Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 20:37:40 (2755)

1999-12-10 20:37:40# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[20:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fjárlagafrv. fyrir árið 2000 fyrir til 2. umr. Bornar hafa verið á borð þingmanna þykkar bækur með brtt. við það frv. sem hér var kynnt við mikinn fögnuð á haustdögum og átti þá að leiða til 15 milljarða kr. afgangs á fjárlögum. Virðist nú nokkuð hafa gengið á þann afgang að öllu óbreyttu því að þær brtt. sem hér eru gerðar eru upp á 3,6 milljarða og þar með hefur saxast nokkuð á þann afgang sem menn voru svo brattir með í haust. Það virtist vera versta vandamál ríkisstjórnarinnar hvar ætti að koma þessu öllu fyrir með sem bestu móti því að gullforðinn leyfði ekki að allt yrði notað til að greiða niður skuldir ríkisins erlendis.

Seðlabankinn, sem hefur tekið að sér það hlutverk uppalandans að vera frekar leiðinlegur og setja upp svip þegar ríkisstjórnin fer með himinhvolfum vegna velgengninnar, taldi hins vegar að 15 milljarðar í tekjuafgang fælu ekki í sér nægilegt viðbótaraðhald. Seðlabankamenn hljóta nú að hvessa mjög augun á hæstv. ríkisstjórn þegar þessir meintu 15 milljarðar eru orðnir að 11,4.

Til þess að ekki þurfi að hrekja ríkisstjórnina til að auka skattheimtu nú mitt í góðærinu hlýtur að þurfa að fá nýja og bjartsýnni þjóðhagsspá og hver veit, kannski fæst hún.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þingmenn að sýna ræðumanni þá virðingu að hafa hljóð meðan hún talar.)

Stærsti hluti viðbótarinnar sem hér er lögð til fer til sjúkrahúsanna en ríkisstjórnin hefur nú loks mannað sig upp í að taka á vanda heilbrigðisstofnana, bæði í fjáraukalögum og fjárlögum. Það var löngu orðið tímabært. Mörg undanfarin ár hefur þessi vandi verið að búa um sig eins og tímasprengja í kerfinu. Það var með hann eins og nýju fötin keisarans í ævintýrinu forðum. Allir virtust sjá hann nema hæstv. ríkisstjórn sem ár eftir ár var að setja upp einhverja potta sem átti að nota til að tugta forstöðumenn heilbrigðisstofnana til að taka á sig ábyrgð á niðurskurði ef þeir ættu að eiga einhverja von um sporslur úr pottinum góða. Þannig vildi ríkisstjórnin firra sig ábyrgð á óvinsælum niðurskurði. Þetta átti að verða íslenska leiðin til að ná fram sparnaði í kerfinu. Nú hefur, með þeim brtt. sem fylgja með fjárlögum og fjáraukalögum í ár, verið viðurkennt opinberlega að sú leið var aldrei fær. Ef endurskipuleggja á kerfið þannig að til hagræðingar leiði þurfa þar að lútandi tillögur að koma frá ráðuneytinu sjálfu og vera á ábyrgð þess.

Því miður hefur ráðuneyti heilbrigðismála að maður tali nú ekki um fjmrn. ekki verið heilbrigðisstofnunum sá bakhjarl sem æskilegt hefði verið. Þaðan hafa engin fyrirmæli komið um aðhald í rekstri sem lið hefur verið í. Þetta er undirstrikað hér til að leggja áherslu á að hæstv. ráðherrar og ráðuneyti þeirra þurfa sannarlega að axla sinn hluta af ábyrgð á þeim vandamálum sem hrúgast hafa upp í þessum geira. Af umræðum undanfarið hefur mátt skilja að stjórnarþingmenn teldu vandann stafa frá forstöðumönnum stofnana.

Varað var sterklega við svokölluðum aðlögunarkjarasamningum á Alþingi á sínum tíma. Verstu grunsemdir efasemdarmanna þá virðast hafa komið á daginn. Þar ber fjmrn. að mínum dómi fulla ábyrgð.

Heilbrigðiskerfið hefur tútnað út á undanförnum árum og tekur nú orðið stóran hluta ríkisútgjalda eða rúmlega 40%. Auðvitað er brýnt að hagræða þar og ná niður kostnaði án þess að skerða þó eðlilega þjónustu við einstaklingana. Hins vegar er það skoðun minni hluta menntmn. að hærra hlutfalli þjóðartekna þyrfti að verja til menntamála ef tryggja á gæði menntunar og tryggja eins og best verður á kosið jafnrétti til náms þó auðvitað þurfi þar eins og annars staðar að gæta hagræðingar í hvívetna.

Við fögnum því að undirritaður var á haustdögum samningur við Háskóla Íslands um að kennslukostnaður verði framvegis greiddur eftir reiknilíkani. Við vonumst til að það bæti úr þeirri neyðarlegu stöðu sem háskólinn var í árum saman þegar honum var ekki áætlað fé fyrir nauðþurftum af fjárlögum. Þó ber að hafa í huga að þarna voru framlög reiknuð eftir virkum nemendum, þ.e. þeim sem ljúka prófi í áföngum. Óvissuþátturinn er nokkuð stór því að alltaf heltast margir úr lestinni. Einnig liggur eftir að semja um frekari fjárveitingar til rannsókna en það þarf að gera veg skólans sem veglegastan til að gera hann samkeppnisfæran við sambærilegar erlendar menntastofnanir.

Mikið vantaði á að Háskólinn á Akureyri ætti fyrir brýnum verkefnum samkvæmt 1. útgáfu fjárlagafrv. en í brtt. sem lagðar hafa verið fram við 2. umr. er þar nokkuð bætt úr. Enn vantar þó 35 millj. upp á að fjárveitingar séu fullnægjandi samkvæmt útreikningum forsvarsmanna skólans. Þeir höfðu einnig beðið um 20,5 millj. til að koma á legg fjarnámi í hjúkrun og fyrir leikskólakennara sem mikil þörf er á og ráðuneytið sér sér nú við 2. umr. fært að koma til móts við þetta. En hjúkrunarnámið fær fjárveitingu af liðnum Símenntun og fjarvinnslukerfi nr. 451 sem er einn af þeim fjölmörgu óskiptu liðum sem menntmrh. úthlutar. Ég mundi kjósa að dregið yrði úr slíku og fjárveitingavaldið mundi klára þessi mál við afgreiðslu fjárlaga. Þannig á það að vera samkvæmt lögum.

Það er miður að Kennaraháskóli Íslands hefur lagt fyrir fjárln. vel rökstudda beiðni um 32 millj. kr. hækkun á rekstrarfjárveitingu auk þess sem hann fer fram á 15 millj. aukafjárveitingu vegna endurbóta á húsnæði skólans á Laugarvatni. Ekki hefur hv. fjárln. séð sér fært að leysa bráðan vanda stærstu kennaramenntunarstofnunar landsins nú milli umræðna þó viðvarandi og vaxandi kennaraskortur sé vaxandi vandamál í íslenska skólakerfinu. Þó er lagt til að 20 millj. kr. af liðnum Símenntun renni til aukinnar fjarkennslu á vegum Kennaraháskóla Íslands en hæstv. menntmrh. hefur lýst yfir á Alþingi að slíkt nám muni best reynast til að leysa kennaravandann. Hefur hingað til reynst mögulegt að taka við í fjarnám innan við þriðjung þeirra sem sóst hafa eftir að stunda slíkt nám á undanförnum árum.

[20:45]

Þessari breytingu sem gerð var á frv. milli umræðna vil ég fagna sérstaklega. Eftir fund sem hv. menntmn. átti með forsvarsmönnum Viðskiptaháskólans liggur fyrir að mikið vantar upp á að sú stofnun hafi hingað til fengið þær fjárveitingar sem þarf til að skólinn geti staðið undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. Gengur hægt að semja um framtíðarfyrirkomulag á greiðslum úr ríkissjóði til skólans.

Tækniskóli Íslands má sæta því nú þegar stefnt er að því að gera verklegan þátt mennta hvað mestan að þar eigi að skera niður framlög til nemenda á milli ára svo nemur háum fjárhæðum. Fjárln. hefur því miður ekki séð sér fært milli umræðna að koma koma til móts við fjárþörf þessarar merku stofnunar nema hvað varðar 16 millj. í búnað og viðhald sem er engan veginn fullnægjandi. Það er brýn nauðsyn að skólinn fái þann tækjakost sem hann þarfnast og honum er samboðinn og í öðru lagi það fé sem hann þarf til að geta gegnt lögboðnu hlutverki sínu en ætla honum ekki lækkun framlags á hvern nemanda, einum skóla á háskólastigi sem fá framlög á fjárlögum. Það er alvarleg áminning til forsvarsmanna þjóðarinnar að þetta flaggskip tækniþekkingar í landinu sjái sér þann kost vænstan að taka ekki við nýnemum árið 2000.

Það fé sem samkvæmt frv. er ætlað til Listaháskólans kemur ekki til með að duga stofnun á háskólastigi. Skólinn er nú á þróunarskeiði og vinnur út í reikning að því er mér skilst. Hann er einn af þeim skólum sem er sjálfsagt ætlað fé úr lið 299 Viðfangsefni 1.90 sem á að hækka um 128 millj. kr. óskipt og er ætlað í þá skóla sem ekki hafa lokið samningum. Sannarlega væri æskilegt að þau mál hefðu verið lengra komin við afgreiðslu fjárlaga. Það er fjárln. sem á að fara með fjárveitingavaldið, ekki framkvæmdarvaldið en mjög virðist sótt eftir því að það hafi meiri völd hvað þetta varðar.

Varðandi framhaldsskólana vil ég þakka sérstaklega að áætlað er að taka upp þriðja árið fyrir sérkennslunemendur á framhaldsskólastigi en það hefur verið baráttumál mitt í mörg ár að boðið yrði upp á aukinn stuðning við þessa hópa og aukna kennslu. Hér er aukið fjármagn til þessa verkefnis miðað við það sem áætlað var í fjárlagafrv. við 1. umr. Auk þess er gert ráð fyrir framlagi til kennslu skjólstæðinga Barnaverndarstofu á aldrinum 16--18 ára að upphæð 10 millj. Barnaverndarstofa mun annast kennslu þessara nemenda. Þessi atriði eru til bóta.

Fjárhagsstaða ýmissa framhaldsskóla hefur batnað síðan farið var að nota reiknilíkanið en í ljós hafa komið nokkrir vankantar á þeirri reglu. Í líkaninu er reiknað með virkum nemendum. Ef skólar taka við mörgum nemendum með lélegan grunn og brottfall verður þar af leiðandi mikið koma þeir mjög illa út. Brýnt er að ráða bót á þessu.

Menntastofnanir eiga því miður líka við uppsafnaðan vanda að etja sem virðist því miður ekki vera tekið á nema að hluta í þeim fjáraukalögum sem við erum að afgreiða á Alþingi þessa dagana. Þó verður að segja að meðal gleðilegra breytinga sem orðið hafa á frv. milli umræðna og ástæða er til að fagna sérstaklega er að framlög til jöfnunar á námskostnaði hafa verið aukin milli umræðna en um það höfðu verið gefin fyrirheit í tillögu til byggðaáætlunar sem samþykkt var á síðasta þingi. Þetta er brýnt hagsmunamál þeirra sem búa í dreifbýli og þurfa að senda unglingana sína burt í framhaldsnám með ærnum tilkostnaði. Þeir sitja engan veginn við sama borð og aðrir hvað aðstöðu til framhaldsnáms snertir.

Ekki eru gefin nein fyrirheit í fyrirliggjandi fjárlögum um að upphæð grunnlána úr LÍN verði endurskoðuð að undangenginni könnun á framfærslukostnaði námsmanna sem lög mæla fyrir um. Námsmenn telja sig eiga erfitt með að ná endum saman nú í góðærinu enda hafa námslán alls ekki hækkað í takt við tilkostnað. Rétt er að minna á að þarna er um lán að ræða, ekki styrki, lán sem öll verða greidd með vöxtum og verðbótum. Miklar hömlur eru á hve lengi hver einstaklingur getur notið þessara lána og endurgreiðslukrafan er tiltölulega hörð. Væri óskandi ef ráðamenn sæju sér fært að ganga til þessa verks sem fyrst.

Mestur áfellisdómur yfir þeirri stjórnarstefnu sem hér liggur fyrir í þessu frv. til fjárlaga er skýrsla sem á dögunum var lögð fram af Félagsvísindastofnun Háskólans. Hún staðfestir það sem áður hefur þó verið haldið fram af okkur ýmsum alþingismönnum. Þeir öryrkjar og ellilífeyrisþegar sem hafa lítið eða ekkert til að styðjast við annað en bætur frá því opinbera búa við meiri og illvígari fátækt en þekkist í þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Sjúkradagpeningar sem eru greiddir hér á landi eru einnig fyrir neðan allt velsæmi. Íslenska leiðin hefur skýrslan verið kölluð af höfundum sínum. Þær alvarlegu upplýsingar um stöðu þeirra sem verst standa á meðal okkar og skýrslan bregður ljósi á hafa gert það að verkum að skýrslan er kölluð Íslenska leiðin.

Því miður hafa stjórnvöld á Íslandi meiri áhuga á að bæta líf og uppeldi hesta á Íslandi en að bæta kjör þessa fólks. Til þess að bæta úr því hafa nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram brtt. við frv. til fjárlaga um hækkun lífeyristrygginga og sjúkratrygginga. Mun Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gera nánari grein fyrir þeirri tillögu sem hún er 1. flm. að hér á eftir.

E.t.v. væri það veglegasta sem við gætum gert á Íslandi í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar á Íslandi og ég tala nú ekki um landafundina að sleppa öllum veisluhöldum en láta þá fjármuni sem þannig sparast renna til að bæta hag þeirra sem minnst hafa fyrir sig að leggja. Það mundi a.m.k. sýna að til einhvers hefðum við tekið kristna trú. Auk þess vil ég vekja athygli á tillögu sem Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt fram um að 0,5% verði tekin af öllum fjárlagaliðum ráðuneyta og látið renna til þessa verkefnis. Mér finnst sú tillaga athyglisverð og fleira mætti finna í þessum ágætu frumvörpum sem mætti missa sín án þess að það yrði héraðsbrestur. Jafnvel þó skrautreið landsliðs hestamanna yrði ekki alveg eins dönnuð fyrir bragðið. Íslenska leiðin er það þjóðarmein sem við verðum að snúa okkur að því að leysa og vera snögg að því.