Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:03:23 (2764)

1999-12-10 22:03:23# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei sagt að eina aðferðin eða eina úrræðið í þessum efnum væru fjárveitingar ríkissjóðs. Það hef ég ekki sagt. Ég tók einmitt skýrt fram að það væri hluti af þeim aðgerðum sem menn gætu ráðist í og gæti hjálpað á þeim sviðum þar sem fjárframlög frá ríkinu eða hinu opinbera kæmu að gagni og nýttust til uppbyggilegra verkefna. Hv. þm. getur ekki sett samasemmerki á milli allrar atvinnuuppbyggingar og stóriðjuáforma ríkisstjórnarinnar á Austfjörðum. Það er bara ekki frambærilegur málflutningur. Það er barnalegt að reyna að gera ræðumann að allsherjarandstæðingi arðbærs atvinnulífs vegna þess að ég er andvígur stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar. Það er málflutningur sem dæmir sig sjálfur.