Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 21:57:58 (2761)

1999-12-10 21:57:58# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[21:57]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddi í upphafi ræðu sinnar um að menn væru að ljúga saman fjárlögum með tekjugreininni í 3. umr. Ég hef verið í þessari fjárlagagerð í nokkuð mörg ár og það hefur harðlega verið deilt á okkur við 3. umr. fyrir að fara varlega í að áætla tekjugreinina. Ég held að menn minnist þeirrar umræðu frá mörgum undanförnum árum að stjórnarandstaðan hefur deilt harðlega á okkur fyrir að vanáætla tekjugreinina. Það hefur auðvitað verið rétt en hið góða sakar ekki.

Hins vegar vil ég taka fram, af því að þingmaðurinn mælti nokkur varnaðarorð í lokin, að það er ástæða til að reyna að greiða niður skuldir nú meðan vel árar. Það hefur verið gert í mjög miklum mæli.

Mér finnst aftur miður hve þingmaðurinn gerir lítið úr byggðamálatillögum í þessu frv. Ég segi fyrir mig að það eru mjög margar veigamiklar byggðamálatillögur í þessu frv. sem ég hef ekki tíma til að telja upp aftur í andsvari mínu. Ég gerði grein fyrir þeim í ræðu minni í dag. Mér finnst einkennilegt að hann noti ræðu sína hér við fjárlög til að hnýta í aðgerðir til að koma upp arðbærum atvinnuvegum úti á landsbyggðinni, eins og t.d. stóriðju. En það er annað mál sem við eigum eftir að ræða seinna. Ég ætla ekki að ræða það frekar í þessu stutta andsvari.