veitt 60 þús. tonn af ýsu að meðaltali. Þar vantar 25 þús. tonn upp á. Við höfum veitt 70 þús. tonn af ufsa. Þar vantar 40 þús. tonn upp á miðað við það sem við veiðum í dag. Við höfum veitt 92 þús. tonn af karfa á þessu árabili. Þar vantar 32 þús. tonn. Við höfum veitt 50 þús. tonn af steinbít. Þar vantar 2 þús. tonn. Við höfum veitt 29 þús. tonn af grálúðu í 30 ár. Þar vantar 19 þús. tonn. Svo geta menn haldið því fram að fiskifræðingar á Hafró hafi rétt fyrir sér og það sé sannleikur ef vitnað er í þá. Það er ekki rétt, hv. þm. þingmaður.